Published: 2015-04-21 11:06:59 CEST

Eik fasteignafélag hf.: Sölugengi 6,80 krónur á hlut í útboði Eikar fasteignafélags

  • Sölugengi 6,80 krónur á hlut
  • 485 milljónir hluta seldir í útboðinu
  • Söluandvirði nemur um 3,3 milljörðum króna
  • Um 2.100 fjárfestar óskuðu eftir að kaupa hlutabréf í Eik fasteignafélagi
  • Heildareftirspurn í útboðinu nam 8,3 milljörðum króna
  • Markaðsvirði hlutafjár Eikar fasteignafélags nemur um 23,6 milljörðum króna
  • Eindagi greiðsluseðla er 27. apríl 2015
  • Hlutabréf Eikar fasteignafélags verða skráð á Aðallista Nasdaq Iceland 29. apríl 2015

 

Vel heppnuðu hlutafjárútboði í Eik fasteignafélagi hf. lauk í gær þann 20. apríl þar sem um 2.100 fjárfestar óskuðu eftir að kaupa hlutabréf fyrir samtals um 8,3 milljarða króna. Í útboðinu bauð Arion banki til sölu 485 milljónir hluta eða samtals 14,0% hlutafjár í félaginu í gegnum tvær tilboðsbækur, A og B. Heildarsöluandvirði útboðsins nemur 3,3 milljörðum króna á genginu 6,80 krónur á hlut. Markaðsvirði hlutafjár Eikar fasteignafélags er 23,6 milljarðar

 

Samtals fengu um 1.200 fjárfestar úthlutað í báðum tilboðsbókum á genginu 6,80 krónur á hlut. Fjárfestum í tilboðsbók A verður úthlutað um 55% af áskrift, en þó þannig að áskriftir verða ekki skertar undir 500 þúsund krónur og lægri fjárhæðir standa óskertar. Áskriftir sem bárust á genginu 6,80 krónur á hlut eða hærra í tilboðsbók B verða óskertar.

 

Fjárfestum verða sendar upplýsingar um úthlutun ásamt greiðslufyrirmælum eftir að Kauphöll Íslands hefur staðfest að hlutir í Eik fasteignafélagi hf. verði teknir til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland. Gert er ráð fyrir að eindagi greiðsluseðla vegna útboðsins verði 27. apríl næstkomandi. Fyrirtækjaráðgjöf fjárfestingarbankasviðs Arion banka hefur umsjón með útboðinu og fyrirhugaðri skráningu félagsins í Kauphöll en áætlað er að miðvikudaginn 29. apríl næstkomandi geti viðskipti hafist með hluti í Eik fasteignafélagi á Aðalmarkaði.

 

Heildarhlutafé Eikar fasteignafélags er 3.465.180.435 og er hver hlutur 1 kr. að nafnverði. Eik fasteignafélag á sjálft 8.800.000 hluti í félaginu.

 

Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar fasteignafélags:

 

"Við þökkum það traust sem fjárfestar sýna félaginu sem fjárfestingarkosti og bjóðum nýja hluthafa velkomna. Eik fasteignafélag hefur vaxið á undanförnum árum með fjárfestingum í vel staðsettum eignum og markar skráning á Aðalmarkað Nasdaq Iceland mikil tímamót fyrir félagið. Það verður spennandi að takast á við ný verkefni með breiðari hópi hluthafa."

 

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka:

 

"Það er ánægjulegt hvað útboð Eikar fasteignafélags gekk vel. Eik fasteignafélag er eitt af stærstu fasteignafélögum landsins og verður góð viðbót inn á hlutabréfamarkaðinn. Skráning Eikar fasteignafélags á markað er önnur skráningin sem Arion banki hefur umsjón með á árinu, en bankinn hefur séð um rúmlega helming allra skráninga á hlutabréfamarkað frá árinu 2009. Það skiptir miklu að hlutabréfamarkaðurinn haldi áfram að vaxa og að fjárfestum bjóðist stöðugt fleiri fjárfestingarkostir."

 

Nánari upplýsingar veita

Halldór Bjarkar Lúðvígsson, framkvæmdastjóri fjárfestingarbankasviðs Arion banka, í síma 444 7000

Haraldur Guðni Eiðsson, samskiptasviði Arion banka, í síma 856 7108

Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar fasteignafélags, í síma 590 2200

HUG#1912784