Icelandic
Birt: 2015-02-19 12:36:39 CET
Landsnet hf.
Reikningsskil

Ársreikningur Landsnets hf. fyrir árið 2014

Lægri ársverðbólga skýrir góða rekstrarniðurstöðu

 

Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði (EBIT) nam 6.174 mkr. samanborið við 6.568 mkr. á fyrra ári og lækkar því um 394 mkr. á milli ára. Lækkun á rekstrarhagnaði fyrir fjármagnsliði skýrist meðal annars af lægra meðalgengi dollars en um 60% af tekjum félagsins er í þeirri mynt. Þá hafði hærra verð á aðkeyptri orku vegna flutningstapa í kerfinu nokkur áhrif auk þess sem rekstrarkostnaður hækkaði vegna aukinna umsvifa.

Hagnaður Landsnets hf. samkvæmt rekstrarreikningi nam 3.762 mkr. fyrir árið 2014 samanborið við 2.183 mkr. hagnað á árinu 2013. Aukinn hagnaður skýrist fyrst og fremst af lægri fjármagnsliðum en hrein fjármagnsgjöld námu samtals 1.519 mkr. á árinu 2014 á móti 3.870 mkr. á árinu 2013 og lækka um 2.351 mkr. á milli ára. Að stórum hluta liggur ástæðan í lægri verðbólgu á árinu 2014 en verðbólga ársins mældist aðeins um 1%. Stærsti hluti lánasafns félagsins er í íslenskum krónum og hefur því þróun verðbólgu veruleg áhrif á rekstrarniðurstöðu félagsins á hverjum tíma. Viðsnúningur í gengisþróun hafði einnig nokkur áhrif og varð gengishagnaður á árinu um 982 mkr. á móti 329 mkr. gengistapi á árinu 2013.

Fjárfestingar voru nokkuð lægri á árinu en á fyrra ári og numu um 3.851 mkr. samanborið við 6.408 mkr. árið áður. Helstu fjárfestingar ársins voru bygging nýs tengivirkis á Ísafirði og varaaflsstöðvar á Bolungarvík, en báðar þessar fjárfestingar eru til að auka áreiðanleika afhendingar raforku í flutningskerfinu á Vestfjörðum. Frekari áform um fjárfestingar á árinu frestuðust vegna þess að leyfi fengust ekki fyrir þeim vegna ágreinings sem er um útfærslur.

Eiginfjárhlutfall í árslok var 23,5% samanborið við 19,9% í lok fyrra árs. Eigið fé í árslok nam 19.208 mkr. samanborið við 15.446 í lok árs 2013. Heildareignir félagsins í árslok námu 81.859 mkr. samanborið við 77.608 mkr. í lok fyrra árs. Heildarskuldir námu 62.651 mkr. samanborið við 62.162 mkr. í lok fyrra árs.

Lausafjárstaða félagsins er sterk, í árslok nam handbært fé 12.235 mkr. Handbært fé frá rekstri nam 6.231 mkr. árið 2014 samanborið við 7.733 mkr. árið 2013.

Rekstrarniðurstaða ársins er betri en áætlanir félagsins gerðu ráð fyrir og liggur það nær eingöngu í jákvæðari niðurstöðu fjármagnsliða. Rekstrarhæfi félagsins er mjög gott. Samkvæmt fjárhagsáætlun fyrir árið 2015 mun handbært fé standa undir fjárfestingum og afborgunum lána.

Ársreikningur Landsnets hf. var samþykktur á fundi stjórnar 19. febrúar 2015.

 

Helstu niðurstöður rekstrarreiknings, lykiltölur efnahagsreiknings og kennitölur: Sjá viðhengi 


 

Frekari upplýsingar veitir:

Guðlaug Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri fjármála, sími 563 9311 eða netfang gudlaugs@landsnet.is.


Arsreikningur Landsnets 2014.pdf
Landsnet Arsreikningur 2014 Tilkynning.pdf