Icelandic
Birt: 2014-04-11 18:53:21 CEST
HB Grandi
Fyrirtækjafréttir

Niðurstöður útboðs hlutafjár í HB Granda hf.

27% hlutur seldur fyrir 13,6 milljarða króna á genginu 27,7 krónur á hlut

Vel heppnuðu almennu útboði á hlutabréfum í HB Granda hf. lauk í gær 10. apríl, þar sem um 3.000 fjárfestar óskuðu eftir að kaupa hlutabréf fyrir samtals um 23 milljarða króna. Fjárfestingarbankasvið Arion banka hf. hefur umsjón með útboðinu og fyrirhugaðri skráningu félagsins í Kauphöll nú í kjölfar útboðsins. Seljendur hlutanna eru Arion banki hf., Vogun hf. og Fiskveiðahlutafélagið Venus hf.

Útboðið nemur 27% af útgefnum hlutum í HB Granda og er söluandvirði þess 13,6 milljarðar króna. Endanlegt útboðsgengi er 27,7 krónur á hlut í báðum tilboðsbókum útboðsins. Miðað við þetta gengi nemur virði allra hlutabréfa í félaginu um 50 milljörðum króna.

Hlutirnir verða seldir til um 2.500 fjárfesta, en ekkert kemur í hlut þeirra sem buðu undir 27,7 krónur á hlut. Um 5% af útgefnum hlutum HB Granda verður úthlutað til fjárfesta sem skráðu sig í tilboðsbók A fyrir kaupum að andvirði 0,1-25 milljónum króna og hverjum aðila úthlutað hlutabréfum að andvirði um 0,1-13,3 milljónum króna. Um 22% af útgefnum hlutum félagsins verður úthlutað til fjárfesta sem skráðu sig í tilboðsbók B fyrir kaupum að andvirði 15 milljónum króna eða meira og verða áskriftir á og yfir útboðsgengi óskertar. Stærsta úthlutun í útboðinu nemur 5% hlut til eins fjárfestis.

Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda: „Ég býð nýja hluthafa velkomna í hóp þeirra 570 hluthafa sem fyrir eru hjá félaginu og fagna þeim áfanga að sjá HB Granda  á Aðalmarkaði á ný, en félagið hefur verið á íslenskum verðbréfamarkaði frá árinu 1992. Ég fagna því trausti sem fjárfestar sýna okkur með útboðinu, en framundan eru spennandi tímar hjá félaginu með breyttum áherslum í rekstri samhliða endurnýjun skipaflotans.“

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka: „Það er gleðilegt að hafa átt forgöngu um að veita íslenskum almenningi tækifæri til að fjárfesta í íslenskum sjávarútvegi. Það er gert í samkomulagi við aðra stóra hluthafa. Við erum ánægð með það verð sem við fáum fyrir þann hlut sem við seljum í útboðinu en að sama skapi erum við ánægð með að eiga áfram hlut í félaginu, enda höfum við mikla trú á félaginu sem er eitt öflugasta sjávarútvegsfyrirtæki landsins.“

Fjárfestum verða sendar upplýsingar úthlutun ásamt greiðslufyrirmælum þegar Kauphöll Íslands hefur staðfest að hlutir í HB Granda hf. verði teknir til viðskipta á Aðalmarkaði Kauphallarinnar. Gert er ráð fyrir að eindagi fjárfesta verði 23. apríl næstkomandi og viðskipti með hluti í HB Granda geti hafist á Aðalmarkaði föstudaginn 25. apríl næstkomandi en Kauphöllin mun tilkynna um fyrsta viðskiptadag með minnst eins viðskiptadags fyrirvara.

 

Nánari upplýsingar veita

Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda í síma 550 1000

Haraldur Guðni Eiðsson, forstöðumaður samskiptasviðs Arion banka í síma 856 7108