Icelandic
Birt: 2014-10-23 20:41:21 CEST
Hagar hf.
Reikningsskil

Hagar hf. árshlutauppgjör Q2 // mars - ágúst 2014

Árshlutareikningur Haga hf. fyrir annan ársfjórðung 2014/15 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 23. október 2014. Reikningurinn er fyrir tímabilið 1. mars 2014 til 31. ágúst 2014. Árshlutareikningurinn hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dóttur­félaga þess og er hann gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Reikningurinn hefur verið kannaður af endurskoðendum félagsins, KPMG ehf.

 

Helstu upplýsingar:

  • Hagnaður tímabilsins nam 2.094 millj. kr. eða 5,5% af veltu.
  • Vörusala tímabilsins nam 38.363 millj. kr.
  • Framlegð tímabilsins var 24,15%.
  • Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 3.043 millj. kr.
  • Heildareignir samstæðunnar námu 26.453 millj. kr. í lok tímabilsins.
  • Handbært fé félagsins nam 3.046 millj. kr. í lok tímabilsins.
  • Eigið fé félagsins nam 13.020 millj. kr. í lok tímabilsins.
  • Eiginfjárhlutfall var 49,2% í lok tímabilsins.

Vörusala tímabilsins nam 38.363 milljónum króna, samanborið við 37.794 milljónum króna árið áður. Söluaukning félagsins er 1,5%. Hækkun 6 mánaða meðaltals vísitölu neysluverðs milli rekstrarára var 2,3%. Framlegð félagsins var 9.265 milljónir króna, samanborið við 9.115 milljónir króna árið áður eða 24,15% samanborið við 24,12%. Rekstrarkostnaður í heild hækkar um 99 milljónir króna eða 1,6% milli ára en kostnaðarhlutfallið hækkar úr 16,3% í 16,4%.

Afkoma fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) nam 3.043 milljónum króna, samanborið við 3.003 milljónir króna árið áður. EBITDA hækkar um 1,3% milli ára og var EBITDA framlegð 7,9% líkt og árið áður.

Hagnaður tímabilsins fyrir skatta nam 2.617 milljónum króna, samanborið við 2.466 milljónir króna árið áður. Hagnaður eftir skatta nam 2.094 milljónum króna á tímabilinu, sem jafngildir 5,5% af veltu en hagnaður eftir skatta á fyrra ári var 1.973 milljónir.

Heildareignir samstæðunnar í lok tímabilsins námu 26.453 milljónum króna. Fastafjármunir voru 13.124 milljónir króna og veltufjármunir 13.329 milljónir króna. Þar af voru birgðir 4.969 milljónir króna en birgðir voru 5.015 milljónir króna ári áður.

Eigið fé félagsins var 13.020 milljónir króna í lok tímabilsins og eiginfjárhlutfall 49,2%. Heildarskuldir samstæðunnar voru 13.433 milljónir króna, þar af voru langtímaskuldir 4.536 milljón króna. Nettó vaxtaberandi skuldir félagsins í lok tímabilsins voru 1.488 milljónir króna en 1.957 milljónir króna voru greiddar inn á langtímalán félagsins umfram lánssamning á tímabilinu.

Handbært fé frá rekstri á tímabilinu nam 2.766 milljónum króna, samanborið við 2.524 milljónir króna á fyrra ári. Fjárfestingarhreyfingar tímabilsins voru 400 milljónir króna og fjármögnunarhreyfingar 3.463 milljónir króna. Í lok júní var greiddur arður til hluthafa að fjárhæð 1.172 milljónir króna. Handbært fé í lok tímabilsins var 3.046 milljónir króna, samanborið við 3.854 milljónir króna árið áður.

 

Framtíðarhorfur:

Rekstur samstæðunnar á öðrum fjórðungi rekstrarársins 2014/15 er á áætlun og svipaður og á sama tímabili í fyrra. Nokkuð hefur hægt á söluvexti og gera áætlanir félagsins ráð fyrir sambærilegum vexti á næstu mánuðum, með óbreyttum verðbólguhorfum og stöðugu gengi. Gert er ráð fyrir að sá árangur sem náðst hefur í lækkun kostnaðarhlutfalla haldi sér en þó er ljóst að nokkur þrýstingur er á laun og mikil óvissa varðandi komandi kjarasamninga.

Þann 8. nóvember nk. mun alþjóðlega tískuvörukeðjan F&F opna í verslun Hagkaups á 2. hæð í Kringlunni. F&F býður gæða tískufatnað fyrir konur, karla og börn en keðjan hóf starfsemi árið 2001. F&F starfrækir nú á þriðja þúsund útsölustaði í yfir tuttugu löndum og munu fleiri lönd bætast í hópinn á næstu mánuðum. F&F er því í stórsókn um heim allan og eru það miklar gleðifregnir fyrir Hagkaup, og ekki síður íslenska neytendur, að ná samningi við svo sterkan samstarfsaðila.

Skrifað hefur verið undir húsaleigusamning fyrir nýja Bónus verslun við Miðstræti í Vestmannaeyjum. Áætlað er að verslunin opni í byrjun sumars 2015 en um er að ræða 1.200 m2 húsnæði.

Framkvæmdir við byggingu nýs vöruhúss fyrir Banana fara senn í gang og er nú áætlað að Bananar flytji starfsemi sína fyrir árslok 2015. Endanleg hönnun liggur nú fyrir og hafa kostnaðaráætlanir verið endurskoðaðar samhliða því. Vöruhúsið verður um 5.500 m2 að stærð og hljóðar kostnaðaráætlun upp á rúma 1,5 milljarða króna.

Í lok september skrifaði félagið undir nýjan lánssamning við Arion banka hf. og framlengdi þar með fjármögnun félagsins til 5 ára eða fram til október 2019. Lánssamningurinn er auk þess með framlengingarheimild til maí 2021. Lánssamningurinn ber breytilega, óverðtryggða millibankavexti að viðbættu álagi, líkt og fyrri samningur félagsins við bankann. Lánskjör hins nýja samnings eru hagstæðari fyrir félagið og búið er að létta nokkuð á skuldbindingum og fjárhagslegum skilyrðum. Félagið hefur rétt til að greiða lánið upp hvenær sem er á samningstímanum, án kostnaðar, en stefna stjórnar er eftir sem áður að lækka langtímaskuldir félagsins.

 

Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa:

Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa verður haldinn í þingsal 3 á Icelandair Hotel Reykjavík Natura, föstudaginn 24. október kl. 8:30, en þar mun Finnur Árnason, forstjóri Haga, kynna afkomu félagsins og svara spurningum ásamt stjórnendum félagsins.

Kynningarefni, ásamt upptöku af fundinum, verður aðgengilegt að honum loknum á heimasíðu Haga, www.hagar.is.

 

Fjárhagsdagatal 2014/15:

3. ársfjórðungur (1. mars – 30. nóvember): 8. janúar 2015

4. ársfjórðungur (1. mars – 28. feb): 12. maí 2015

 

 

Nánari upplýsingar veitir Finnur Árnason, forstjóri félagsins, í síma 530-5500.


Frettatilkynning Hagar arshlutareikningur 310814.pdf
Hagar Arshlutareikningur 31.8.2014 enskur_signed.pdf