Published: 2015-02-05 18:19:00 CET
Icelandair Group hf.
Reikningsskil

Icelandair Group hagnast um 67 milljónir USD

  • Hagnaður ársins fyrir skatta nam 79,9 milljónum USD og jókst um 8,9 milljónir USD eða 12% á milli ára.
  • EBITDA 2014 nam 154,3 milljónum USD samanborið við 143,7 milljónir USD árið 2013.
  • Rekstrartekjur jukust um 9% á milli ára.
  • EBITDA á fjórða ársfjórðungi var neikvæð um 1,5 milljón USD og lækkaði um 8,3 milljónir USD á milli ára.
  • Eiginfjárhlutfall 43% í árslok 2014 samanborið við 42% í árslok 2013.
  • Nettó vaxtaberandi skuldir lækkuðu um 76,2 milljónir USD á árinu og voru neikvæðar í lok árs um 153,7 milljónir USD.
  • Stjórn félagsins leggur til að arður að fjárhæð 2.500 milljónir króna verði greiddar til hluthafa á árinu 2015 sem samsvarar 0,5 krónum á hvern hlut.

 

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri

„Afkoma ársins 2014 er betri en áætlanir stjórnenda gerðu ráð fyrir í upphafi árs og EBITDA ársins er við efri mörk síðustu afkomuspár félagsins. Hagnaður ársins eftir skatta nam 66,5 milljónum USD og jókst um 18% frá fyrra ári. EBITDA nam USD 154,3 milljónum og hækkaði um 7% á milli ára. Afkoma fjórða ársfjórðungs er í takt við afkomuspá sem birt var í lok október sl. Það er ljóst að margir samverkandi þættir hafa jákvæð áhrif á sterkt uppgjör. Þar má nefna lækkandi eldsneytisverð, aukna eftirspurn á Norður-Atlantshafsmarkaðinum sem við höfum mætt með auknu framboði ásamt góðri afkomu í leiguflugi. Veiking evrunnar gagnvart bandaríkjadal hafði neikvæð áhrif á rekstur félagsins auk þess sem kostnaður við skoðanir fraktvéla var mun hærri en gert hafði verið ráð fyrir.

Frá og með árinu 2010 hefur verið stígandi í rekstri Icelandair Group. Tekjur hafa vaxið um USD 395 milljónir og námu USD 1,1 milljarði á árinu 2014. Á undanförnum árum höfum við þétt enn raðir starfsfólks okkar og tryggt jafnan vöxt innviða til að búa í haginn fyrir framtíðina. Fyrirhyggja er og verður lykillinn að arðbærum langtímavexti félagsins. Sterk eiginfjárstaða og undirliggjandi sjóðstreymi tryggja getu okkar til að ráðast í arðbærar fjárfestingar sem auka samkeppnishæfni til langs tíma. Við erum með skýra framtíðarsýn og höfum á að skipa einvala liði starfsfólks sem ég þakka öðrum fremur þann góða árangur sem við náðum á síðasta ári.

Gert er ráð fyrir áframhaldandi arðbærum innri vexti í rekstri Icelandair Group á árinu 2015. Flugáætlun í millilandaflugi verður 14% umfangsmeiri samanborið við árið 2014 og fyrir liggur að veruleg uppbygging mun eiga sér stað í hótelstarfsemi félagsins í miðborg Reykjavíkur. Heilt á litið eru jákvæðar horfur í ferðaþjónustu á Íslandi auk þess sem við teljum hagfelldar horfur í fraktflutningum og leiguflugsstarfsemi á árinu 2015.

EBITDA-spá fyrir árið 2015 hækkar samanborið við árið 2014 og gerir spáin ráð fyrir að EBITDA verði á bilinu 160-165 milljónir USD. Lækkun eldsneytisverðs er sá einstaki kostnaðarliður sem hefur mest áhrif til hækkunar á EBITDA. Mikilvægt er að árétta að ytri þættir svo sem sveiflur á eldsneytisverði og gjaldeyrismörkuðum og niðurstöður kjarasamninga á vinnumarkaði geta haft töluverð áhrif á afkomu félagsins.“

  

Frekari upplýsingar veita:

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri
bubbi@icelandairgroup.is
896 1455

Bogi Nils Bogason, framkvæmdastjóri fjármála
bogi@icelandairgroup.is
665 8801


Fréttatilkynning_Q4_2014.pdf
Icelandair Group hf 31 12 2014.pdf