Published: 2013-09-03 18:04:13 CEST
Icelandair Group hf.
Fyrirtækjafréttir

Icelandair Group tilkynnir umfangsmikinn vöxt á árinu 2014 í millilandaflugi

  • Áætluð fjölgun farþega um 350 þúsund milli ára
  • Beint flug til 38 áfangastaða
  • Þremur Boeing 757 flugvélum bætt við flugflotann
  • Edmonton og Vancouver í Kanada og Genf í Sviss nýir áfangastaðir
  • Tvöföldun starfseminnar á fimm ára tímabili

Flugáætlun Icelandair fyrir árið 2014 verður sú stærsta í sögu félagsins og um 18% umfangsmeiri en á þessu ári. Flug verður hafið til þriggja nýrra áfangastaða og ferðum fjölgað til ýmissa borga í Norður-Ameríku og Evrópu. Gert er ráð fyrir að farþegar Icelandair verði rúmlega 2,6 milljónir á árinu 2014, en eru á þessu ári áætlaðir um 2,3 milljónir. Alls verður 21 Boeing-757 flugvél nýtt til farþegaflugsins næsta sumar, þremur fleiri en á þessu ári. Með nýjum loftferðasamningi milli Íslands og Kanada á þessu ári opnast félaginu aukin og áhugaverð tækifæri í flugi milli landanna og tengiflugi til Evrópulanda.

Mikill innri vöxtur hefur einkennt starfsemi Icelandair undanfarin ár og er áætlunin í millilandaflugi fyrir árið 2014 um það bil tvöfalt umfangsmeiri en áætlun ársins 2009. Ferðir frá landinu verða um 9.000 en voru um 4.500 fyrir fimm árum. Þá voru farþegar um 1,3 milljónir eða um helmingur þess fjölda sem gert er ráð fyrir á næsta ári. Gera má ráð fyrir að ferðamönnum til Íslands haldi áfram að fjölga á næsta ári vegna þessarar aukningar.

Edmonton, Vancouver og Genf nýir áfangastaðir

Flugið til Edmonton, höfuðborgar Albertafylkis, hefst 26. mars og stendur fram yfir áramótin 2014/15. Flogið verður fjórum sinnum í viku.  Atvinnulíf og efnahagur í Edmonton er í miklum blóma og íbúar þar eru 1,2 milljónir. Félagið sér fram á möguleika á heilsársflugi í framtíðinni til borgarinnar.

Flugið til Vancouver verður tvisvar í viku frá 13. maí til 12. október.  Borgin er sú stærsta á vesturströnd Kanada með um 2,3 milljónir íbúa. Hún er þykir afar falleg og er iðulega valin eftirsóttasta og besta borg í heimi til búsetu.

Flugið til Genfar hefst 24. maí og verður flogið tvisvar í viku til 23. september. Genf er gamalgróin söguleg borg og mikil miðstöð alþjóðastofnanna enda er stór hluti um 1,1 milljón íbúa af erlendu bergi brotinn.

 

Frekari upplýsingar veita:

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, sími: 896-1455
Bogi Nils Bogason, framkvæmdastjóri fjármála Icelandair Group, sími: 665-8801