Icelandic
Birt: 2017-02-28 17:12:05 CET
Eik fasteignafélag hf.
Ársreikningur

Eik fasteignafélag hf.: Ársreikningur Eikar fasteignafélags hf. 2016

  • Rekstrartekjur ársins námu 6.746 m.kr.
  • Leigutekjur ársins námu 5.651 m.kr. samanborið við 5.564 m.kr. árið 2015.
  • Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir nam 4.501 m.kr.
  • Heildarhagnaður ársins nam 3.647 m.kr.
  • Handbært fé frá rekstri nam 2.681 m.kr. á árinu.
  • Bókfært virði fjárfestingareigna nam 72.999 m.kr.
  • Eignir til eigin nota námu 3.712 m.kr.
  • Matsbreyting var jákvæð á árinu um 2.514 m.kr.
  • Vaxtaberandi skuldir námu 47.316 m.kr. í árslok.
  • Eiginfjárhlutfall nam 33,1%.
  • Hagnaður á hlut var 1,06.
  • Virðisútleiguhlutfall var 95,3% í lok árs, 96,4% að teknu tilliti til þróunareigna.
  • Stjórn leggur til að greiddur verði út 930 m.kr. arður, 0,27 kr. á hlut.

Ársreikningur Eikar fasteignafélags var samþykktur af stjórn félagsins í dag, 28. febrúar 2017.

Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri:

"Rekstur Eikar fasteignafélags gekk vel á árinu 2016 og var í takt við áætlanir félagsins. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingar og afskriftir var 4.501 m.kr. og hagnaður félagsins var 3.647 m.kr. Eik fasteignafélag fékk Heimshótel afhent um miðjan apríl og hefur rekstur Hótels 1919 gengið vel frá afhendingu.

Félagið fór í umfangsmiklar framkvæmdir á árinu. Framkvæmdir við Suðurlandsbraut 8 eru á lokametrunum og uppsteypa á Suðurlandsbraut 10 er komin vel á veg. Ljóst er að byggingarnar munu auðga götuásýnd Suðurlandsbrautar en vinningstillaga Arkís arkitekta lagði mikið upp úr því að skapa nýtt kennileiti. Þá hefur ásýnd Smáratorgs 1 verið bætt til betri vegar og umferðaflæði um lóðina verið einfaldað.

Afhending á Slippnum, fasteignafélagi mun fara fram á morgun, 1. mars. Fasteignirnar passa einstaklega vel að eignasafni Eikar og verða 99% hóteleigna Eikar fasteignafélags staðsettar í miðbæ Reykjavíkur eftir kaupin.

Það var ánægjuefni þegar félagið fékk tilkynningu þess efnis að frá og með 1. janúar 2017 yrði félagið hluti af OMXI8 hlutabréfavísitölu NASDAQ Iceland."

 

Félagið hefur gefið út ársskýrslu félagsins, sem hefur að geyma ítarlegar upplýsingar um félagið og rekstur þess á árinu 2016 ásamt ársreikningi. Skýrslan er meðfylgjandi þessari tilkynningu og má einnig finna á heimasíðu félagsins, www.eik.is.

Ársreikningur Eikar fasteignafélags hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess og er hann gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Endurskoðendur félagsins, KPMG ehf., hafa endurskoðað reikninginn og áritað hann fyrirvaralaust.

Tillaga um arðgreiðslu

Félagið hefur sett sér arðgreiðslustefnu um að greiða árlega út arð sem nemur um 35% af handbæru fé frá rekstri hvers árs. Í samræmi við stefnuna leggur stjórn félagsins til við aðalfund, sem haldinn verður 27. mars n.k., að greiddur verði út 930 m.kr. (0,27 kr. á hlut) arður til hluthafa á árinu 2017 vegna rekstrarársins 2016.

Horfur

Félagið hefur gefið út ítarlega rekstraráætlun fyrir árið 2017 sem finna má í meðfylgjandi ársskýrslu félagsins og á heimasíðu þess, www.eik.is.

Eignasafn félagsins

Samstæða Eikar samanstendur af móðurfélaginu og fjórum dótturfélögum. Eitt af dótturfélögum Eikar er Landfestar, en undir Landfestum eru þrjú önnur dótturfélög. Fasteignirnar innan samstæðunnar eru rúmlega 100 talsins og telja um 287 þúsund útleigufermetra í 600 leigueiningum og eru leigutakarnir á fimmta hundrað. Helstu fasteignir félagsins eru Smáratorg 1 og 3 (Turninn) í Kópavogi, Borgartún 21, 21a og 26, Glerártorg á Akureyri, Skútuvogur 14-16, Austurstræti 5, 6, 7 og 17, Þingholtsstræti 3-5 og Pósthússtræti 2.

Stærsti eignaflokkur félagsins er skrifstofuhúsnæði sem er 47% af virði alls fasteignasafnsins. Annar stærsti eignaflokkurinn er verslunarhúsnæði, eða 28% safnsins. Þriðji stærsti eignarflokkurinn er lagerhúsnæði, eða 10% safnsins. Hótel er 8% safnsins og annað húsnæði 7%.

Fjárhagsdagatal 2017

Stefnt er að birtingu árshluta- og ársuppgjöra á neðangreindum dagsetningum:

Aðalfundur                                                     27. mars 2017

Árshlutauppgjör 1. ársfjórðungs 2017                  4. maí 2017

Árshlutauppgjör 2. ársfjórðungs 2017               31. ágúst 2017

Árshlutauppgjör 3. ársfjórðungs 2017           8. nóvember 2017

Ársuppgjör 2017                                            26. febrúar 2018

Birtingar fjárhagsupplýsinga mun eiga sér stað eftir lokun markaða.


Meðfylgjandi er ársskýrsla 2016 sem inniheldur ársreikning 2016.

Nánari upplýsingar veita:

Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri, gardar@eik.is, s. 590-2200
Lýður H. Gunnarsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, lydur@eik.is s. 590-2200 / 820 8980


Arsskyrsla 2016.pdf