English Icelandic
Birt: 2014-06-10 21:29:29 CEST
Marel hf.
Fyrirtækjafréttir

Endurskipulagning starfsemi Marel í Hollandi

Marel kynnti í dag fyrir starfsmönnum sínum í Oss í Hollandi fyrirhugaða endurskipulagningu og flutning á starfsemi félagsins þar til Boxmeer, sem er ein af lykilstarfsstöðvum Marel hvað varðar nýsköpun og framleiðslu. Markmiðið með þessum fyrirhuguðu breytingum er samþætting í rekstri starfseininganna, að styðja við bætta markaðsstöðu með því að auka nýtingu á starfskröftum í nýsköpun og framleiðslu og lækkun á kostnaði. Aðgerðir þessar munu hafa í för með sér kostnað og ávinning í samræmi við simpler, smarter and faster áætlun félagsins um skýrari rekstraráherslur, sem kynnt var í byrjun ársins og gengur samkvæmt áætlun.

Viðræður eru hafnar við starfsmannaráð og verkalýðsfélög á staðnum um fyrirhugaða endurskipulagningu og flutning á starfseminni og er stefnt að því að ljúka þeim aðgerðum fyrir lok þessa árs, með fyrirvara um árangur framangreindra viðræðna. Mun þetta hafa í för með sér fækkun á 50-60 starfsgildum. Marel, starfsmannaráð og verkalýðsfélögin munu vinna að samkomulagi vegna þessa og leggja drög að áætlun til að styðja við þá starfsmenn sem aðgerðirnar hafa áhrif á.

Starfsemi félagsins í Oss, sem telur 140 starfsmenn, er einkum bundin við kjötiðnað og framleiðslu auk þess að hýsa sölu- og þjónustuskrifstofu þess fyrir Holland, Belgíu og Luxemborg. Fjarlægðin milli Oss og Boxmeer er 40 kílómetrar.