Icelandic
Birt: 2014-08-19 14:07:51 CEST
Landsbréf hf.
Reikningsskil

Árshlutauppgjör Landsbréfa hf. 30. júní 2014

75 milljóna króna hagnaður á fyrri helming ársins 2014

Landsbréf hf. hafa birt árshlutareikning vegna fyrri helmings ársins 2014.  Í lok júní önnuðust Landsbréf rekstur 37 sjóða og félaga um sameiginlega fjárfestingu og voru eignir í stýringu um 109 milljarðar króna. Um 12 þúsund einstaklingar og lögaðilar eiga fjármuni í sjóðum eða í stýringu hjá Landsbréfum.

  • Hagnaður af rekstri Landsbréfa nam 75 milljónum króna á fyrri hluta ársins 2014.
  • Hreinar rekstrartekjur námu 493 milljónum króna á tímabilinu.
  • Eigið fé Landsbréfa í lok júní nam um 1.719 milljónum króna og var eiginfjárhlutfall 59,46%.

Hreinar rekstrartekjur námu 493 milljónum króna á fyrri hluta ársins 2014, en námu 434 milljónum króna á sama tímabili á árinu 2013.  Hagnaður af rekstri nam 75 milljónum króna á fyrri hluta ársins, samanborið við 53 milljóna króna hagnað á sama tíma á síðasta ári. Eigið fé Landsbréfa í lok tímabilsins nam 1.719 milljónum króna og eiginfjárhlutfall, reiknað samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, var 59,46% en þetta hlutfall má ekki vera undir 8%.

Umsvif framtakssjóða Landsbréfa jukust á fyrri helmingi ársins. Horn II slhf. fjárfesti í þremur nýjum verkefnum fyrir 2,8 milljarða króna og Landsbréf – Icelandic Tourism Fund I slhf. (ITF I) fjárfesti í þremur verkefnum fyrir 284 milljónir króna.

Segja má að nokkuð erfiðar aðstæður hafi einkennt bæði íslenskan skuldabréfa- og hlutabréfamarkað á fyrri helmingi ársins og ávöxtun bæði skuldabréfa og hlutabréfa var almennt lakari en undanfarin ár. Þetta endurspeglast að talsverðu leyti í ávöxtun þeirra sjóða sem fjárfesta á þessum mörkuðum.   

Innlendir hlutabréfasjóðir Landsbréfa, Landsbréf - Úrvalsbréf og Landsbréf – Öndvegisbréf voru báðir með betri ávöxtun en viðmið þeirra. Þá var ávöxtun Landsbréfa – Global Equity Fund, erlends hlutabréfasjóðs Landsbréfa, betri en viðmið hans.

Landsbréf reka nokkra ríkisskuldabréfasjóði og hefur ávöxtun þeirra verið í takt við aðstæður á skuldabréfamarkaði. Landsbréf - Sparibréf óverðtryggð skiluðu hæstu nafnávöxtun allra ríkisskuldabréfasjóða fyrstu sex mánuði ársins eða 0,57%. Aðrir sparibréfasjóðir hafa oftar en ekki skilað betri ávöxtun en sambærilegir sjóðir.

Þá má einnig nefna að Landsbréf – Veltubréf stækkuðu úr rúmum 4 milljörðum í tæpa 8 milljarða á fyrri hluta ársins 2014, eða um 81,6%.  Sjóðurinn skilaði 2,61% nafnávöxtun á tímabilinu.

Helgi Þór Arason, framkvæmdastjóri Landsbréfa segir:

„Rekstur Landsbréfa hefur gengið vel það sem af er ári og hafa sjóðir félagsins almennt skilað góðum árangri miðað við erfiðar markaðsaðstæður. Sjóðaframboð Landsbréfa er mjög fjölbreytt og er þar að finna sjóði sem henta flestum fjárfestum. Landsbréf munu halda áfram að leggja metnað sinn í að stýra þeim fjármunum sem félaginu er treyst fyrir á öruggan og markvissan hátt í þágu sjóðfélaga.“

Frekari upplýsingar veitir Helgi Þór Arason framkvæmdastjóri Landsbréfa í síma 410 2500.

 


Landsbref arshlutareikningur 30.6.2014.pdf