Published: 2015-06-04 10:30:00 CEST
Hagar hf.
Fyrirtækjafréttir

Áhrif verkfalla og kjarasamninga á fyrsta ársfjórðung Haga hf.

Í fréttatilkynningu um ársuppgjör Haga sem birt var 12. maí kom fram að horfur í rekstri félagsins fyrir rekstrarárið 2015/16, sem hófst nú í mars, væru sambærilegar og árið á undan. Áætlun félagsins fyrir rekstrarárið byggði á þeim horfum. Mikil óvissa ríkti á vinnumarkaði en í áætlun ársins gerði félagið ráð fyrir hóflegri hækkun launa og stöðugleika í verðlagi og gengi íslensku krónunnar. Enn ríkir óvissa á vinnumarkaði, þó svo að samningar hafi tekist við meginþorra starfsmanna Haga. Kostnaðarmat SA á þeim kjarasamningi, sem snýr m.a. að starfsfólki Haga, sem fer til atkvæðagreiðslu nú í júní er 2015: 7,3%, 2016: 5,7%, 2017: 3,6% og 2018: 2,3%. Kostnaðarmat SA byggir á meðaltalshækkun, en þegar liggur fyrir að kostnaðarauki Haga er umfram framangreint meðaltal.

Verkfallsaðgerðir undanfarnar vikur, sem sumar hverjar standa enn, hafa haft neikvæð áhrif á rekstur Haga. Vöruskortur á mikilvægum vöruflokkum, eins og kjúklingi, svínakjöti, nautakjöti og fleirum, hefur haft nokkur áhrif á rekstur félagsins á tímabilinu.  

Nú þegar er ljóst að áhrif verkfalla og kostnaðarauki vegna kjarasamninga mun setja mark sitt á rekstrarniðurstöðu fyrsta ársfjórðungs Haga, sem lauk í lok maímánaðar. Gera má ráð fyrir að hagnaður fyrsta ársfjórðungs verði um 15% lægri en á síðasta ári. Það er von félagsins að fljótlega takist að ljúka öllum samningum á vinnumarkaði, þannig að framangreind neikvæð áhrif séu til skamms tíma.

 

 

Nánari upplýsingar veitir Finnur Árnason, forstjóri Haga hf., í síma 530-5500.

 

 


Fréttatilkynning Hagar_áhrif verkfalla og kjarasamninga á Q1.pdf