Icelandic
Birt: 2015-08-31 10:47:27 CEST
Eik fasteignafélag hf.
Reikningsskil

Eik fasteignafélag hf.: Árshlutauppgjör fyrstu sex mánuði 2015

-          Rekstrartekjur tímabilsins námu 2.883 m.kr.

-          Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir nam 1.971 m.kr.

-          Heildarhagnaður tímabilsins nam 1.522 m.kr.

-          Handbært fé frá rekstri nam 944 m.kr. á tímabilinu.

-          Bókfært virði fjárfestingareigna nam 63.851 m.kr. í lok tímabilsins.

-          Matsbreyting  fjárfestingareigna nam 1.455 m.kr. á tímabilinu.

-          Vaxtaberandi skuldir námu 41.848 m.kr. í lok tímabilsins.

-          Eiginfjárhlutfall nam 31%.

-          Hagnaður á hlut var 0,44 kr.

 

Árshlutareikningur Eikar fasteignafélags hf. fyrir tímabilið 1. janúar til 30. júní 2015 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins þann 31. ágúst 2015. Árshlutareikningurinn var kannaður af endurskoðanda félagsins.

Rekstur félagsins

Traustur og stöðugur rekstur einkennir uppgjör Eikar fasteignafélags hf. fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2015 og er uppgjör félagsins í takti við áætlanir stjórnenda félagsins. Litlar breytingar urðu á eignasafni félagsins á tímabilinu, en stórt skref var stigið á öðrum ársfjórðungi 2015 þegar félagið var skráð á Aðalmarkað Nasdaq Iceland hf. í lok apríl. Uppgjör tímabilsins einkennist því nokkuð af háum einskiptiskostnaði í tengslum við skráninguna, en án einskiptisliða líta uppgjörstölur og rekstrarkennitölur félagsins vel út.

Rekstrartekjur félagsins á fyrstu sex mánuðum ársins 2015 námu 2.883 m.kr., þar af voru leigutekjur 2.719 m.kr. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir nam 1.971 m.kr. Einskiptiskostnaður vegna skráningar hlutafjár félagsins á markað nam 88 m.kr. á tímabilinu. Vel heppnuðu skráningarferli félagsins lauk með skráningu hlutafjár þess í Kauphöll í lok apríl 2015 og er einskiptiskostnaður félagsins vegna skráningarinnar því að langmestu leyti kominn fram í uppgjöri félagsins á fyrri árshelmingi 2015. Hagnaður fyrir tekjuskatt nam 1.906 m.kr. og hagnaður tímabilsins nam 1.522 m.kr.

NOI hlutfall (þ.e. rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu, afskriftir og einskiptisliði sem hlutfall af leigutekjum) nam 75,7% á fyrri árshelmingi ársins 2015 og 75,9% á öðrum ársfjórðungi 2015, samanborið við 77,5% árið 2014. Arðsemi fjárfestingareigna (yield, þ.e. rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu, afskriftir og einskiptisliði sem hlutfall af meðalvirði fjárfestingareigna á tímabilinu) nam 6,5% á fyrri árshelmingi 2014 og 6,6% á öðrum ársfjórðungi 2015.

Fjárfestingareignir félagsins eru metnar á gangvirði í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS) og stuðst er við núvirt framtíðarsjóðstreymi einstakra eigna. Breytingar á gangvirði eru færðar undir matsbreytingu fjárfestingareigna sem nam á tímabilinu 1.455 m.kr.

Á árinu 2014 nánast þrefaldaðist félagið að stærð með kaupum á EF1 hf. og Landfestum ehf. Þar sem rekstur EF1 hf. og Landfesta ehf. var ekki kominn að fullu inn í rekstur samstæðunnar á fyrsta ársfjórðungi 2014 er samanburður við það tímabil nokkuð ómarktækur. EF1 og Landfestar komu að fullu inn í rekstur samstæðunnar á þriðja ársfjórðungi 2014.

Efnahagur félagsins

Heildareignir félagsins námu 65.827 m.kr. þann 30. júní 2015, þar af námu fjárfestingareignir 63.851 m.kr. Eigið fé félagsins nam 20.431 m.kr. í lok júní 2015 og var eiginfjárhlutfall 31%. Heildarskuldir félagsins námu 45.395 m.kr. þann 30. júní 2015, þar af voru vaxtaberandi skuldir 41.848 m.kr. og tekjuskattsskuldbinding 2.940 m.kr. 

Virðisútleiguhlutfall samstæðu Eikar í lok júní 2015 var 91,8% og hafði hækkað um 0,2% frá lok fyrra tímabils. Ef tekið er tillit til eigna í þróun þá var virðisútleiguhlutfallið óbreytt, eða 92,6% í lok júní 2015.

Eignasafn félagsins

Eik fasteignafélag hf. sinnir rekstri og útleigu á atvinnuhúsnæði. Fjöldi eigna félagsins er yfir 100 og telja þær samtals yfir 273 þúsund fermetra. Virði fjárfestingareigna félagsins er um 64 ma.kr. og heildarfjöldi leigutaka er yfir 400. Helstu eignir félagsins eru Borgartún 21 og 26, Nýi Glæsibær, Turninn í Kópavogi, Smáratorg og Austurstræti 5,6,7 og 17. Stærstu leigutakar eru Fasteignir ríkissjóðs, Húsasmiðjan, Landsbankinn, Rúmfatalagerinn, Skipti, Deloitte og VÍS.

Stærsti hluti fasteignasafns Eikar eru skrifstofuhúsnæði eða 48%. Næst koma verslunarhúsnæði 31%, lagerhúsnæði 9%, veitingahúsnæði 4% og hótel 3%. Um 88% fasteigna félagsins eru á höfuðborgarsvæðinu, þar af 39% á fjármála- og viðskiptasvæði Reykjavíkur (aðallega innan póstnúmera 105 og 108) og 13% í miðbæ Reykjavíkur. 12% eignasafnsins er á landsbyggðinni, þar af 10% á Akureyri.

Kynningarfundur

Opinn kynningarfundur verður haldinn þriðjudaginn 1. september 2015 klukkan 08:30 á 20. hæð í Turninum, Smáratorgi 3, Kópavogi. Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar, mun kynna uppgjör fyrstu sex mánuði 2015 og svara spurningum að lokinni kynningu ásamt Kolbeini Friðrikssyni, framkvæmdastjóra fjármálasviðs.

 

Nánari upplýsingar veita:

Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri, gardar@eik.is, s. 590-2200 / 861-3027

Kolbeinn Friðriksson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, kolbeinn@eik.is, s. 590-2209 / 781-2111.

HUG#1948587


2015 08 31 Eik Arshlutaskyrsla 2F 2015.pdf