Published: 2015-02-25 19:28:45 CET
Eik fasteignafélag hf. : Ársreikningur Eikar fasteignafélags hf. 2014
 * Rekstrartekjur ársins námu 3.961 m.kr.
 * Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir nam 2.877 m.kr.
 * Heildarhagnaður ársins nam 1.336 m.kr.
 * Handbært fé frá rekstri nam 1.562 m.kr. á árinu.
 * Bókfært virði fjárfestingareigna nam 62.176 m.kr. í árslok.
 * Matsbreyting var neikvæð á árinu um 165 m.kr.
 * Vaxtaberandi skuldir námu 43.559 m.kr. í árslok.
 * Eiginfjárhlutfall nam 29,5%.
 * Hagnaður á hlut var 0,60 kr.

Á árinu 2014 þrefölduðust umsvif og efnahagur Eikar fasteignafélags og ber að
taka tillit til þess í samanburði á milli ára. Í janúar 2014 eignaðist Eik
fasteignafélag allt hlutafé EF1 hf. á grundvelli kaupsamnings sem undirritaður
var í ágúst 2013. Eik fasteignafélag öðlaðist ekki full yfirráð yfir EF1 hf.
fyrr en í lok júní 2014 og er rekstrarhagnaður EF1 hf. því færður sem
hlutdeildartekjur á fyrri árshelmingi 2014, en að fullu í samstæðu félagsins á
seinni árshelmingi 2014. Undirritaður var kaupsamningur um kaup á Landfestum
ehf. í desember 2013. Rekstur og efnahagur samstæðu Landfesta ehf. kom hins
vegar ekki inn í samstæðu Eikar fasteignafélags fyrr en frá og með júlí 2014, í
kjölfar samþykkis Samkeppniseftirlitsins á kaupum félagsins á Landfestum ehf.

Stjórn Eikar fasteignafélags hefur tekið ákvörðun um að óska eftir því að
hlutabréf félagsins verði skráð á Aðalmarkað Nasdaq Iceland og hefur
fyrirtækjaráðgjöf Arion banka verið falin umsjón með söluferli og undirbúningi
að skráningunni. Almenningi og stærri fjárfestum verði boðið að kaupa hlutabréf
í félaginu í útboði í aðdraganda skráningarinnar sem er gert ráð fyrir að fari
fram fyrir lok aprílmánaðar.

Félagið hefur sett sér arðgreiðslustefnu um að greiða árlega út arð sem nemur
35% af handbæru fé frá rekstri hvers árs. Í samræmi við stefnuna leggur stjórn
félagsins til við aðalfund, sem haldinn verður 21. maí n.k., að greiddur verði
út 580 m.kr. (0,2 kr. á hlut) arður til hluthafa á árinu 2015 vegna
rekstrarársins 2014.

Ársreikningur Eikar fasteignafélags var samþykktur af stjórn félagsins í dag,
25. febrúar 2015.

Rekstur félagsins

Heildarhagnaður Eikar fasteignafélags nam 1.336 m.kr. á árinu 2014 samanborið
við 1.236 m.kr. hagnað félagsins árið 2013, sem er 8% aukning á milli ára.
Rekstrartekjur félagsins jukust um 95% og námu 3.961 m.kr. á árinu þar af voru
leigutekjur 3.753 m.kr. Rekstrarhagnaður félagsins fyrir matsbreytingu og
afskriftir nam 2.877 m.kr. sem er 107% aukning frá árinu áður. Rekstrarhagnaður
félagsins stóð í stað á milli ára, nam 2.705 m.kr. á árinu samanborið við 2.708
m.kr. á árinu 2013. Fjárfestingareignir félagsins eru metnar á gangvirði í
samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS) og stuðst er við núvirt
framtíðarsjóðsteymi einstakra eigna. Breytingar á gangvirði eru færðar undir
matsbreytingu fjárfestingareigna sem var neikvæð um 165 m.kr. á árinu 2014
samanborið við jákvæða matsbreytingu að fjárhæð 1.323 m.kr. á árinu02013.
Lækkunin skýrist einkum af lágri verðbólgu á árinu 2014 samanborið við verðbólgu
ársins 2013, hækkun fasteignagjalda á árinu, lækkun virðisútleiguhlutfalls vegna
keyptra eigna á árinu 2014 sem auk þess voru í fyrsta sinn virðismetnar í bókum
félagsins á árinu af stjórnendum félagsins. Grunnhagnaður og þynntur hagnaður á
hlut nam 0,60 kr. á árinu samanborið við 0,82 kr. árið áður.

Efnahagur félagsins

Heildareignir Eikar fasteignafélags námu 66.149 m.kr. þann 31. desember 2014
samanborið við 24.578 m.kr. á sama tíma árið áður. Heildareignir félagsins
hækkuðu um 41.571 m.kr. og er hækkunin að mestu til komin vegna kaupa á
Landfestum ehf., eða 23.517 m.kr., og EF1 hf., eða 15.427 m.kr.
Fjárfestingareignir félagsins námu 62.176 m.kr. í árslok samanborið við 23.103 í
árslok 2013.

Eigið fé Eikar fasteignafélags nam 19.488 m.kr. þann 31.desember 2014. Arðsemi
eigin fjár nam 11% árið 2014, að teknu tilliti til hlutafjáraukninga á árinu.
Eiginfjárhlutfall nam 29,5% í árslok 2014. Handbært fé frá rekstri á árinu 2014
nam 1.562 m.kr. og nam handbært fé í árslok 3.694 m.kr.

Vaxtaberandi skuldir félagsins námu 43.559 m.kr. þann 31. desember 2014, þar af
voru langtímaskuldir 41.509 m.kr. og skammtímaskuldir 2.050 m.kr. Vaxtaberandi
skuldir hækkuðu um 28.678 m.kr. á milli ára.

Virðisútleiguhlutfall félagsins nam 91,6% í árslok 2014 en var 94,3% í árslok
2013.  Ef tekið er tillit til eigna sem voru í þróun nam virðisútleiguhlutfallið
93,0%, samanborið við 96,6% í árslok 2013. Hluti af keyptum fasteignum ársins
2014 voru í þróun sem olli því að virðisútleiguhlutfall lækkaði á milli ára.
Framkvæmdir og útleiga á þróunareignum gengur vel og sjá stjórnendur fram á
tækifæri til að bæta virðisútleiguhlutfall félagsins á næstu misserum.

Eik fasteignafélag sinnir rekstri og útleigu á atvinnuhúsnæði. Fjöldi eigna
félagsins er yfir 100 og telja þær samtals um 273 þúsund fermetra. Virði
fjárfestingareigna félagsins er um 62 ma.kr. og heildarfjöldi leigutaka er yfir
400. Helstu eignir félagsins eru Borgartún 21 og 26, Nýi Glæsibær, Turninn í
Kópavogi, Smáratorg og og Austurstræti 5,6,7 og 17. Stærstu leigutakar eru
Fasteignir ríkissjóðs, Húsasmiðjan, Landsbankinn, Rúmfatalagerinn, Skipti,
Deloitte,  og VÍS.

Ársreikningur Eikar fasteignafélags hefur að geyma samstæðureikning félagsins og
dótturfélaga þess og er hann gerður í samræmi við alþjóðlega
reikningsskilastaðla (IFRS).  Endurskoðendur félagsins, KPMG ehf., hafa
endurskoðað reikninginn og áritað hann fyrirvaralaust. Hægt er að nálgast
ársreikning félagsins, auk frekari upplýsinga um félagið, á www.eik.is

Fjárhagsdagatal 2015

Aðalfundur                                                        21. maí 2015
Árshlutauppgjör 1. ársfjórðungs 2015                   28. maí 2015
Árshlutauppgjör 2. ársfjórðungs 2015                   31. ágúst 2015
Árshlutauppgjör 3. ársfjórðungs 2015                   26. nóvember 2015
Ársuppgjör 2015                                                 29. febrúar 2016

Nánari upplýsingar veita:

Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri, í síma 590-2200 eða gardar@eik.is

Kolbeinn  Friðriksson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, í síma 590-2200 eða
kolbeinn@eik.is


[HUG#1897403]


2015 02 25 Ársreikningur 2014 Eik.pdf