English Icelandic
Birt: 2015-03-23 16:33:31 CET
Orkuveita Reykjavíkur
Reikningsskil

Stöðug og góð afkoma OR

Rekstrarkostnaður 2014 lægri í krónum talið en 2010 | Áframhaldandi niðurgreiðsla skulda | Eigið fé Orkuveitunnar um 100 milljarðar króna | Eiginfjárhlutfall 33%

Stöðugleiki í tekjum og varanlegur sparnaður hjá Orkuveitu Reykjavíkur skilaði fyrirtækinu sambærilegum rekstri á árinu 2014 og árin tvö á undan. Orkuveitan greiddi rúma 20 milljarða króna í afborganir af lánum og efnahagurinn styrktist. Í árslok nam eigið fé OR 99,4 milljörðum króna og eiginfjárhlutfallið var komið í 33,2%.

Rekstarkostnaður Orkuveitunnar nam á árinu 2014   13,7 milljörðum króna. Það er 300 milljónum króna lægri kostnaður en árið 2010 þegar hann var 14,0 milljarðar. Sé tekið mið af þróun verðlags í landinu, sem hefur hækkað um 14%, er raunlækkun rekstrarkostnaðar 2,3 milljarðar króna.

Í lok árs 2014 hafði Planið skilað 49,6 milljörðum króna. Það eru 97% þeirrar heildarfjárhæðar sem Planinu var ætlað að skila frá vori 2011 til ársloka 2016.

Árið 2014 var fyrsta rekstrarárið eftir lögboðna uppskiptingu Orkuveitu Reykjavíkur. Ársreikningur samstæðunnar, sem samþykktur var á stjórnarfundi Orkuveitu Reykjavíkur í dag, er settur fram með sama hætti og fyrr. Þannig fæst samfella í helstu stærðir reikningsins og áhugasamir geta betur glöggvað sig á þróun mála.

Eins og Planið gerir ráð fyrir, verða talsverðar fjárfestingar á árinu 2015, bæði í veitu- og virkjanarekstri. Uppbygging fráveitu á Vesturlandi heldur áfram þar sem frá var horfið og mikilvægri endurnýjun á hitaveitum í höfuðborginni og á Vesturlandi verður fram haldið. Lagning nýrrar gufulagnar, sem tengir jarðhitasvæðið við Hverahlíð við Hellisheiðarvirkjun, er stærsta einstaka fjárfestingarverkefnið. Það er mikilvægt til að styðja við afköst virkjunarinnar og þar með tekjurnar af þeirri miklu fjárfestingu.

Stórbætt eiginfjárstaða

  • Rekstrarkostnaður OR 2014 var lægri í krónum talið en 2010. Raunlækkun nemur 2,3 milljörðum króna.
  • Hagnaður fyrir fjármagnsliði (EBIT) árið 2014 nam 15,7 milljörðum króna.
  • Hagnaður ársins 2014 eftir skatta og fjármagnsliði nam 8,9 milljörðum króna.
  • Framlegð reksturs OR (EBITDA) nam 24,8 milljörðum króna 2014.
  • Nettó vaxtaberandi skuldir lækkuðu á árinu 2014 um 14,2 milljarða króna. Þær námu í árslok 172 milljörðum króna en voru 231 milljarður fyrir fimm árum.
  • Eiginfjárhlutfallið hækkaði úr 28,6% í 33,2%.
  • Eigið fé OR jókst um 23% frá fyrra ári og um 64% á síðustu tveimur árum.
  • Orkuveitan greiðir ekki arð vegna ársins enda ekki gert ráð fyrir arðgreiðslum meðan Planið er í gildi.

Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar:

Planið og staðfesta við að fylgja því hefur fært Orkuveitunni stöðuga og góða afkomu síðustu ár. Með markvissum áhættuvörnum og festu í rekstrinum hefur líka tekist að auka fyrirsjáanleika í afkomu fyrirtækisins. Skuldir lækka hratt og örugglega og eiginfjárstaðan er að verða viðundandi. Þessa sér líka stað í batnandi lánshæfismati óháðra aðila á Orkuveitunni. Við þessar aðstæður er mikilvægt að halda vöku sinni og slá hvergi af þeirri kröfu sem við gerum til okkar sjálfra, að gæta hagsýni í hvívetna. Stefnumótun eigenda Orkuveitunnar, Eigendastefnan, var endurnýjuð á árinu 2014 og er fyrirtækinu vegvísir í að halda skarpri sýn á starfsemina.

Árið 2014 var fyrsta rekstrarárið eftir lögboðna uppskiptingu Orkuveitu Reykjavíkur. Ársreikningur samstæðunnar sýnir að stjórnendum og starfsfólki hefur hvergi fipast við þessa breytingu. Stöðugleiki var í starfseminni, þjónusta við viðskiptavini traust og afkoman í takti við áætlanir.

Rekstraryfirlit stjórnenda

Allar fjárhæðir eru í milljónum króna á verðlagi hvers árs.

Rekstur OR 2014 2010 2011 2012 2013 2014
Rekstrartekjur 27.916 33.626 37.905 39.209 38.679
Rekstrarkostnaður -13.964 -12.391 -12.861 -13.126 -13.681
EBITDA 13.951 21.235 25.044 26.084 24.845
Afskriftir -7.962 -8.881 -10.371 -8.927 -9.152
Rekstrarhagnaður EBIT 5.989 12.354 14.673 17.156 15.693
           
Afkoma tímabilsins 13.729 -556 -2.295 3.350 8.871
           
Sjóðstreymi          
Innleystar vaxtatekjur 150 127 147 209 709
Greidd vaxtagjöld -4.030 -5.690 -7.093 -6.308 -4.574
Handbært fé frá rekstri 11.588 16.930 18.935 20.033 22.084
Veltufé frá rekstri 10.595 17.231 19.880 19.675 18.881

 

         Nánari upplýsingar:
         Bjarni Bjarnason
         forstjóri
         Sími: 516 7707


OR arsreikningur 2014.pdf
Stouskyrsla ageraratlunar 2014.pdf