Icelandic
Birt: 2016-08-22 11:15:19 CEST
TM hf.
Breyting á stjórn/framkvæmdastjórn/endurskoðendum

Nýir framkvæmdastjórar tjónaþjónustu og einstaklingsráðgjafar og markaðsmála hjá Tryggingamiðstöðinni

Gengið hefur verið frá ráðningu Kjartans Vilhjálmssonar hdl., sem nú gegnir starfi framkvæmdastjóra tjónaþjónustu TM, í starf framkvæmdastjóra einstaklingsráðgjafar og markaðsmála hjá félaginu. Ragnheiður Agnarsdóttir, fráfarandi framkvæmdastjóri einstaklingsráðgjafar og markaðsmála TM, lætur af störfum hjá félaginu frá og með 1. september nk. og mun Kjartan taka við hennar starfi frá og með sama degi.

Björk Viðarsdóttir hdl., sem hefur veitt persónutjónum TM forstöðu síðastliðin sex ár, tekur við starfi framkvæmdastjóra tjónaþjónustu félagsins frá og með 1. september nk.

Kjartan útskrifaðist sem Cand. jur. frá lagadeild Háskóla Íslands árið 2005 og öðlaðist málflutnings-réttindi fyrir héraðsdómi 2006. Kjartan hefur starfað hjá TM frá 2005, fyrst sem lögfræðingur tjónaþjónustu og síðar sem deildarstjóri líkamstjóna. Kjartan hefur verið framkvæmdastjóri tjónaþjónustu TM frá maí 2008. 

Björk útskrifaðist sem Cand. jur. frá lagadeild Háskóla Íslands í júní 2004 og lauk málflutningsprófi fyrir héraðsdómi 2009. Hún starfaði hjá Útlendingastofnun á árunum 2005 – 2007, sem lögfræðingur og síðar forstöðumaður. Björk hóf störf hjá TM í ágúst 2008 sem lögfræðingur í tjónaþjónustu félagsins en hefur gegnt starfi forstöðumanns persónutjóna frá 2010.