Icelandic

Þessi tilkynning hefur verið leiðrétt. Smelltu hér til að skoða leiðrétta tilkynningu

Birt: 2015-05-27 23:50:37 CEST
Brim hf.
Reikningsskil

Uppgjör HB Granda hf. á fyrsta ársfjórðungi 2015

·      Rekstrartekjur samstæðunnar voru 53,3 m€

·      EBITDA var 21,4 m€ (40,1%)

·      Hagnaður tímabilsins var 13,8 m€

·      Handbært fé frá rekstri nam 6,9 m€

 

Rekstur fyrstu þriggja mánaða ársins 2015

Rekstrartekjur HB Granda hf. á fyrsta ársfjórðungi ársins 2015 námu 53,3 m€, samanborið við 41,9 m€ árið áður.  Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 21,4 m€ eða 40,1% af rekstrartekjum, en var 9,2 m€ eða 21,8% árið áður.  Hækkun tekna og EBITDA skýrist að mestu vegna betri loðnuvertíðar, en móttekinn loðnuafli til vinnslu nam 67,9 þús. tonnum, samanborið við 21,7 þús. tonn árið áður.   Áhrif fjáreignatekna og fjármagnsgjalda voru jákvæð um 0,5 m€, en voru neikvæð um 0,7 m€ á sama tíma árið áður.  Áhrif hlutdeildarfélaga voru neikvæð um 1,0 m€, en voru jákvæð um 1,1 m€ árið áður.  Hagnaður fyrir tekjuskatt var 17,5 m€ og hagnaður tímabilsins var 13,8 m€.  

Efnahagur

Heildareignir félagsins námu 393,2 m€ í lok mars 2015. Þar af voru fastafjármunir 300,1 m€ og veltufjármunir 93,1 m€.  Eigið fé nam 233,6 m€, eiginfjárhlutfall í lok mars var 59,4%, en var 59,7% í lok árs 2014. Heildarskuldir félagsins voru í marslok 159,6 m€.

Sjóðstreymi

Handbært fé frá rekstri nam 6,9 m€ á tímabilinu, en nam 4,2 m€ á sama tíma fyrra árs.  Nettó fjárfesting í rekstrarfjármunum nam 2,1 m€ og fjárfesting vegna nýrra skipa nam 9,1 m€.  Aðrar fjárfestingar, sem er lánveiting til hlutdeildarfélagsins Deris í  Síle námu 7,5 m€.  Fjármögnunarhreyfingar voru neikvæðar um 2,0 m€, þar af voru ný langtímalán 32,0 m€ og afborganir langtímalána og lækkun á skammtímalánum nam 34,0 m€.  Handbært fé lækkaði því um 13,8 m€ á tímabilinu og var í lok mars 11,0 m€.

Meginniðurstöður færðar til íslenskra króna

Séu niðurstöður rekstrarreiknings reiknaðar til íslenskra króna á meðalgengi fyrsta ársfjórðungs 2015 (1 evra = 149,9 kr) verða tekjur 8,0 milljarðar króna, EBITDA 3,2 milljarður og hagnaður 2,1 milljarðar.  Séu niðurstöður efnahagsreiknings reiknaðar til íslenskra króna á gengi 31. mars 2015 (1 evra = 146,84 kr) verða eignir samtals 57,7 milljarðar króna, skuldir 23,4 milljarðar og eigið fé 34,3 milljarðar.

Skipastóll og afli

Skipafloti félagsins var óbreyttur á tímabilinu. Þann 19. maí 2015 voru uppsjávarskipin Ingunn AK 150 og Faxi RE 9 seld til Vinnslustöðvarinnar hf. ásamt 0,6763% aflahlutdeild í loðnu og nam heildarsamningsverðið 2.150 millj. króna.  Þann 20. maí var gengið frá sölu Juni (áður Venus HF 519) til Enoksen Seafood AS og nam söluverðið 12,2 millj. danskra króna.  Samningarnir eru gerðir með fyrirvörum um samþykki stjórna og ástandsskoðun skipanna.  Þann 24. maí kom Venus NS 150 nýtt uppsjávarveiðiskip félagsins til landsins.  Áætlað er að skipið haldi til veiða síðar í vikunni.

Á fyrsta ársfjórðungi ársins 2015 var afli skipa félagsins 11,5 þúsund tonn af botnfiski og 57,6 þúsund tonn af uppsjávarfiski.

Kynningarfundur þann 28. maí 2015

Opinn kynningarfundur um afkomu félagsins á fyrsta ársfjórðungi verður haldinn fimmtudaginn 28. maí klukkan 8:30 í höfuðstöðvum félagsins að Norðurgarði 1. Vilhjálmur Vilhjálmsson forstjóri mun kynna uppgjörið og svara spurningum.

Frekari skýringar

Afkoma loðnuveiða og vinnslu hefur veruleg áhrif á rekstur HB Granda hf. og þá sér í lagi fyrsta ársfjórðung hvers árs.  Miklar sveiflur hafa verið bæði í aflamarki á loðnu og verði afurða á undanförnum árum.  

 


Frettatilkynning um afkomu HB Granda F1 2015.pdf
HB Grandi Arshlutareikn 31.03.2015.pdf