Published: 2016-07-27 22:56:30 CEST
Icelandair Group hf.
Reikningsskil

CORRECTION: Góð afkoma á öðrum ársfjórðungi. Útlit fyrir góða afkomu á árinu, þótt ytri þættir valdi lækkun á afkomuspá.

  • EBITDA á 2. ársfjórðungi 52,4 milljónir USD samanborið við 50,3 milljónir USD á síðasta ári.
  • 18% fjölgun farþega í millilandaflugi og góð sætanýting.
  • Heildartekjur jukust um 13%.
  • Hagnaður eftir skatta var 26,2 milljónir USD og eykst um 17% á milli ára.
  • Eiginfjárhlutfall var 39% í lok júní.
  • Handbært fé frá rekstri var 119,6 milljónir USD samanborið við 86,7 milljónir USD árið áður.
  • Erfiðari rekstrarskilyrði flugfélaga á seinni hluta ársins. Hryðjuverk í Evrópu og niðurstaða atkvæðagreiðslu um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu hafa skapað óvissu á mörkuðum.

 

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri

„Rekstur félagsins gekk vel á tímabilinu við krefjandi aðstæður og hefur afkoman aldrei verið betri á öðrum ársfjórðungi. Umsvif fyrirtækisins hafa aukist mikið og flutti félagið til dæmis tæplega 150 þúsund fleiri farþega í millilandaflugi á öðrum ársfjórðungi en árið áður. Ferðamönnum til Íslands fjölgar enn og ferðaþjónustan skipar sífellt stærri sess í íslensku efnahagslífi. Það er afar mikilvægt að uppbygging innviða haldist í hendur við fjölgun ferðamanna og að fjárfestingar séu í takt við þær tekjur sem greinin skapar fyrir þjóðarbúið.

Við færum nú niður afkomuspá okkar fyrir árið, vegna þeirrar óvissu sem er á mörkuðum. Hryðjuverk í Evrópu og niðurstaða atkvæðagreiðslu um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu hafa valdið lækkun meðalfargjalda og skapað óvissu sem gerir rekstrarskilyrði flugfélaga erfiðari. Fjárhagsstaða félagsins er sterk og sveigjanleiki félagsins er mikill þrátt fyrir mikinn vöxt á undanförnum árum. Félagið er því vel í stakk búið til þess að bregðast við þeim áskorunum sem tímabundin ókyrrð á mörkuðum veldur og jafnframt til þess að grípa þau tækifæri sem munu skapast til lengri tíma.

Nú er háannatími í ferðaþjónustu og mikilvægir mánuðir í rekstrinum. Fyrirtækið hefur vaxið mikið á undanförnum árum og starfsfólk og samstarfsaðilar hafa ár eftir ár unnið frábært starf við þjónustu við viðskiptavini okkar. Bókunarstaðan í millilandaflugi næstu mánuði er góð og þrátt fyrir lækkun meðalverða eru góðar horfur í rekstri félagsins út árið og til langs tíma litið.“

 

Nánari upplýsingar veita:

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group
sími: 896-1455

Bogi Nils Bogason, framkvæmdastjóri fjármála Icelandair Group
sími: 665-8801