Icelandic
Birt: 2015-03-30 11:22:57 CEST
Reitir fasteignafélag hf.
Fyrirtækjafréttir

Arion banki selur 13,25% í Reitum á meðalgenginu 63,875

  • Söluandvirði nemur 6,4 milljörðum króna.
  • Um 3.600 fjárfestar óskuðu eftir að kaupa hlutabréf í Reitum.
  • Heildareftirspurn var 25,5 milljarðar.
  • Markaðsvirði hlutafjár Reita er um 48 milljarðar króna.

Almennu útboði Arion banka á hlutabréfum í Reitum fasteignafélagi hf. lauk síðastliðinn föstudag, þar sem um 3.600 fjárfestar óskuðu eftir að kaupa hlutabréf fyrir samtals um 25,5 milljarða króna. Bankinn bauð til sölu 100 milljónir hluta í félaginu sem jafngilda 13,25% hlutafjár, en nú liggur fyrir að 3,31% hlutafjár verða seld á genginu 63,5 krónur á hlut í tilboðsbók A (þar sem mögulegt verðbil var 55,5-63,5) og 9,94% seld á genginu 64,0 í tilboðsbók B (þar sem lágmarksgengi var 55,5). Heildarsöluandvirði útboðsins nemur því tæplega 6,4 milljörðum króna og vegið meðalgengi 63,875 krónur á hlut. Markaðsvirði alls hlutafjár í Reitum er rúmlega 48 milljarðar króna þegar miðað er við niðurstöðu útboðsins.

Í ljósi mikillar þátttöku verður hámarksúthlutun til hvers fjárfestis í tilboðsbók A um 520 þúsund krónur að kaupverði. Áskriftir fyrir allt að 500 þúsund krónum verða ekki skertar. Áskriftir sem bárust á verði yfir genginu 64,0 krónur á hlut í tilboðsbók B verða óskertar en áskriftir sem bárust á því gengi verða skornar niður hlutfallslega og nemur heildarskerðing þeirra um 650 milljónum króna.

Fjárfestum verða sendar upplýsingar um úthlutun ásamt greiðslufyrirmælum eftir að Kauphöll Íslands hefur staðfest að hlutir í Reitum fasteignafélagi hf. verði teknir til viðskipta á Aðalmarkaði Kauphallarinnar. Gert er ráð fyrir að eindagi greiðsluseðla vegna útboðsins verði 7. apríl næstkomandi. Fyrirtækjaráðgjöf fjárfestingarbankasviðs Arion banka hefur umsjón með útboðinu og fyrirhugaðri skráningu félagsins í Kauphöll en áætlað er að fimmtudaginn 9. apríl næstkomandi geti viðskipti hafist með hluti í Reitum á Aðalmarkaði.

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka:

„Skráning Reita á markað er sú fimmta sem Arion banki hefur umsjón með. Okkur finnst gleðilegt að hafa átt forgöngu um að byggja upp íslenskan hlutabréfamarkað á undanförnum árum og um leið gefið fjárfestum tækifæri til að eignast hluti í fyrirtækjum sem eiga það sammerkt að vera meðal burðarstólpa íslensks atvinnulífs. Reitir eru stærsta fasteignafélagið á sínu sviði, fjárhagslega sterkt og býr yfir hágæða eignasafni, taustum viðskiptavinum og öflugu starfsfólki. Félagið mun því sóma sér vel í Kauphöll Íslands.“

Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita:

„Ég býð nýja hluthafa velkomna og þakka það traust sem þeir sýna okkur með þátttöku í útboðinu. Við endurfjármögnun félagsins í lok síðasta árs keypti hópur lífeyrissjóða stóran hlut í félaginu og það er ánægjulegt að sjá nokkra þeirra bæta frekar við eignarhlut sinn nú í útboðinu en í þeim hópi eru einmitt þeir tveir aðilar sem eiga stærstu einstöku úthlutanir í útboðinu eða um 2% í félaginu hvor um sig. Við fögnum því jafnframt að með þeirri fjölgun sem nú er að verða í hluthafahópnum fáum við breiðan hóp af bæði fagfjárfestum og einkafjárfestum til liðs við félagið og hlökkum til að eiga með þeim samleið inn í Kauphöll Íslands.“

Nánari upplýsingar veita

Halldór Bjarkar Lúðvígsson, framkvæmdastjóri fjárfestingarbankasviðs Arion banka, í síma 444 7000

Haraldur Guðni Eiðsson, samskiptasviði Arion banka, í síma 856 7108

Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita, í síma 575 9000