English Icelandic

Þessi tilkynning hefur verið leiðrétt. Smelltu hér til að skoða leiðrétta tilkynningu

Birt: 2015-07-21 12:07:05 CEST
Landsbankinn hf.
Fyrirtækjafréttir

Standard & Poor's hækkar lánshæfiseinkunn Landsbankans í BBB- með jákvæðum horfum

Hið alþjóðlega matsfyrirtæki Standard and Poor’s (S&P) hefur hækkað lang- og skammtíma lánshæfiseinkunn Landsbankans úr BB+/B í BBB-/A-3 og telur horfurnar jákvæðar. Þetta kemur fram í mati fyrirtækisins á lánshæfi Landsbankans sem birt var í dag, 21. júlí 2015.

Í fréttatilkynningu frá S&P kemur fram að áfram hafi dregið úr ójafnvægi í íslensku efnahagslífi og að búast megi við auknum efnahagslegum stöðugleika næstu árin. Hækkun á lánshæfismati Landsbankans endurspeglar þá skoðun S&P að rekstarumhverfi íslenska bankakerfisins hafi styrkst, áhætta minnkað og að búast megi við minni afskriftum.

Í mati S&P kemur fram að lánshæfiseinkunn Landsbankans endurspegli sterka eiginfjárstöðu bankans, góða afkomu og fullnægjandi áhættustöðu. Það er mat S&P að lausafjárstaða bankans sé sterk bæði í krónum og erlendum gjaldeyri. Þá endurspeglar lánshæfismatið einnig þær væntingar fyrirtækisins að efnahagsreikningur Landsbankans haldist áfram sterkur.

Steinþór Pálsson, bankastjóri, segir: „Nýtt mat Standard & Poor’s er ánægjuleg tíðindi og í takt við væntingar, m.a. í kjölfar fréttar um bætta lánshæfiseinkunn ríkisins. Matið sýnir að staða bankans er sterk og að hann sé á réttri leið. Það að Landsbankinn sé nú kominn upp í fjárfestingarflokk eykur traust til bankans á mörkuðum og styður við fjármögnun hans í nánustu framtíð, bæði á innlendum og erlendum mörkuðum.“

 

Frekari upplýsingar veitir:

Hanna K. Thoroddsen í síma 410 7328, hanna.k.thoroddsen@landsbankinn.is