English Icelandic
Birt: 2015-11-19 19:48:39 CET
Eimskipafélag Íslands hf.
Reikningsskil

Eimskip kynnir afkomu þriðja ársfjórðungs 2015

  • Rekstrartekjur voru 129,7 milljónir evra, jukust um 10,1 milljón evra eða 8,5% frá Q3 2014
  • EBITDA nam 16,4 milljónum evra, jókst úr 12,6 milljónum evra eða um 29,5% frá Q3 2014
  • Hagnaður nam 8,5 milljónum evra, jókst úr 7,5 milljónum evra eða um 12,7% frá Q3 2014
  • Flutningsmagn í áætlunarsiglingum á Norður-Atlantshafi jókst um 2,8% frá Q3 2014
  • Flutningsmagn í frystiflutningsmiðlun jókst um 1,0% frá Q3 2014
  • Eiginfjárhlutfall var 61,0% og nettóskuldir námu 52,5 milljónum evra í lok september
  • Áætlaðri EBITDA ársins 2015 hefur verið breytt og er hún á bilinu 44,5 til 46,5 milljónir evra

Gylfi Sigfússon, forstjóri

„Rekstrartekjur og EBITDA á þriðja ársfjórðungi 2015 eru þær hæstu á einum ársfjórðungi frá árinu 2009. Rekstrartekjur voru 129,7 milljónir evra og jukust um 8,5% frá þriðja ársfjórðungi á fyrra ári, en þar af var söluhagnaður vegna skips í smíðum að fjárhæð 2,0 milljónir evra. EBITDA nam 16,4 milljónum evra og er það 29,5% hækkun frá þriðja ársfjórðungi 2014. Hagnaður eftir skatta nam 8,5 milljónum evra á fjórðungnum samanborið við 7,5 milljónir evra í fyrra og jókst um 12,7%.

Flutningsmagn í áætlunarsiglingum félagsins á Norður-Atlantshafi á fjórðungnum jókst um 2,8% samanborið við þriðja ársfjórðung í fyrra. Mikill vöxtur var í flutningum tengdum Íslandi á meðan minni vöxtur var í Noregi sem skýrist meðal annars af því að færri skip voru í rekstri í Noregi vegna reglubundins viðhalds. Magn dróst lítillega saman í  Færeyjum sem skýrist af breyttu flutningamynstri á uppsjávarfiski. Flutt magn í frystiflutningsmiðlun óx einnig hægar en búist var við samanborið við þriðja ársfjórðung síðasta árs vegna erfiðra markaðsaðstæðna í Kína, en aðrir markaðir eru í ágætu horfi.

Tekjur félagsins á fyrstu níu mánuðum ársins jukust um 10,9% á milli ára og námu 369,0 milljónum evra. EBITDA fyrir tímabilið nam 35,5 milljónum evra og jókst um 5,7 milljónir evra á milli ára eða um 19,4%. Hagnaður eftir skatta jókst um 37,1% og nam 15,5 milljónum evra. Flutningsmagn í áætlunarsiglingum á Norður-Atlantshafi jókst um 2,2% frá sama tímabili í fyrra og magn í frystiflutningsmiðlun um 7,9%.

Í október 2015 fékk gráa leiðin aukið hlutverk þar sem öðru 500 gámaeininga leiguskipi var bætt við leiðina til að auka afkastagetu og bætt var við viðkomum í Århus í Danmörku, Halmstad í Svíþjóð og í Swinoujscie í Póllandi.

Fyrsti áfangi af nýrri tíu þúsund tonna frystigeymslu félagsins í Hafnarfirði var tekinn í notkun um miðjan nóvember. Gert er ráð fyrir að byggingu geymslunnar verði lokið fyrir árslok.

Varðandi vinnumarkaðinn á Íslandi þá er Eimskip nú í samningaviðræðum við félag skipstjórnarmanna og vélstjóra og samningar við aðra íslenska áhafnarmeðlimi verða lausir um áramótin. Ekki er ljóst á þessari stundu hver áhrif nýrra kjarasamninga verða.

Stjórn og stjórnendur Eimskips halda áfram að meta möguleg fjárfestingartækifæri til vaxtar í samræmi við framtíðarsýn félagsins. Nokkur verkefni eru í vinnslu sem væntanlega skýrast á næstu misserum.

Það er ánægjulegt að endurgreiðslu á innborgun á nýsmíði skips í Kína er lokið, en þann 13. október tilkynnti félagið um endurgreiðslu að fjárhæð 16,1 milljón dollara. Félagið skoðar ýmsa möguleika varðandi endurnýjun á skipum félagsins.

Horfur fyrir fjórða ársfjórðung eru góðar, októbermánuður er í takt við okkar væntingar og magn í flutningakerfum félagsins það sem af er nóvember gefur jákvæðar vísbendingar. Í ljósi þessa höfum við ákveðið að þrengja afkomuspá félagsins fyrir árið 2015 úr 43 til 47 milljónum evra í EBITDA á bilinu 44,5 til 46,5 milljónir evra.“

Frekari upplýsingar

  • Gylfi Sigfússon, forstjóri, sími: 525 7202
  • Hilmar Pétur Valgarðsson, framkvæmdastjóri fjármála- og stjórnunarsviðs, sími: 525 7202
  • Erna Eiríksdóttir, forstöðumaður fjárfestatengsla, sími: 825 7220, netfang: investors@eimskip.is

 


Eimskip - Financial Statements Q3 2015.pdf
Eimskip - Uppgjor rija arsfjorungs 2015.pdf