English Icelandic
Birt: 2014-11-20 18:47:58 CET
Eimskipafélag Íslands hf.
Reikningsskil

Eimskip kynnir afkomu þriðja ársfjórðungs 2014

Góð afkoma á þriðja ársfjórðungi 2014

  • Rekstrartekjur voru 119,6 milljónir evra, jukust um 6,1 milljón evra eða 5,3% frá Q3 2013
  • EBITDA nam 12,6 milljónum evra, hækkaði um 0,5 milljónir evra eða 4,2% frá Q3 2013
  • Hagnaður eftir skatta var 7,5 milljónir evra, jókst um 2,4 milljónir evra eða 48,0% frá Q3 2013
  • Flutningsmagn í áætlunarsiglingum á Norður-Atlantshafi jókst um 7,3% frá Q3 2013
  • Flutningsmagn í frystiflutningsmiðlun jókst um 19,2% frá Q3 2013
  • Eiginfjárhlutfall var 64,0% og nettóskuldir námu 32,3 milljónum evra í lok september
  • Áætluð rekstrarafkoma ársins 2014 er á bilinu 38 til 40 milljónir evra

Gylfi Sigfússon forstjóri

„Þriðji ársfjórðungur 2014 er besti fjórðungur félagsins frá árinu 2009 hvað varðar rekstrartekjur, EBITDA og hagnað eftir skatta. Rekstrartekjur námu 119,6 milljónum evra samanborið við 113,5 milljónir evra á sama tímabili í fyrra og jukust um 5,3%. EBITDA nam 12,6 milljónum á þriðja ársfjórðungi og óx um 4,2% frá þriðja ársfjórðungi 2013. Bætt afkoma skýrist aðallega af auknu flutningsmagni til og frá landinu, einkum vegna flutninga á bifreiðum, byggingarvörum og makríl. Flutningsmagn til og frá Færeyjum hefur einnig aukist, einkum vegna aukinna flutninga á makríl og laxi. Vöxturinn skýrist einnig af auknu magni í frystiflutningsmiðlun og aukinni hagkvæmni í siglingakerfinu eftir breytingar á rauðu leiðinni og eftir að gráu leiðinni var bætt við á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Hagnaður eftir skatta nam 7,5 milljónum evra á fjórðungnum og jókst um 2,4 milljónir evra eða 48,0% frá þriðja ársfjórðungi 2013, einkum vegna gengisbreytinga.

Rekstrartekjur á fyrstu níu mánuðum ársins námu 332,8 milljónum evra og jukust um 1,8% frá fyrra ári. EBITDA nam 29,7 milljónum á tímabilinu samanborið við 29,2 milljónir evra á sama tímabili 2013. Flutningsmagn í kerfum félagsins á Norður-Atlantshafi á fyrstu níu mánuðum ársins jókst um 8,4% frá sama tímabili í fyrra og jukust tekjurnar um 2,6%. Magn í frystiflutningsmiðlun jókst um 12,6% frá sama tímabili í fyrra, einkum vegna svokallaðra ”inbound“ flutninga. Tekjur af flutningsmiðlun drógust saman um 0,4% á sama tíma en EBITDA af flutningsmiðlun jókst um 3,8%. ”Inbound“  þýðir að Eimskip annast tollafgreiðslu og flutning alla leið á svokölluðum ”door-to-door“ flutningum.

Gengið hefur verið frá samningum við kínversku skipasmíðastöðina Rongcheng Shenfei um að ljúka byggingu á Bakkafossi. Samningar náðust um viðbótarafslátt að fjárhæð 0,8 milljónir dollara þannig að samningsverð skipsins nemur 18,0 milljónum dollara. Áætlaður afhendingartími Bakkafoss er á fjórða ársfjórðungi 2015. Skuldbinding vegna skipsins nam 4,9 milljónum dollara í lok september.

Eimskip tilkynnti í nóvember ákvörðun um að ráðist verði í byggingu á 10 þúsund tonna frystigeymslu á athafnasvæði félagsins í Hafnarfirði. Veruleg aukning hefur orðið á veiðum og vinnslu á uppsjávarfiski sem kallar á aukið pláss og þjónustu frystigeymslu. Auk þess fer eftirspurn eftir vöruhúsaþjónustu fyrir frystar neytendavörur vaxandi. Núverandi frystigeymsla Eimskips í Hafnarfirði, Fjarðarfrost,  rúmar um  þrjú þúsund tonn. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist fyrir lok ársins og að fyrsti áfangi nýju geymslunnar verði tekinn í notkun á síðari árshelmingi 2015. Mögulegt verður að stækka frystigeymsluaðstöðuna í Hafnarfirði í áföngum í allt að 27 þúsund tonn í samræmi við þarfir viðskiptavina. Áætlaður heildarkostnaður vegna þessarar nýju 10 þúsund tonna geymslu nemur 10 til 11 milljónum evra.

Enn ríkir óvissa á vinnumarkaði hér á landi þar sem almennir kjarasamningar gilda til loka febrúarmánaðar 2015. Eimskip hefur samið við áhafnir gámaskipa sinna og áhöfn Herjólfs og gilda þeir samningar til ársloka 2015.

Þann 1. janúar 2015 taka gildi nýjar reglur um takmörkun brennisteinsútblásturs frá skipum á tilteknum svæðum (Emission Control Areas, ECA). Með reglunum er skipafélögum gert skylt að nota olíu sem hefur brennisteinsinnihald að hámarki 0,1%, en hámarkið er nú 1,0%. Tildrög reglugerðarinnar eru samþykktir Sameinuðu þjóðanna um umhverfisvænni sjóflutninga sem framfylgt er af Alþjóðasiglingamálastofnuninni (International Maritime Organization). Reglurnar munu hafa áhrif á allar siglingaleiðir Eimskips og munu óhjákvæmilega leiða til hækkunar á olíukostnaði félagsins. Áætlað er að kostnaðarhækkunin nemi 8,5 milljónum dollara á ársgrundvelli miðað við núgildandi markaðsverð á olíu. Flutningafyrirtæki víða um heim eru um þessar mundir að kynna til sögunnar nýtt olíuálag til viðskiptavina sinna vegna þessara reglubreytinga. Eimskip hefur þegar tilkynnt um nýtt olíuálag félagsins, svokallað LSS (Low Sulphur Surcharge). Nýja olíuálaginu er ætlað að bæta fyrirtækinu upp þennan aukna olíukostnað. Eimskip leggur metnað sinn í að vera í fararbroddi sem þjónustufyrirtæki í flutningum á Norður-Atlantshafi og er það bæði skylda og ásetningur félagsins að sýna ábyrgð í þessum málaflokki og þróast í takti við kröfur umheimsins í umhverfismálum.

Varðandi rannsókn Samkeppniseftirlitins þá hefur Eimskip engar frekari upplýsingar um hana en þær sem þegar hafa verið birtar og félagið hafnar með öllu ásökunum um brot á samkeppnislögum. Rannsóknin, leki rannsóknargagna til fjölmiðla og fréttaflutningur RÚV hafa skaðað ímynd Eimskips og valdið hluthöfum félagsins tjóni.

Eimskip vinnur áfram að því að leita tækifæra til að fjárfesta í takt við þá stefnu félagsins að vera leiðandi flutningafélag á Norður-Atlantshafi, með það að markmiði að vaxa og styrkja stöðu sína á mörkuðum utan Íslands. Unnið hefur verið að undirbúningi tvíhliða skráningar á hlutabréfum félagsins í tengslum við möguleg fjárfestingarverkefni og viðræður eru enn í gangi við Seðlabanka Íslands um tvíhliða skráningu. Rannsókn Samkeppniseftirlitsins, leki trúnaðarupplýsinga rannsóknarinnar til fjölmiðla og umfjöllun RÚV um rannsóknina hafa sett strik í reikninginn varðandi framgang tvíhliða skráningar bréfa félagsins á hlutabréfamarkað erlendis.

Ákveðið hefur verið að þrengja afkomuspá félagsins fyrir árið 2014 úr EBITDA að fjárhæð 37 til 41 milljón evra í 38 til 40 milljónir evra.“

Frekari upplýsingar

  • Gylfi Sigfússon forstjóri, sími: 525 7202
  • Hilmar Pétur Valgarðsson, framkvæmdastjóri fjármála- og stjórnunarsviðs, sími: 525 7202
  • Erna Eiríksdóttir, forstöðumaður fjárfestatengsla, sími: 825 7220, netfang: investors@eimskip.is


Eimskip - Financial Statements Q3 2014.pdf
Eimskip - Uppgjor rija arsfjorungs 2014.pdf