Icelandic
Birt: 2016-03-03 19:18:07 CET
Kvika banki hf.
Reikningsskil

Kvika banki hf.: Afkoma Kviku banka 2015

Á stjórnarfundi þann 3. mars 2016, samþykkti stjórn og forstjóri ársreikning samstæðu Kviku banka hf. fyrir árið 2015.

Sigurður Atli Jónsson, forstjóri Kviku:

"Árið 2015 var viðburðaríkt og markað af sameiningu MP banka hf. og Straums fjárfestingabanka hf. undir merkjum Kviku banka hf. Það er krefjandi verkefni að sameina tvö öflug fyrirtæki í eitt og mæddi mikið á starfsfólki Kviku sem stóð sig frábærlega. Rekstrarleg markmið samrunans hafa náðst, strax á fyrsta ári hans. Rekstrarkostnaður er um 14% lægri en hann var sameiginlega fyrir samrunann. Sameiginlegur fjárhagslegur styrkur er umtalsvert meiri eins og há eiginfjár- og lausafjárhlutföll bera vott um. Fjárfestar og innlánseigendur hafa tekið Kviku mjög vel. Innlán jukust á árinu, við hófum víxlaútgáfu og vorum fyrsti bankinn eftir fjármálakreppu til að selja og skrá á markað víkjandi skuldabréf."

Góð afkoma af reglulegri starfsemi

Hagnaður af reglulegri starfsemi nam 685 m.kr. á árinu og arðsemi virks eiginfjár 11% þegar leiðrétt hefur verið fyrir samruna- og einskiptiskostnaði. Síðari helmingur ársins var bankanum hagfelldur en þá nam hagnaður af reglulegri starfsemi 464 m.kr. og arðsemi eiginfjárþáttar A var 15,1% á tímabilinu.

Í kjölfar samrunans var ráðist í umtalsverðar hagræðingaraðgerðir sem styrkja munu rekstur bankans á komandi árum. Af þeim sökum er afkoma Kviku á síðasta ári lituð af samruna- og einskiptiskostnaði en að teknu tilliti til hans nam tap bankans 483 m.kr. eftir skatta. Hafa ber í huga að samruninn skekkir samanburð á milli ára og samanburðartölur í ársreikningi ná aðeins til MP banka nema annað sé tekið fram.

Hreinar þóknanatekjur námu 2.608 m.kr. á árinu og hækkuðu um 878 m.kr. frá fyrra ári eða um 51%. Hreinar vaxtatekjur námu 1.124 m.kr. samanborið við 1.302 m.kr. árið 2014. Lækkunin skýrist m.a. af hærra hlutfalli lausafjáreigna og lengri fjármögnun bankans sem endurspeglast í mikilli hækkun lausafjárhlutfalls. Vaxtamunur útlána á síðasta ári var 3,4%.

Sterk fjárhagsleg staða í árslok

Í árslok 2015 námu heildareignir samstæðu Kviku 61.614 m.kr. samanborið við 49.344 m.kr. í lok árs 2014 og nemur hækkunin um 25%. Áhættuvegnar eignir námu 28.477 m.kr. eða einungis 46,2% af heildareignum. Vegna endurgreiðslna og sölu útlána drógust heildarútlán lítillega saman á milli ára. Þau námu 21.593 m.kr. í árslok samanborið við 22.287 m.kr. árið 2014. Hlutfall lána í vanskilum umfram 90 daga er stöðugt og áfram lágt miðað við samanburðaraðila, 0,6% í lok árs.

Lausafjárstaðan er sem áður mjög góð og var lausafjárþekjan (LCR) 199% í lok árs sem er langt umfram kröfu eftirlitsaðila um 80% lágmarksþekju. Heildarinnlán jukust um 1.783 m.kr. milli ára en þau námu 31.259 m.kr. í árslok 2015 samanborið við 29.476 m.kr. árið áður.

Bankinn styrkti fjármögnun sína á árinu og gaf út víxla og víkjandi skuldabréf að andvirði 5.770 m.kr. Tveir flokkar víxla og víkjandi skuldabréf bankans voru tekin til viðskipta á Nasdaq Iceland og nam nafnverð útistandandi skráðra verðbréfa 4.550 m.kr. í lok árs.

Handbært fé í árslok nam 19.917 m.kr. sem er hækkun um 6.947 m.kr. á árinu og aðrar lausafjáreignir námu 17.812 m.kr. Hlutfall lausafjáreigna og handbærs fjár af heildarskuldum bankans í árslok nam 68%.

Eigið fé jókst umtalsvert á árinu, einkum vegna sameiningarinnar. Virkt eigið fé var 6.379 m.kr. í lok árs og jókst um 1.610 m.kr. á árinu. Víkjandi fjármögnun var 552 m.kr. í lok árs eftir útgáfu bankans á víkjandi skuldabréfi á síðari árshelmingi. Eiginfjárhlutfall bankans hækkaði mikið á árinu og var 23,5% í lok árs samanborið við 17,4% í árslok 2014. Eiginfjárstaðan er því sterk og vel umfram lágmarkskröfu eftirlitsaðila um 11,8% eiginfjárhlutfall.

Það helsta úr starfsemi bankans

  • MP banki hf. og Straumur fjárfestingabanki hf. sameinuðust formlega 29. júní 2015. Í kjölfarið fékk sameinaður banki nýtt nafn, Kvika banki hf. og nýjar höfuðstöðvar í Borgartúni 25 í Reykjavík. Framtíðarsýn bankans er að vera sérhæfður fjárfestingarbanki með eignastýringu sem burðarás.
     
  • Kvika var umsvifamest í viðskiptum á Nasdaq Iceland á síðasta ári. Heildarvelta Kviku nam 1.268 milljörðum króna eða um 27% af heildarviðskiptum ársins.
  • Kvika seldi víkjandi skuldabréf að nafnvirði 550 m.kr. á árinu en þetta var í fyrsta skipti frá október 2008 sem íslenskur banki seldi víkjandi skuldabréf til fjárfesta.
  • Eignir í stýringu Kviku hafa aukist umtalsvert og námu um 111 milljörðum króna í lok árs samanborið við 75 milljarða króna í upphafi þess. Af þessari fjárhæð eru um 30 milljarðar króna í sjóðum í rekstri dótturfélagsins Júpíters.  
  • Gefnir voru út tveir flokkar skuldabréfa á árinu í samvinnu við rekstrarfélagið Stefni með veði í lánasafni. Um var að ræða nýja vöru sem Kvika í samstarfi við Stefni komu með á fjármálamarkaðinn.
  • Starfsemi Júpíters rekstrarfélags gekk afar vel á árinu og stuðlaði félagið að aukningu eigna í stýringu innan samstæðunnar. Eignir í stýringu Júpíters jukust um 50% á árinu.
  • Kvika er fremst í flokki íslenskra banka og fjármálafyrirtækja á sviði eignastýringar árið 2015, að mati breskra fjármálatímaritsins World Finance. Tímaritið útnefnir árlega fyrirtæki fyrir framúrskarandi árangur og var þetta annað árið í röð sem bankinn fær viðurkenninguna.
  • Kvika seldi hlut sinn í Íslenskum verðbréfum á árinu. Kaupandinn var dreifður hópur fjárfesta auk lykilstarfsmanna Íslenskra verðbréfa. Engin breyting varð á starfsemi Kviku vegna sölunnar enda hafði engin samþætting átt sér stað á milli Kviku og Íslenskra verðbréfa.

 

Um Kviku 

Kvika er sérhæfður fjárfestingabanki sem sinnir þörfum viðskiptavina á afmörkuðum syllum með fagþekkingu og sérhæfðu vöruframboði. Burðarás Kviku er öflug eignastýring og bankinn veitir sparifjár- og innlánseigendum alhliða þjónustu. Hjá Kviku starfar samhentur hópur 86 sérfræðinga sem nær árangri í krafti menntunar, markaðsþekkingar og víðtækrar reynslu. Forstjóri er Sigurður Atli Jónsson og formaður stjórnar er Þorsteinn Pálsson. Eignarhald Kviku er gagnsætt og er hann eini bankinn sem er að nær fullu í eigu einkaaðila s.s. lífeyrissjóða, fyrirtækja og einstaklinga. Nánar á: www.kvika.is. 

HUG#1991761


Afkomutilkynning Kviku banka 2015.pdf
Kvika banki hf - Consolidated Financial Statements 31 12 15.pdf