Icelandic
Birt: 2016-08-29 01:19:24 CEST
Vátryggingafélag Íslands hf.
Breyting á stjórn/framkvæmdastjórn/endurskoðendum

Jakob Sigurðsson ráðinn forstjóri VÍS

Stjórn VÍS og Sigrún Ragna Ólafsóttir, forstjóri félagsins, komust í dag að samkomulagi um að hún láti af störfum hjá félaginu. Stjórnin hefur ákveðið að ráða Jakob Sigurðsson forstjóra VÍS. Hann er með B.S. gráðu í efnafræði frá Háskóla Íslands og MBA gráðu frá Kellogg stjórnunarskólanum við Northwestern-háskóla í Illinois í Bandaríkjunum. Hann starfaði sem forstjóri Promens á árunum 2011-2015, var framkvæmdastjóri viðskiptasviðs Íslenskrar erfðagreiningar frá 2006-2011 og framkvæmdastjóri Alfesca, áður SÍF, frá 2004-2006. Hann gegndi áður stjórnunarstöðum hjá alþjóðlega efnafyrirtækinu Rohm and Haas í Bandaríkjunum og í Evrópu.

Herdís Fjeldsted, formaður stjórnar VÍS: „Við erum afar ánægð með að hafa fengið Jakob til að taka við stjórnartaumunum hjá VÍS. Hann hefur mikla og fjölþætta stjórnunarreynslu sem mun nýtast VÍS vel í þeim verkefnum sem framundan eru.  Vátryggingamarkaðurinn er í mikilli gerjun og reynsla Jakobs af því að móta og framfylgja skýrri framtíðarsýn og byggja upp sterka liðsheild, mun koma viðskiptavinum félagsins til góða á komandi mánuðum og misserum. Sigrún Ragna tók við félaginu fyrir fimm árum á miklum umbrotatímum og leiddi það meðal annars í gegnum skráningu á almennan hlutabréfamarkað. Ég vil fyrir hönd stjórnar þakka henni fyrir góð störf í þágu VÍS.“

Jakob Sigurðsson, forstjóri VÍS: „Það er mjög spennandi að taka við VÍS á þessum tímapunkti. Félagið hefur góða stöðu á markaði og öflugt net þjónustustaða um allt land sem er mikill styrkur fyrir fyrirtækið. Tryggingafélag er í nánu sambandi við viðskiptavini sína, þjónustan snýst um fólk og að vera til staðar þegar eitthvað bjátar á. Mér finnst það mjög áhugaverður vettvangur og ég hlakka til að kynnast starfsfólki VÍS og viðskiptavinum á næstu dögum og vikum.“

Sigrún Ragna Ólafsdóttir, fráfarandi forstjóri VÍS: „Ég kveð VÍS eftir viðburðarík fimm ár þar sem unnið hefur verið að mörgum stórum verkefnum sem hafa styrkt stöðu félagsins til framtíðar. Ég er stolt af þeim árangri sem náðst hefur  á þessum tíma og vil þakka starfsfólki og viðskiptavinum fyrir samstarfið og samfylgdina. Ég óska þeim og VÍS velfarnaðar í framtíðinni.“

 

Frekari upplýsingar:

Herdís Fjeldsted, formaður stjórnar VÍS. Sími 560 5179.