Icelandic
Birt: 2015-04-15 19:59:24 CEST
Reitir fasteignafélag hf.
Fyrirtækjafréttir

Landsbankinn selur 10% hlut í Reitum

Útboði á allt að 10% eignarhlut Landsbankans hf. í Reitum fasteignafélagi hf. lauk klukkan 16:00 þann 15. apríl 2015. Lágmarksgengi í útboðinu var 63,0 krónur á hlut og þurftu tilboðsgjafar að lágmarki að bjóða í 250.000 hluti í Reitum.

Landsbankinn tók tilboðum í 10% hlutafjár í Reitum og var heildarsöluverðmæti útboðsins 4.792 m.kr. Samþykkt voru tilboð sem voru á bilinu 63,10-64,10 krónur á hlut og var vegið meðalgengi samþykktra tilboða 63,50 krónur á hlut.

Öll samþykkt tilboð miðast við það gengi sem viðkomandi tilboðsgjafi tilgreindi í tilboði sínu.

Tilboð fjárfesta sem buðu lægra en 63,10 krónur á hlut voru ekki samþykkt. Tilboð fjárfesta sem buðu 63,10 krónur á hlut voru skert hlutfallslega og tilboð fjárfesta sem buðu hærra en 63,10 krónur á hlut voru samþykkt að fullu.

Viðskiptadagur útboðsins er 15. apríl 2015 og greiðslu- og afhendingardagur vegna viðskiptanna er föstudagurinn 17. apríl 2015.

Markaðsviðskipti Landsbankans höfðu umsjón með sölu hlutanna.

Útboðið fór fram í samræmi við útboðsskilmála sem birtir voru í fréttakerfi NASDAQ OMX Iceland hf. og á vefsíðu Landsbankans, www.landsbankinn.is þann 13. apríl 2015. Í útboðinu var nýtt undanþáguheimild frá útgáfu lýsingar, í samræmi við heimild í c-lið 1. töluliðar, 1. málsgreinar 50. greinar laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti.

Nánari upplýsingar veita:
Árni Maríasson, forstöðumaður Markaðsviðskipta Landsbankans, s. 410-7335 / 863-9998
Arnar Arnarsson, Verðbréfaviðskipti Landsbankans, s. 410-7336 / 821-2083