Published: 2014-10-13 11:26:56 CEST
Icelandair Group hf.
Fyrirtækjafréttir

Icelandair Group semur um byggingu nýs hótels í miðbæ Reykjavíkur

Icelandair Hotels, dótturfélag Icelandair Group, mun opna nýtt lúxushótel í miðbæ Reykjavíkur í ársbyrjun 2016. Hótelið verður staðsett að Hafnarstræti 17-19 en fasteignin verður endurbyggð frá grunni. Það verða 70 herbergi á hótelinu. Megin kostir hótelsins eru staðsetningin í miðbæ Reykjavíkur auk þess sem hægt er að hanna fasteignina frá grunni eftir þörfum hótelsins. 

Þessi viðbót ásamt Icelandair hótel Reykjavík Kultura, sem verður við Hverfisgötu, og stækkun Icelandair hótel Reykjavík Marina við Reykjavíkurhöfn er í takt við stefnu félagsins um að sækja markvisst betur borgandi farþega til landsins og leitast þannig við að auka arðsemi félagsins og ferðaþjónustunnar almennt.

Verkefnið verður unnið í samvinnu við Suðurhús, sem er eigandi fasteignarinnar og mun stýra framkvæmdum. Icelandair Hotels mun leigja fasteignina til 20 ára.

 

Frekari upplýsingar veitir:

Bogi Nils Bogason, framkvæmdastjóri fjármála Icelandair Group, sími: 665-8801