Published: 2014-08-28 17:47:12 CEST
Eik fasteignafélag hf.
Reikningsskil

Eik fasteignafélag hf. hagnaðist um 407 m.kr. á fyrstu sex mánuðum ársins 2014

Hagnaður Eikar fasteignafélags hf. nam 407 m.kr. króna á fyrstu sex mánuðum ársins 2014. Rekstrarhagnaður félagsins  fyrir matsbreytingu og afskriftir var 719 m.kr. á tímabilinu og jókst um 5% frá sama tímabili ársins 2013. Einskiptiskostnaður vegna fjárfestinga félagsins var nokkuð hár á tímabilinu og án hans jókst rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir um 9%. Rekstrartekjur félagsins námu 1.054 m.kr. og jukust um 8% frá fyrra ári.

Heildareignir Eikar námu 40.039 m.kr. í lok júní 2014. Fjárfestingareignir félagsins voru metnar á 38.480 m.kr. í lok tímabilsins, en á fyrri árshelmingi ársins 2014 var matsbreyting fjárfestingareigna neikvæð um 150 m.kr. Eigið fé Eikar nam 8.715 m.kr. í lok tímabilsins og eiginfjárhlutfall var 22%.

Aðalástæður neikvæðrar matsbreytingar má rekja til hækkunar fasteignamats sem leiðir til hækkunar áætlaðra opinberra gjalda. Samkvæmt nýju fasteignamati mun fasteignamat samstæðu Eikar (með Landfestum) hækka um 20% árið 2015, sem mun leiða til 17% hækkunar áætlaðra opinberra gjalda. Við mat á virði fjárfestingareigna félagsins var hækkun fasteignagjalda að fullu tekin til greina í sjóðstreymismati á fjárfestingareignum félagsins.

Breytingar á rekstri félagsins á árinu 2014

Rekstur félagsins breyttist mjög mikið á fyrri árshelmingi ársins 2014 og mun breytast enn meira á síðari árshelmingi . Samkeppniseftirlitið samþykkti kaup Eikar á öllu hlutafé Landfesta ehf. í lok júní 2014. Með samþykkinu kláraðist endanlega samruni þriggja eignasafna, þ.e. Eikar, EF1 hf. og Landfesta ehf.

Við kaup Eikar á EF1 hf. í byrjun árs 2014 var EF1 hf. fært í bækur Eikar sem hlutdeildarfélag þar sem Eik var ekki með full yfirráð yfir félaginu. Eftir ofangreint samþykki Samkeppniseftirlitsins í lok júní var eignasafn EF1 hf. hins vegar fært að fullu inn í efnahagsreikning Eikar. Tekjur EF1 hf. munu því koma að fullu fram í samstæðu félagsins á síðari árshelmingi ársins 2014.

Eik tók ekki yfir Landfesta ehf. fyrr en í júlí 2014 og þar af leiðandi er rekstur og efnahagur Landfesta ehf. fyrstu sex mánuði ársins 2014 ekki hluti af árshlutareikningi samstæðunnar. Í árshlutaskýrslu félagsins er nánar fjallað um kaupin og áhrif þeirra á nýtt sameinað félag. Í skýrslunni er rekstrar- og efnahagsreikningur nýs sameiginlegs félags sýndur miðað við að félögin þrjú hefðu verið rekin saman frá ársbyrjun 2014.

Annað stærsta fasteignafélag landsins

Við sameiningu þessara þriggja eignasafna, þ.e. Eikar, EF1 hf. og Landfesta ehf., verður til annað stærsta fasteignafélag landsins með heildareignasafn um 62 ma.kr., yfir 271 þúsund fermetra í útleigu, yfir 100 fasteignir og yfir 430 leigutaka.

Eignasafn EF1 hf. samanstendur af 5 eignum sem eru alls um 60 þúsund fermetrar. Eignir EF1 hf. eru meðal annars Turninn að Smáratorgi 3, Smáratorg 1 og verslunarmiðstöðin Glerártorg á Akureyri. Eignasafn Landfesta ehf. samanstendur af 35 eignum sem eru alls um 98 þúsund fermetra. Helstu eignir Landfesta ehf. eru Borgartún 21, 21a og 26, Álfheimar 74 (Nýi Glæsibær) og Ármúli 3 og 25-27.

Efnahagur sameinaðs félags

Kaupsamningur Eikar á Landfestum ehf. var fullnustaður í júlí 2014 með því að gefa út nýja hluti að andvirði 6,8 ma.kr. og afhenda Arion banka í skiptum fyrir allt hlutafé Landfesta ehf. Með útgáfu þessara nýju hluta mun áætlað eigið fé félagsins nema 15.507 m.kr. Með eignasafni Landfesta ehf. fara áætlaðar fjárfestingareignir í 61.674 m.kr. og heildarvaxtaberandi skuldir allra félaga nema samtals 44.880 m.kr. Eiginfjárhlutfall félagsins með ofangreindri hlutafjáraukningu mun nema 24%. Á næstu misserum er gert ráð fyrir að Eik muni gefa út nýtt hlutafé að andvirði 3.000 m.kr. sem nýtt verður til innborgana á lánum. Áætlað eiginfjárhlutfall félagsins mun þá hækka uppí 29% eftir þá hlutafjárhækkun.

Ný stjórn

Á hluthafafundi félagsins sem haldinn var í ágúst 2014 var ný stjórn kosin. Tveir nýir stjórnarmenn voru kosnir í stjórn. Það eru Frosti Bergsson og Hrönn Pétursdóttir. Aðrir stjórnarmenn sem fengu endurkosningu eru Stefán Árni Auðólfsson, Agla Elísabet Hendriksdóttir og Lýður Þorgeirsson. Stefán Árni var áfram skipaður stjórnarformaður.

Árshlutareikningur Eikar fyrir tímabilið 1. janúar til 30. júní 2014 var samþykktur af stjórn félagsins 28. ágúst 2014. Hægt er að nálgast árshlutaskýrslu H1 2014, sem felur meðal annars í sér árshlutareikning tímabilsins, á heimasíðu félagsins http://eik.is/is/fjarfestatengsl.

 

Frekari upplýsingar veitir:

Garðar Hannes Friðjónsson,
forstjóri Eikar fasteignafélags hf.
Sími: 861-3027
Netfang: gardar@eik.is


2014 08 28 Eik Árshlutaskýrsla H1 2014.pdf