Icelandic
Birt: 2015-04-30 18:27:03 CEST
TM hf.
Reikningsskil

Afkoma Tryggingamiðstöðvarinnar hf. (TM) á fyrsta ársfjórðungi 2015

Á stjórnarfundi þann 30. apríl 2015 samþykkti stjórn og forstjóri TM fyrsta árshlutauppgjör félagsins fyrir árið 2015. Árshlutareikningurinn hefur hvorki verið endurskoðaður né kannaður af endurskoðendum félagsins.

Helstu tölur úr fyrsta árshlutareikningi 2015 voru eftirfarandi:

  • Heildarhagnaður var 72 m.kr. og hagnaður á hlut var 0,1 kr. (1F 2014: 700 m.kr. og 0,92 kr.)
  • Hagnaður fyrir skatta var 22 m.kr. (1F 2014: 728 m.kr.)
  • Framlegð af vátryggingastarfsemi var neikvæð um 756 m.kr. (1F 2014: jákvæð um 39 m.kr.)
  • Tap af vátryggingastarfsemi var 542 m.kr. (1F 2014: hagnaður var 72 m.kr.)
  • Fjárfestingatekjur voru 872 m.kr. (1F 2014: 758 m.kr.)
  • Samsett hlutfall var 126% (1F 2014: 99%)
  • Eigin iðgjöld jukust um 11% á milli ára
  • Eigin tjón hækkuðu um 55% á milli ára
  • Rekstrarkostnaður hækkaði um 3,2% milli ára
  • Eiginfjárhlutfall var í lok tímabilsins 28,2%
  • Arðsemi eigin fjár var 2,5% eftir skatta (1F 2014: 22,9%)
  • Handbært fé frá rekstri var 766 m.kr (1F 2014: 974 m.kr)

 

Sigurður Viðarsson, forstjóri TM:

„Hagnaður félagsins dregst verulega saman milli ára og skýrist það fyrst og fremst af mikilli hækkun á tjónakostnaði. Veturinn hefur verið einstaklega tjónaþungur, aðallega vegna tíðra óveðra. Fjárfestingatekjur voru á hinn bóginn vel umfram væntingar og vega að einhverju leyti upp tapið af vátryggingastarfseminni.“

Góð afkoma fjárfestinga vegna hækkunar hlutabréfa

Tekjur af fjárfestingum námu  tæplega 900 m.kr en bæði innlend og erlend skráð hlutabréf hækkuðu töluvert í verði á fjórðungnum. Afkoma af skuldabréfum var hins vegar undir væntingum sem skýrist af slakri ávöxtun ríkisskuldabréfa. Óverðtryggð ríkisskuldabréf lækkuðu nokkuð á fyrsta ársfjórðungi, en þau vógu þungt í eignasafni félagsins í upphafi árs. Þrátt fyrir það varð 0,5% jákvæð ávöxtun af rikisskuldabréfaeign félagsins á fjórðungnum.

Margföldun í fjölda mála vegna tíðra óveðra

Rúmlega 500 m.kr tap af vátryggingastarfssemi skýrist meðal annars af mikilli aukningu í fjölda eigna- og ökutækjatjóna þar sem slæmt tíðarfar skiptir mestu. Fjórðungurinn hefur verið bæði illviðra- og úrkomusamur með þeim afleiðingum að margföldun hefur orðið í fjölda mála tengdum erfiðum akstursskilyrðum, foki og óveðri. Því til stuðnings má nefna að tjón af völdum foks og óveðurs voru tæplega 300 á fyrsta fjórðungi ársins 2015 en aðeins 2 á sama tíma í fyrra. Afkoma ábyrgðar- og slysatrygginga var einnig neikvæð og undir væntingum. Aðeins tveir greinaflokkar vátrygginga, sjó- og líftryggingar, skila hagnaði.

Í ljósi afleitrar afkomu af vátryggingastarfsemi á fjórðungnum er ekki útlit fyrir að markmið um 95% samsett hlutfall í lok árs náist. Góður hagnaður af fjárfestingum á tímabilinu gerir það hins vegar að verkum að ekki er útilokað að áætlun félagins um 2,2 milljarða hagnað standist, einkum ef tjónaþungi verður í takt við væntingar það sem eftir lifir árs. Áætlun félagsins verður því ekki uppfærð að svo stöddu.

Kynningarfundur

TM býður til opins kynningarfundar um afkomu félagsins á fyrsta ársfjórðungi þann 4. maí kl. 8:30. Fundurinn fer fram í höfuðstöðvum TM að Síðumúla 24. 4. hæð. Þar mun Sigurður Viðarsson forstjóri kynna uppgjörið og svara spurningum. Kynningin verður aðgengileg í fréttakerfi Kauphallar og á vef félagsins að fundi loknum.

Mögulegt verður að fylgjast með beinni útsendingu af fundinum á vefnum á slóðinni: https://global.gotomeeting.com/join/344789917

Fjárhagsdagatal

Uppgjör 2. ársfjórðungs verður birt 24. ágúst 2015
Uppgjör 3. ársfjórðungs verður birt 29. október 2015
Uppgjör 4. ársfjórðungs verður birt 18. febrúar 2016

Nánari upplýsingar

Sigurður Viðarsson forstjóri s: 515-2609, sigurdur@tm.is


Arshlutareikningur TM 31 03 2015.pdf
Frettatilkynning um afkomu TM 1F 2015.pdf