Published: 2013-10-30 17:44:57 CET
Icelandair Group hf.
Reikningsskil

Góður rekstur á þriðja ársfjórðungi

  • Hagnaður eftir skatta nam 65,3 milljónum USD samanborið við 51,4 milljónir USD árið áður.
  • EBITDA nam 102,2 milljónum USD og jókst um 24,3 milljónir USD frá sama tímabili 2012.
  • EBITDAR nam 114,3 milljónum USD samanborið við 92,7 milljónir USD árið áður.
  • Heildartekjur jukust um 17% milli ára.
  • Eiginfjárhlutfall 40% í lok september 2013.
  • Handbært fé frá rekstri 30,3 milljónir USD samanborið við 10,1 milljón USD árið áður.

   

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri:

„Starfsemi Icelandair Group hefur vaxið með arðbærum hætti á undanförnum árum. Fjöldi farþega í millilandaflugi er áætlaður 2,3 milljónir í ár en þeir voru 1,3 milljónir árið 2009. Áfangastöðum í millilandaflugi hefur fjölgað um 14 á sama tíma og flugvélar í okkar rekstri eru nú 40 en voru 26 árið 2009. Gistinóttum á hótelum okkar hefur fjölgað um 30% og starfsmenn okkar eru nú um 2.800 eða um 700 fleiri en árið 2009. Svo mikill vöxtur á stuttum tíma getur reynt mjög á innviði fyrirtækis. Til þessa hefur okkur auðnast að vaxa án verulegra áfalla. Það er ljóst að skýr áhersla félagsins á kjarnastarfsemina ásamt reynslu og þekkingu okkar metnaðarfulla starfsfólks er að skila okkur þessum góða árangri.

Afkoman á þriðja fjórðungi ársins var góð og hagnaður eftir skatta nam 65,3 milljónum USD samanborið við 51,4 milljónir USD á síðasta ári. Flugáætlun okkar í millilandaflugi á fjórðungnum var sú umfangsmesta frá upphafi. Við fluttum um 822 þúsund farþega. Farþegum á Norður-Atlantshafsmarkaðnum fjölgaði mest eða um 16% og voru þeir 52% af heildarfarþegafjölda félagsins. Töluverð aukning varð einnig á ferðamannamarkaðinum til Íslands eða rúmlega 7%. 

Það hefur verið yfirlýst stefna okkar frá árinu 2009 að draga úr árstíðarsveiflu og byggja Ísland upp sem heilsársáfangastað til að auka arðsemi greinarinnar í heild.  Við höfum verið í fararbroddi að auka ferðamannastrauminn utan háannatímans og við sjáum áfram mikil sóknarfæri í vetrarferðamennsku. Við munum því áfram kappkosta að nýta þau tækifæri og þróa frekari vaxtarbrodda í íslenskri ferðaþjónustu.“

 

Frekari upplýsingar veita:

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, sími: 896-1455
Bogi Nils Bogason, framkvæmdastjóri fjármála Icelandair Group, sími: 665-8801


Fréttatilkynning Q32013.pdf
Icelandair Group hf 30 9 2013.pdf