Icelandic
Birt: 2014-03-06 17:29:13 CET
Eik fasteignafélag hf.
Reikningsskil

Eik fasteignafélag hf. hagnaðist um 1,2 milljarða króna árið 2013

Rekstrartekjur félagsins árið 2013 námu 2.029 m.kr. og jukust um 11% frá árinu 2012. Rekstrarhagnaður félagsins fyrir matsbreytingu og afskriftir nam 1.390 m.kr. og jókst um 5% frá árinu áður.

Rekstur félagsins

Heildarhagnaður Eikar fasteignafélags hf. nam 1.236 m.kr. árið 2013 samanborið við 451 m.kr. hagnað félagsins árið 2012, sem er 174% aukning. Rekstrartekjur félagsins jukust á árinu og námu 2.029 m.kr. árið 2013, sem er 11% aukning frá árinu áður. Leigutekjur ársins 2013 jukust um 9,3% á árinu 2013 og námu 1.927 m.kr. Hreinar leigutekjur, þ.e. allar tekjur af fjárfestingareignum að frádregnum öllum beinum kostnaði fjárfestingareigna, námu 1.622 m.kr. samanborið við 1.467 m.kr. árið áður, sem er aukning um 11%.

Rekstrarhagnaður félagsins fyrir matsbreytingu og afskriftir (EBITDA) nam 1.390 m.kr. sem er 5% aukning frá árinu áður. Rekstarhagnaður félagsins jókst aftur á móti verulega á milli ára, nam 2.708 m.kr. árið 2013 en 1.914 m.kr. árið 2012. Þar munar mestu um matsbreytingu fjárfestingareigna sem reiknaðist 1.323 m.kr. árið 2013. Fjárfestingareignir félagsins eru færðar á gangvirði og eru breytingar á gangvirði færðar undir matsbreytingu fjárfestingareigna. Grunnhagnaður og þynntur hagnaður á hlut nam 0,82 á árinu samanborið við 0,40 árið áður.

 

Efnahagur félagsins

Eigið fé Eikar nam 8.308 m.kr. þann 31.12.2013. Arðsemi eigin fjár nam 16% árið 2013, að teknu tilliti til hlutafjáraukningar á árinu. Eiginfjárhlutfall nam 34% í árslok 2013 og hækkar á milli ára. Fjárfestingareignir félagsins námu 23.097 m.kr. í árslok og jukust um 2.912 m.kr. Fjárfest var fyrir 1.235 m.kr. í fjárfestingareignum og fyrir 355 m.kr. í þróunarhúsnæði og núverandi húsnæði á árinu 2013. Raunhækkun fjárfestingareigna nam 2% á árinu 2013, en það má að mestu leyti rekja til hækkandi fasteignaverðs og leiguverðs miðsvæðis í Reykjavík. Handbært fé frá rekstri á árinu 2013 nam 843 m.kr. og nam handbært fé í árslok 1.329 m.kr. Vaxtaberandi skuldir félagsins námu 14.881 m.kr. þann 31.12.2013 samanborið við 13.696 m.kr. árið áður.

Eik fasteignafélag átti 63 fasteignir í árslok 2013, heildarfjöldi fermetra er um 112 þúsund. Virðisútleiguhlutfall félagsins nam 94,3% í árslok (2012: 93,4%) en ef tekið er tillit til tveggja eigna sem voru í þróun bróðurpart ársins 2013 nam virðisútleiguhlutfallið 96,6% (2012: 95,8%).

 

Annað stærsta fasteignafélag landsins

Félagið skrifaði í ágúst 2013 undir samning um kaup á tilgreindum eignum SMI ehf. Félagið skrifaði auk þess í desember 2013 undir kaupsamning við Arion banka hf. um kaup á öllu hlutafé í Landfestum ehf. Allir fyrirvarar í þeim kaupsamningi eru uppfylltir að undanskildu samþykki Samkeppniseftirlitsins. Í janúar 2014 samþykkti hluthafafundur félagsins tvískipta heimild til hækkunar hlutafjár vegna kaupanna.

Eftir ofangreind kaup verður Eik annað stærsta fasteignafélag landsins með um eitt hundrað eignir sem telja um 272 þúsund fermetra. Efnahagur sameinaðs félags verður yfir 60.000 m.kr. og heildarfjöldi leigutaka verður yfir fjögur hundruð. Helstu eignirnar í sameinuðu félagi verða meðal annars Borgartún 21 og 26, Smáratorg, Turninn, Glerártorg, Nýi Glæsibær, Austurstræti 5, 6, 7 og 17 og Þingholtsstræti 3-5. Ítarlega er fjallað um ofangreind kaup í ársskýrslu félagsins 2013 og í skýringum í ársreikningi félagsins 2013.

 

Stjórn félagsins leggur til að ekki verði greiddur út arður á árinu 2014.

 

Ársreikningur Eikar 2013 var samþykktur af stjórn félagsins 6. mars 2014. Hægt er að nálgast ársskýrslu 2013, sem felur meðal annars í sér ársreikning 2013, á heimasíðu félagsins http://eik.is/is/fjarfestatengsl.

 

Frekari upplýsingar veitir:

 

Garðar Hannes Friðjónsson,
forstjóri Eikar fasteignafélags hf.
Sími: 861-3027
Netfang: gardar@eik.is

 


2014.03.06 Eik Arsskyrsla 2013.pdf