Published: 2014-02-06 17:44:44 CET
Icelandair Group hf.
Reikningsskil

Góð afkoma á árinu 2013

  • Hagnaður ársins fyrir skatta nam 71,0 milljón USD og jókst um 13,6 milljónir USD eða 24% á milli ára.
  • Tekjuaukning á milli ára var 13,8%.
  • EBITDA á fjórða ársfjórðungi nam 6,8 milljónum USD og jókst um 0,9 milljón USD
    á milli ára.
  • Eiginfjárhlutfall 42% í árslok 2013 samanborið við 39% í árslok 2012.
  • Nettó vaxtaberandi skuldir lækkuðu um 95,6 milljónir USD á árinu og eru neikvæðar í lok árs að fjárhæð 77,5 milljónum USD.
  • Stjórn félagsins leggur til að arður að fjárhæð 2.150 milljónir króna verði greiddar til hluthafa á árinu 2014 sem samsvarar 0,43 krónum á hvern hlut.

        

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri:

„Afkoma ársins 2013 er góð og mun betri en áætlanir okkar í upphafi árs.  Hagnaður fyrir skatta nam 71,0 milljón USD og jókst um 13,6 milljónir USD á milli ára. Arðbær innri vöxtur einkenndi árið líkt og undanfarin ár sem er í samræmi við stefnu okkar. Í millilandaflugi var framboð aukið um 16% frá fyrra ári og fjöldi farþega jókst um 12%. Stærsti markaður félagsins í millilandaflugi er alþjóðlegi markaðurinn á milli Evrópu og Norður-Ameríku og hefur hann verið helsti drifkrafturinn í vexti undanfarinna ára. Mikil aukning hefur einnig verið á ferðamannamarkaðinum til Íslands og eftirspurn eftir innlendri ferðaþjónustu hefur vaxið hratt. Samhliða þeim vexti hafa skapast tækifæri fyrir fyrirtæki innan Icelandair Group til arðbærs vaxtar.

Ör vöxtur undanfarinna ára hefur tekið á innviði fyrirtækisins, sem eru sterkari í dag en nokkru sinni fyrr. Góður árangur ársins grundvallast meðal annars á hagfelldum ytri aðstæðum, aukningu í ferðaþjónustu á Íslandi og síðast en ekki síst öflugri liðsheild starfsmanna okkar sem er afar mikilvægur þáttur í velgengni fyrirtækisins. Það er alltaf ánægjulegt þegar vel gengur, en kapp er best með forsjá. Framundan eru ýmis krefjandi verkefni.  Má þar helst nefna aukna samkeppni auk þess sem samningar við nokkrar starfstéttir félagsins eru lausir sem skapar nokkra óvissu. Eftir stendur hins vegar að viðskiptalíkan fyrirtækisins hefur sannað sig, efnahagur er traustur og sjóðsstaða er sterk.  Icelandair Group er því vel í stakk búið til að takast á við framtíðina. Áætlanir félagsins fyrir árið 2014 gera ráð fyrir að EBITDA muni nema 145-150 milljónum USD.“

 

Frekari upplýsingar veita

  • Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, sími: 896-1455
  • Bogi Nils Bogason, framkvæmdastjóri fjármála Icelandair Group, sími: 665-8801


Icelandair Group hf 31 12 2013.pdf
Fréttatilkynning_Q4_2013.pdf