Icelandic
Birt: 2014-03-06 17:33:44 CET
Félagsbústaðir hf.
Reikningsskil

Ársuppgjör Félagsbústaða fyrir árið 2013

Félagsbústaðir hf, sem eru hlutafélag í eigu Reykjavíkurborgar, eiga og reka félagslegt leiguhúsnæði sem úthlutað er af Velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Markmið félagsins er að starfa í þágu almannaheilla og skal rekstur þess vera sjálfbær. Félagið á og rekur 1.777 almennar leiguíbúðir auk 307 þjónustuíbúða fyrir aldraða ásamt 137 litlum íbúðum í sambýlum fyrir fatlað fólk, eða samtals 2.221 íbúðir í Reykjavík.

Rekstur og afkoma

Rekstrartekjur Félagsbústaða hf. á árinu 2013 námu 2.958 millj. kr., sem er 5,6% aukning tekna frá árinu á undan aðallega vegna verðlagshækkunar leigu.

Rekstrargjöld námu samtals 1.502 millj. kr. og hækkuðu milli ára um 7,9%. Af einstökum rekstrarþáttum hækkaði rekstrarkostnaður fasteigna um 7,0% og launakostnaður um 9,0%. Gjaldfært viðhald fasteigna nam um 1,54% af verðmati þeirra í árslok. Framlag til afskrifta leiguskulda hækkaði úr 51 millj. kr. í 64 millj. kr., eða um 24% og svaraði til um 2,2% af leigutekjum ársins miðað við 1,8% árið á undan.

Rekstrarhagnaður Félagsbústaða hf. fyrir vaxtagjöld, verðbætur lána og matsbreytingu fjárfestingaeigna jókst um 3,2% milli ára, úr 1.411 millj. kr. árið 2012 í 1.457 árið 2013.

Hrein vaxtagjöld námu 924 millj. kr. og minnkuðu um 9% milli ára og nam vaxtaþekja rekstrarhagnaðar ársins 2013 1,57 miðað við 1,39 árið á undan.

Rekstrarafkoma Félagsbústaða hf. fyrir verðlagsbreytingar lána og matsbreytingu eigna nam 533 millj. kr. á árinu 2013 miðað við 396 millj. kr. árið á undan sem 35% aukning milli ára.

Verðbreyting lána nam samtals 824 millj. kr. og hefur þá verið tekið tillit til 165 millj.kr. höfuðstólslækkunar láns frá Íslandsbanka hf., upphaflega með gengisviðmiði frá árinu 2008 en því hefur nú verið breytt í óverðtryggt lán í íslenskum krónum

Við mat á eignum Félagsbústaða til útleigu er stuðst við mat fasteignaskrár Þjóðskrár Íslands sem var í gildi í árslok 2013 að teknu tilliti til 8% hækkunar á vísitölu íbúðaverðs í fjölbýli í Reykjavík frá febrúar 2013. Matsbreyting fjárfestingaeigna félagsins nam 1.891 millj. kr. á árinu 2013 en var 2.855 millj. kr. árið 2012.

Hagnaður Félagsbústaða hf. nam 1.606 millj.kr. á árinu 2013 en var 2.266 millj.kr. árið 2012.

Efnahagsreikningur 31.12.2013

Heildareignir Félagsbústaða hf. í árslok 2013 námu ríflega 42 milljörðum kr. og jukust um 2,2 milljarða kr. á árinu, eða um 5,4%, aðallega vegna matsbreytingar fjárfestingaeigna félagsins. Eigið fé félagsins nam 12,7 milljörðum.kr. í árslok 2013 og jókst um tæpa 1,7 milljarða kr. milli ára, eða um 15%. Eiginfjárhlutfall var 30% í árslok 2013 en var 28% árið á undan.

Sjóðstreymi
Handbært fé frá rekstri nam 482 millj. kr. á árinu 2013 sem er um 94 millj. kr. meira en árið á undan. Fjárfestingar á árinu 2013 námu 274 millj. kr. miða við 460 millj., kr árið áður. Fjármögnunarhreyfingar ársins voru neikvæðar um 210 millj. kr. samanborið við 70 millj. kr. árið áður. Á árinu 2013 keypti félagið 14 íbúðir og seldi 8 íbúðir.

Félagið endurfjármagnaði á árinu skuldabréfaflokk FEL 97 1A sem bar 5,0% verðtryggða vexti. Endurfjármögnun var gerð í samvinnu við Lánasjóð Sveitarfélaga. Nýtt lán hljóðar upp á 2,8 milljarða króna og ber 3,32% vexti umfram verðtryggingu.

 


Felagsbustair arsr 2013 us kr_me undirritunum.pdf
Frettatilkynning.pdf
Lykiltolur ur uppgjori 2013.pdf