Icelandic
Birt: 2014-05-28 15:54:57 CEST
Brim hf.
Reikningsskil

Uppgjör HB Granda hf. á fyrsta ársfjórðungi 2014

 

·     Rekstrartekjur samstæðunnar voru 41,9 m€

·     EBITDA var 9,7 m€ (23,1%)

·     Hagnaður tímabilsins var 5,6 m€

·     Handbært fé frá rekstri nam 4,2 m€

·     Afkoma samstæðunnar í takt við áætlanir

   

Rekstur fyrstu þriggja mánaða ársins 2014

Rekstrartekjur HB Granda hf. á fyrsta ársfjórðungi ársins 2014 námu 41,9 m€, samanborið við 50,9 m€ árið áður.  Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 9,7 m€ eða 23,1% af rekstrartekjum, en var 16,7 m€ eða 32,7% árið áður.  Lækkun tekna og hagnaðar má rekja til þess að mun minni loðnukvóti var gefinn út þetta fiskveiðiár samanborið við í fyrra. Á nýafstaðinni loðnuvertíð var félaginu úthlutað 24 þúsund tonnum af loðnu og veiddu skip félagsins allan þann afla, samanborið við 81 þúsund tonn árið 2013.  Verðhækkun loðnuhrogna og frystrar loðnu auk hærra hlutfalls þessara afurða úr lönduðum afla draga þó úr áhrifum minni afla á afkomu félagsins. Áhrif fjáreignatekna og fjármagnsgjalda voru neikvæð um 0,7 m€, en voru neikvæð um 0,3 m€ á sama tímabili árið áður.  Áhrif hlutdeildarfélaga voru jákvæð um 1,1 m€, en voru neikvæð um 1,0 m€ árið áður.  Hagnaður fyrir tekjuskatt var 6,8 m€ og hagnaður tímabilsins var 5,6 m€. 

Efnahagur

Heildareignir félagsins námu 348,1 m€ í lok mars 2014. Þar af voru fastafjármunir 280,2 m€ og veltufjármunir 67,9 m€.  Eigið fé nam 190,7 m€, eftir að tekið hefur verið tillit til lækkunar vegna arðgreiðslu að fjárhæð 17,6 m€.  Eiginfjárhlutfall í lok mars var 54,8%, en var 60,5% í lok árs 2013. Heildarskuldir félagsins voru í marslok 157,4 m€.

Sjóðstreymi

Handbært fé frá rekstri nam 4,2 m€ á tímabilinu, en nam 13,2 m€ á sama tímabili á síðasta ári.  Nettó fjárfesting í rekstrarfjármunum nam 11,2 m€, þar af nam fjárfesting vegna nýrra uppsjávarskipa 7,7 m€.  Fjármögnunarhreyfingar voru jákvæðar um 4,4 m€ .  Handbært fé lækkaði því um 2,6 m€ og var í lok mars 9,7 m€.

Meginniðurstöður færðar til íslenskra króna

Rekstrartekjur félagsins námu sem svarar 6,5 milljörðum íslenskra króna á meðalgengi fyrsta ársfjórðungs 2014 (1 evra = 156,15 kr), EBITDA 1,5 milljörðum og hagnaður 0,9 milljörðum. 

Heildareignir félagsins námu sem svarar 54,0 milljörðum islenskra króna á gengi 31. mars 2014 (1 evra = 154,98 kr), skuldir 24,4 milljörðum og eigið fé 29,6 milljörðum.

Skipastóll og afli

Skipafloti félagsins var óbreyttur á tímabilinu. Unnið er að smíði tveggja nýrra uppsjávarsveiðiskipa í Tyrklandi og gengur smíðin samkvæmt áætlun. Gert er ráð fyrir að fyrra skipið verði afhent í febrúar 2015 og síðara í október 2015.  Jafnframt er unnið að undirbúningi við hönnun nýrra ísfisksskipa.  

Á fyrsta ársfjórðungi ársins 2014 var afli skipa félagsins 12 þúsund tonn af botnfiski og 26 þúsund tonn af uppsjávarfiski.

Hluthafar

Arion banki annaðist hlutafjárútboð á hlutum í félaginu sem lauk þann 10. apríl 2014.  Vogun hf., Arion banki hf. og Fiskveiðahlutafélagið Venus hf. seldu 25,4% af eignarhlut sínum til 2.500 hluthafa. Í kjölfar útboðsins voru hlutabréf félagsins tekin til skráningar á NASDAQ OMX þann 25. apríl 2014. Fjöldi hluthafa þann 23. maí 2014 var 2.498.

Sveiflur í loðnuveiðum

Afkoma loðnuveiða og vinnslu hefur veruleg áhrif á rekstur HB Granda og þá sér í lagi fyrsta ársfjórðung hvers árs.  Miklar sveiflur hafa verið bæði í aflamarki á loðnu og verði afurða á undanförnum árum.  Mest veiddu skip félagsins 122 þúsund tonn árið 2005 en minnst 3 þúsund tonn árið 2009. Yfirleitt hafa góðar loðnuvertíðir fylgt góðum ungloðnumælingum. Ungloðnumæling haustið 2013 reyndist sú næst besta frá árinu 2001 og gefur vísbendingu um að næsta vertíð verði fengsælli en sú síðasta. 

Kynningarfundur þann 30. maí 2014

Opinn kynningarfundur um afkomu félagsins á fyrsta ársfjórðungi verður haldinn föstudaginn 30. maí klukkan 8:30 í höfuðstöðvum félagsins að Norðurgarði 1. Vilhjálmur Vilhjálmsson forstjóri mun kynna uppgjörið og svara spurningum.   Fjárhagsdagatal fyrir 2014:

  • Hálfsársuppgjör 27. ágúst 2014
  • Þriðji ársfjórðungur 26. nóvember 2014
  • Ársuppgjör 2014, 25. febrúar 2015

Samþykkt árshlutareiknings

Árshlutareikningur var samþykktur á stjórnarfundi HB Granda hf. 28. maí 2014.  Árshlutauppgjör HB Granda hf. er í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS – International Financial Reporting Standards).  Árshlutauppgjörið hefur ekki verið endurskoðað eða kannað af endurskoðendum félagsins.

 

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar veitir Vilhjálmur Vilhjálmsson forstjóri, sími 858-1007

 


Frettatilkynning um afkomu HB Granda F1 2014.pdf
HB Grandi hf arshlutareikn 31.03.2014.pdf