Published: 2015-11-09 16:50:00 CET

Eik fasteignafélag hf.: Nýr framkvæmdastjóri fjármálasviðs

Lýður Heiðar Gunnarsson hefur verið ráðinn nýr framkvæmdastjóri fjármálasviðs Eikar fasteignafélags hf. Hann mun taka við starfinu af Kolbeini Friðrikssyni á næstu mánuðum.

Lýður er viðskiptafræðingur að mennt frá Háskólanum í Reykjavík og lauk meistaraprófi í fjárfestingarstjórnun frá sama skóla árið 2010. Þá er Lýður löggiltur verðbréfamiðlari. Eiginkona Lýðs er Vigdís Ósk Helgadóttir fjármálastjóri og eiga þau tvo syni.

Lýður hefur víðtæka reynslu úr fjármálakerfinu. Frá árinu 2009 hefur hann starfað hjá Lífsverki lífeyrissjóði, nú síðast sem forstöðumaður eignastýringar. Þá starfaði hann á fjármálasviði FL Group hf. og á eignastýringarsviði Landsbanka Íslands hf. frá árinu 2002. Lýður hefur setið í ýmsum stjórnum eins og stjórn Nýs Norðurturns hf. og í verðbréfafyrirtækinu Virðingu hf. Þá er hann m.a. formaður fjárfestingaráðs Kjölfestu slhf. og situr í fjárfestingaráði Fjárfestingafélags Atvinnulífsins hf.

Lýður hefur víðtæka þekkingu úr fjármálakerfinu sem mun nýtast félaginu vel og efla það til framtíðar.  Hann hefur hagnýta reynslu af samskiptum við fjárfestatengla skráðra félaga og hefur unnið við fjárstýringu, áætlanagerð, uppgjör og gerð ársreikninga.  Þá hefur hann einnig unnið að  fasteignatengdum verkefnum, þ.á.m. greiningu og fjárfestingum í fasteignafélögum.

"Það verður mikill liðsstyrkur fyrir Eik fasteignafélag að fá Lýð til starfa enda er hann með góða reynslu úr viðskiptalífinu." segir Garðar Hannes Friðjónsson forstjóri Eikar.

Garðar vill þakka Kolbeini Friðrikssyni, fráfarandi framkvæmdastjóra fjármálasviðs Eikar, fyrir vel unnin störf undanfarin tvö ár sem hafa verið viðburðarík hjá Eik fasteignafélagi og óskar honum velfarnaðar á nýjum stað. Þá vill Garðar jafnframt þakka þann mikla áhuga á félaginu sem fjölmargar góðar umsóknir í starfið báru vitni um.

Nánari upplýsingar veitir:
Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri, gardar@eik.is, s. 590-2200 / 861-3027.

HUG#1965583