Icelandic
Birt: 2015-02-20 13:30:01 CET
Síminn hf.
Reikningsskil

Afkoma Skipta hf. á árinu 2014

-   Tekjur voru 30,3 milljarðar króna

-   Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam 8,3 milljörðum króna

-   Hagnaður eftir skatta nam 3,3 milljörðum króna

 

  • Sala jókst um 1,3%, nam 30,3 milljörðum króna samanborið við 29,9 milljarða árið áður.
     
  • Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 8,3 milljörðum króna. Hann nam einnig 8,3 milljörðum árið 2013. EBITDA hlutfallið var 27,4% en var 27,8% árið áður.
     
  • Hagnaður samstæðunnar eftir skatta nam tæpum 3,3 milljörðum króna samanborið við 17,0 milljarða króna tap 2013.
     
  • Handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta nam 7,5 milljörðum króna á árinu, samanborið við 7,0 milljarða árið áður. Eftir vexti og skatta nam handbært fé frá rekstri 5,8 milljörðum króna samanborið við 5,1 milljarð árið áður.
     
  • Vaxtaberandi skuldir námu 25,4 milljarði við lok tímabils en voru 26,7 milljarðar árið áður. Hreinar vaxtaberandi skuldir voru 21,4 milljarðar króna og lækkuðu um 4,7 milljarða á árinu.
     
  • Fjármagnsgjöld voru 609 milljónir króna. Vaxtagjöld voru 1.868 milljónir króna, fjármunatekjur voru 1.108 milljón kr. og  gengishagnaður 151 milljónir króna.
     
  • Eiginfjárhlutfall Skipta hf. er 49% og eigið fé er 29,9 milljarðar króna.

 

Orri Hauksson, forstjóri:

„Reksturinn var í ágætu jafnvægi á árinu. Tekjur jukust lítillega og og EBITDA stendur í stað milli ára. Efnahagsreikningur félagsins hefur gjörbreyst í kjölfar endurskipulagningar og skilar fyrirtækið nú hagnaði í fyrsta sinn frá hruni. Hann nemur 3,3 milljörðum króna. Fjárfestingar á árinu námu 4,5 milljörðum króna og eru þær mestu um árabil. Við lögðum áherslu á að halda áfram að skipuleggja starfsemina til framtíðar og undirbúa félagið fyrir skráningu í kauphöll. Tilkynnt var um sameiningu rekstrar Símans og Skipta á árinu og samþykkti Samkeppniseftirlitið sameininguna í ársbyrjun 2015. Þá hefur verið skerpt á upplýsingatækninni með því að sameina UT starfsemi Símans við Sensa.

Fjarskiptamarkaðurinn er í örri þróun; eftirspurn eftir þjónustunni vex stöðugt og fjarskiptin verða sífellt ríkari þáttur í daglegu lífi fólks. Fjarskiptafyrirtæki um allan heim þurfa að laga  tekjumyndunina að því að mæta eftirspurn viðskiptavina eftir þjónustu aðila eins og Facebook og Netflix,  sem nýta sér kerfi þeirra og fjárfestingar, til að veita þjónustu sína. Þessi fyrirtæki eru einnig í beinni samkeppni við fjarskiptafyrirtækin sjálf. Þessari samkeppni þurfa fjarskiptafyrirtækin að mæta með því að bjóða upp á öflug fjarskiptakerfi, góða þjónustu og spennandi nýjungar en einnig með því að vinna með hinum nýju aðilum að því að uppfylla þarfir neytandans.

Við gerum ráð fyrir að samkeppnin verði áfram hörð á þeim mörkuðum sem við störfum á. Við munum halda áfram á þeirri braut að straumlínulaga reksturinn og byggja félagið upp, með markvissum fjárfestingum og vöruþróun, sem gerir okkur kleift að veita viðskiptavinum okkar enn betri þjónustu.“

Helstu niðurstöður í rekstri á árinu 2014

Reikningsskilaaðferðir

Samstæðuársreikningur Skipta hf. er gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS) eins og þeir hafa verið staðfestir af Evrópusambandinu.  Stjórn og forstjóri Skipta hf. hafa staðfest ársreikning samstæðu félagsins.

Rekstur

Sala á árinu 2014 nam 30.322 m.kr. samanborið við 29.922 m.kr. árið áður, sem er 1,3% hækkun.

Rekstrarhagnaður samstæðunnar fyrir afskriftir (EBITDA) var 8.313 m.kr. miðað við 8.310 m.kr. árið áður. EBITDA hlutfallið var 27,4% en var 27,8% árið 2013. 

Afskriftir félagsins námu 3.527  m.kr. á árinu samanborið við 17.621 m.kr. árið áður.

Heildarhagnaður samstæðunnar eftir skatta nam 3.515 m.kr. samanborið við 16.541 m.kr. tap 2013.

Sjóðstreymi

Handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta var 7.544 m.kr. árið 2014 en var 6.989 m.kr. árið áður.

Fjárfestingar samstæðunnar í rekstrarfjármunum (CAPEX) námu 4.524 m.kr. á árinu en voru 3.867 m.kr. árið áður

Efnahagur

Heildareignir samstæðunnar námu 61.047 m.kr. 31. des 2014. Vaxtaberandi skuldir voru  25.429 m.kr. við lok tímabils en voru 26.711 m.kr  á sama tíma árið áður. Hreinar vaxtaberandi skuldir voru 21.422 milljónir króna og lækkuðu um 4.680 milljónir á árinu.

Eigið fé félagsins nam 29.931 m.kr. í lok árs og eiginfjárhlutfall var 49%.

 

 

Nánari upplýsingar um uppgjörið veita:

Orri Hauksson, forstjóri, s. 550-6003.

Pétur Þ. Óskarsson, yfirmaður samskipta Símans s. 863-6075.

 


Skipti 31 12 2014.pdf
Tafla - frettat 31 12 14 2.pdf