Icelandic
Birt: 2016-03-03 19:27:20 CET
Kvika banki hf.
Boðun hluthafafundar

Kvika banki hf.: Fundarboð aðalfundar 17. mars 2016

Aðalfundur Kviku banka hf., kt. 540502-2930, verður haldinn þann 17. mars 2016, á starfsstöð félagsins að Borgartúni 25, 8. hæð, 105 Reykjavík, kl. 12:00.

Á dagskrá fundarins verða eftirfarandi liðir:

  1. Skýrsla stjórnar félagsins um starfsemi þess síðastliðið starfsár.
  2. Ársreikningur félagsins fyrir starfsárið 2015 verður lagður fram til samþykktar. Samhliða afgreiðslu ársreiknings skal ákveða hvernig skuli fara með hagnað eða tap félagsins á reikningsárinu.
  3. Tillaga stjórnar um breytingar á samþykktum félagsins.
  4. Tillaga um að stjórn verði falið að undirbúa lækkun á hlutafé félagsins..
  5. Tillaga stjórnar um kaupréttaráætlun.
  6. Kosning stjórnar og varastjórnar félagsins.
  7. Kosning endurskoðenda félagsins.
  8. Starfskjarastefna félagsins.
  9. Ákvörðun þóknunar til stjórnarmanna.
  10. Samantekt stjórnar um hlutafjáreign og samstæðutengsl.
  11. Önnur mál.

Tillaga um að stjórn verði falið að undirbúa lækkun á hlutafé félagsins:

Lagt er til að stjórn félagsins verði falið að undirbúa tillögu að lækkun á hlutafé félagsins með greiðslu til hluthafa allt að kr. 1.250.000.000,-. Fyrirkomulag lækkunarinnar verður með þeim hætti að öllum hluthöfum gefst kostur á að setja fram tilboð til Kviku um innlausn á hlutum á því verði sem hver og einn hluthafi kýs að innleysa hlutbréf sín á, að hluta eða öllu leyti á. Þeir hluthafar sem bjóða lægsta innlausnarverðið fyrir hluti fá innlausn allt þar til innlausnarverði að fjárhæð kr. 1.250.000.000 hefur verið náð. Stjórn félagsins skal setja nánari reglur um innlausnina til að tryggja hlutlægni og jafnræði við framkvæmdina. Stjórn skal vera heimilt að hafna öllum tilboðum. Endanleg ákvörðunin um fjárhæð lækkunarinnar verður hjá hluthafafundi að fenginn tillögu stjórnar.

Tillaga um arðgreiðslu:

Stjórn leggur til að ákvörðun um útgreiðslu arðs verði frestað til framhaldsaðalfundar þegar niðurstöður framangreinds innlausnarferlis og ákvörðun um lækkun hlutafjár liggja fyrir.

Tillaga stjórnar um kaupréttaráætlun:

Lagt er til að stjórn félagsins verði heimilt að gefa út kaupréttaráætlun fyrir starfsmenn sem veitir starfsmönnum árlegan rétt til að kaupa hlutabréf í félaginu fyrir kr. 600.000 á hverju ári næstu þrjú árin, árin 2016 til og með 2018. Hver kaupréttur skal vera til þriggja ára og falla niður ef starfsmaður lætur af störfum. Kaupverð skal miðast við gangverð hlutabréfanna þegar kaupréttarsamningur er gerður og starfsmenn skulu eiga hlutabréfin í tvö ár frá því kaupréttur er nýttur. Öllum starfsmönnum félagsins skal veittur sami réttur. Kaupréttaráætlunin skal uppfylla skilyrði 10. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, reglna FME um kaupaukakerfi fjármálafyrirtækja og starfskjarastefnu/kaupaukakerfi félagsins.

Dagskrá, endanlegar tillögur, svo og ársreikningur félagsins munu liggja frammi á skrifstofu félagsins hluthöfum til sýnis 14 dögum fyrir aðalfund.

Atkvæðaseðlar og önnur fundargögn verða afhent á aðalfundardaginn frá kl. 11:00 á fundarstað.

HUG#1991762