Icelandic
Birt: 2013-08-19 19:38:42 CEST
TM hf.
Reikningsskil

Afkoma Tryggingamiðstöðvarinnar hf. (TM) á fyrri árshelmingi 2013

Á stjórnarfundi þann 19. ágúst 2013 samþykkti stjórn og forstjóri TM árshlutareikning fyrir fyrri árshelming 2013.

Helstu tölur TM á fyrri árshelmingi 2013:

  • Heildarhagnaður tímabilsins eftir skatta var 1.191 m.kr. (2012: 811 m.kr.)
  • Hagnaður fyrir skatta var 1.388 m.kr. (2012: 965 m.kr.)
  • Framlegð af vátryggingastarfsemi var 779 m.kr. (2012: 451 m.kr.)
  • Fjárfestingatekjur voru 847 m.kr. (2012: 840 m.kr.)
  • Samsett hlutfall var 86,3% (2012: 91,5%)
  • Eigin iðgjöld hækkuðu um 7% á milli ára
  • Eigin tjón lækkuðu um 5% á milli ára
  • Kostnaðarhlutfall hækkaði úr 22,4% í 24,7% milli ára
  • Eiginfjárhlutfall í lok 2. ársfjórðungs var 36%
  • Arðsemi eigin fjár á fyrri árshelmingi var 23,4% á ársgrunni (2012: 13,3% )

Sigurður Viðarsson, forstjóri TM:

„Afkoma TM á fyrri árshelmingi var góð og batnaði milli ára. 380 millj. kr. betri rekstrarniðurstaða en á sama tíma í fyrra skýrist af rúmlega fimm prósentustiga lægra samsettu hlutfalli. Samsetta hlutfallið er nú 86,3% sem er mjög gott og stenst samanburð við það sem best gerist hjá vátryggingafélögum í heiminum.

Aukin framlegð af vátryggingastarfseminni skýrist af því að viðskiptavinum hefur fjölgað nokkuð á fyrri helmingi ársins á sama tíma og tjónakostnaður lækkar. Áætlanir gerðu ráð fyrir hækkun á tjónakostnaði samhliða auknum umsvifum í þjóðfélaginu, sem hafa látið á sér standa.

Fjárfestingatekjur eru lítillega undir áætlun, einkum og sér í lagi vegna neikvæðra áhrifa sem styrking krónunnar hafði á verðmæti erlendra eigna félagsins í krónum talið á tímabilinu.

Kostnaðarhlutfall félagsins á tímabilinu er hátt en ástæður þess eru einskiptis kostnaður vegna skráningar félagsins á markað og hærri markaðskostnaður en áætlanir gerðu ráð fyrir. Það er hins vegar skýr fyrirætlun stjórnenda að standa við áætlun um 21,5% kostnaðarhlutfall fyrir árið í heild.

Þrátt fyrir góða niðurstöðu á fyrri helmingi ársins er erfitt að spá fyrir um hvað framundan er, enda er það eðlilegur hluti af vátryggingastarfsemi að takast á við sveiflur vegna stærri tjóna.  Stórt tjón varð til að mynda í lok júlí og ætla má að áhrif þess á afkomu TM nemi um 180 milljónum króna fyrir skatta.TM er endurtryggt fyrir þeirri fjárhæð sem er umfram eigin áhættu félagsins.

Varðandi framtíðarhorfur má sérstaklega nefna að erlendir vátryggingamarkaðir hafa tekið hækkun á lánshæfismati TM frá því í febrúar síðastliðnum vel og við skynjum mikinn áhuga og aukin viðskipti í erlendri starfsemi félagsins. Lánshæfismat TM er lykillinn að þeim viðskiptum en eins og fram hefur komið er matið á TM dregið niður af lánshæfismati íslenska ríkisins.“

Kynningarfundur

TM býður til opins kynningarfundar um afkomu félagsins á fyrri árshelmingi þann 20. ágúst kl. 9. Fundurinn fer fram í höfuðstöðvum TM að Síðumúla 24, 4. hæð. Þar mun Sigurður Viðarsson forstjóri kynna uppgjörið og svara spurningum.

Nánari upplýsingar

Sigurður Viðarsson, forstjóri

S: 515-2609

sigurdur@tm.is


Arshlutareikningur_TM_30.06.2013.pdf
Frettatilkynning um afkomu TM 1H 2013.pdf