English Icelandic
Birt: 2015-07-29 19:44:36 CEST
Marel hf.
Reikningsskil

Afkoma annars ársfjórðungs 2015-Mikill tekjuvöxtur og góð afkoma

Mikill tekjuvöxtur og góð afkoma
(Allar upphæðir eru í evrum)
 

  •  Tekjur á öðrum ársfjórðungi 2015 námu 218,3 milljónum evra [2F 2014: 169,8m].
     
  •  Leiðrétt EBITDA* á öðrum ársfjórðungi var 37,2 milljónir evra sem er 17,1% af tekjum. [2F 2014: 18,0m]. EBITDA var 38,1 milljón evra sem er 17,5% af tekjum [2F 2014: 13,0m].
     
  •  Leiðréttur rekstrarhagnaður* (adj. EBIT) á öðrum ársfjórðungi 2015 var 29,7 milljónir evra, sem er 13,6% af tekjum. [2F 2014: 10,7m]. EBIT var 28,5 milljónir evra sem er 13,1% af tekjum [2F 2014: 3,6m].
     
  •  Hagnaður annars ársfjórðungs 2015 nam 19,5 milljónum evra [2F 2014: 0,8m ]. Hagnaður á hlut var 2,71 evru sent [2F 2014:  0,10 evru sent].
     
  •  Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta nam 23,7 milljónum evra á öðrum ársfjórðungi 2015 [2F 2014: 20,4m]. Nettó vaxtaberandi skuldir í lok fjórðungsins námu 156,0 milljónum evra [2F 2014: 204,5m].
     
  •  Pantanabókin stóð í 165,9 milljónum evra í lok annars ársfjórðungs 2015 samanborið við 178 milljónir evra í lok fyrsta ársfjórðungs 2015.


Gott jafnvægi er á milli pantana í öðrum ársfjórðungi á milli uppbyggingaverkefna, endurnýjunar-verkefna og viðhaldsverkefna og söluverkefni dreifast vel á heimsvísu. Pantanastaða í fisk- og kjúklingaiðnaði er góð en markaðsaðstæður í áframvinnslu og kjöti hafa gefið lítillega eftir. Búast má við að tekjur í þriðja ársfjórðungi verði lægri en í öðrum ársfjórðungi vegna árstíðabundinna áhrifa og tímasetningu á afhendingu búnaðar til viðskiptavina. Heilt yfir eru markaðsaðstæður góðar.

Fyrri helmingur ársins 2015 var góður fyrir Marel með góðri aukningu í tekjum og hagnaði. Tekjur á fyrri helmingi ársins námu 428 milljónum evra og nam leiðréttur rekstrarhagnaður (e. EBIT) 12,5% af tekjum (53,5 milljónir evra) samanborið við 325 milljónir evra og 4,7% af tekjum á fyrri helmingi síðasta árs.

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri:

“Fyrri hluti ársins einkenndist af miklum tekjuvexti og afkomubata. Tekjur félagsins á fyrstu sex mánuðum ársins nema 428 milljónum evra og er rekstrarhagnaður félagsins 12,5% af tekjum, að teknu tilliti til einskiptisliða. Við erum stolt af árangrinum sem byggir á sterku vöruframboði, nánum tengslum við viðskiptavini og góðum markaðsaðstæðum.

Með nýsköpun og markvissri markaðssókn ætlar Marel sér að viðhalda stöðu félagsins sem leiðandi aðila á heimsvísu í þróun og framleiðslu á háþróuðum búnaði og kerfum til vinnslu á fiski, kjöti og kjúklingi. Fjárhagsstaða félagsins er firna sterk sem gefur okkur ýmis tækifæri til vaxtar.“


Einfaldara og skilvirkara Marel
Tveggja ára áætlun um einfaldara og skilvirkara Marel (e. Simpler, Smarter, Faster) gengur samkvæmt áætlun og mun renna sitt skeið í lok þessa árs. Markmið áætlunarinnar er að gera markaðssókn skilvirkari, að mæta þörfum viðskiptavina með skilvirkari hætti og lækka kostnaðargrunn félagsins.

Á öðrum ársfjórðungi var starfsemi Marel í háhraða skurðartækni í Norwich, Bretlandi seld til Middleby Corporation. Lokið var við söluna í febrúar og áttu formleg eigendaskipti sér stað í apríl. Salan hafði óveruleg jákvæð áhrif á rekstrarreikning annars ársfjórðungs og skilaði jákvæðu sjóðstreymi sem nam 9 milljónum evra. Fasteign Marel í Oss í Hollandi var seld í apríl og skilaði salan jákvæðu sjóðstreymi sem nemur 2,4 milljónum evra. Starfsemi félagsins í Oss hafði áður verið flutt til fjöliðnaðarseturs Marel í Boxmeer Í Hollandi.

Margháttaðar aðgerðir til hámörkunar á framleiðslukerfinu hafa komið til framkvæmda og hefur framleiðslustöðum verið fækkað úr 19 í 11. Búast má við að kostnaður vegna hagræðingaraðgerða muni aukast á seinni helmingi ársins samanborið við annan ársfjórðung þar sem fyrrnefndum aðgerðum um hámörkun á framleiðslukerfinu verður lokið með tilheyrandi kostnaði. Hér er meðal annars vísað til flutnings á starfsemi frá Des Moines til Gainsville í Bandaríkjunum og frá Borgundarhólmi til Árósa í Danmörku auk fjölda annarra smærri hagræðingaraðgerða sem lokið verður við fyrir árslok.

Frá því að áætluninni um einfaldara og skilvirkara Marel var hleypt af stokkunum og til loka annars  ársfjórðungs 2015 að teknu tilliti til sölu rekstrareininga, er heildarkostnaður til greiðslu vegna hagræðingaraðgerða 14 milljónir evra en kostnaður í rekstrarreikningi fyrir sama tímabil 28 milljónir evra þar af 1,1 milljón evra í öðrum ársfjórðungi. Áætlaður heildarkostnaður til greiðslu vegna hagræðingaraðgerða mun ekki fara yfir 25 milljónir evra á tímabilinu 2014-2015.

Horfur
Marel gerir ráð fyrir áframhaldandi innri vexti 2015 og góðri aukningu í  rekstrarhagnaði og afkomu eftir skatt. Megináherslan er sem fyrr, á aukna skilvirkni í markaðssókn og rekstri með það að markmiði að rekstrarhagnaður ársins 2017 verði yfir 100 milljónum evra.

Til meðal og lengri tíma litið, telur Marel að nýsköpun og sterk markaðsstaða um allan heim í öllum iðnuðum félagsins muni skila góðum vexti og aukinni arðsemi. Framtíðarhorfur eru góðar og gert er ráð fyrir því að markaðsvöxtur nemi 4-6% á næstu árum. Markmið Marel er að halda áfram að vaxa hraðar en markaðurinn.

Engu að síður má gera ráð fyrir að afkoman verði breytileg milli ársfjórðunga vegna efnahagsþróunar á heimsvísu, sveiflna í pöntunum og tímasetningar stærri verkefna.

Vinsamlegast athugið að tilkynning þessi tekur aðeins til helstu þátta uppgjörsins en uppgjörstilkynning í fullri lengd á ensku er aðgengileg á heimasíðu Marel:
www.marel.com/2015Q2

Þar er m.a. að finna lykiltölur og yfirlit yfir markaði félagsins.

Kynningarfundur 30. júlí 2015
Marel boðar til kynningarfundar um afkomu félagsins fimmtudaginn 30. júlí kl. 8:30 í húsnæði félagsins að Austurhrauni 9, Garðabæ. Fundinum verður einnig netvarpað: www.marel.com/webcast.

Birtingardagar fyrir reikningsárið 2015
 

  •  3. ársfjórðungur 2015                                28. október 2015
  •  4. ársfjórðungur 2015                                3. febrúar 2016 

Birting fjárhagsupplýsinga mun eiga sér stað eftir lokun markaðar.

Frekari upplýsingar veita:
Auðbjörg Ólafsdóttir, yfirmaður fjárfestatengsla og samskipta. Símar: 563-8626 og 853-8626


Final financial statements Q2 2015.pdf
Marel Q2 2015_frettatilkynning_PDF.pdf