Icelandic
Birt: 2013-06-28 14:26:59 CEST
Hagar hf.
Reikningsskil

Hagar hf. árshlutauppgjör Q1 // mars - maí 2013

Árshlutareikningur Haga fyrir fyrsta ársfjórðung 2013/14 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 28. júní 2013.  Reikningurinn er fyrir tímabilið 1. mars 2013 – 31. maí 2013. Árshlutareikningurinn hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess og er hann gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Endurskoðendur félagsins, KPMG ehf., hafa hvorki endurskoðað né kannað reikninginn.

 

Helstu upplýsingar:

  • Hagnaður tímabilsins nam 837 millj. kr. eða 4,6% af veltu.
  • Vörusala tímabilsins nam 18.379 millj. kr.
  • Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 1.336 millj. kr.
  • Heildareignir samstæðunnar námu 26.274 millj. kr. í lok tímabilsins.
  • Handbært fé félagsins nam 3.144 millj. kr. í lok tímabilsins.
  • Eigið fé félagsins nam 9.568 millj. kr. í lok tímabilsins.
  • Eiginfjárhlutfall var 36,4% í lok tímabilsins.

Vörusala tímabilsins nam 18.379 milljónum króna, samanborið við 17.364 milljónir króna árið áður. Söluaukning félagsins er 5,8%. Hækkun 12 mánaða meðaltals vísitölu neysluverðs milli rekstrarára var 4,23%.

Afkoma fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) nam 1.336 milljónum króna, samanborið við 1.137 milljónir króna árið áður. EBITDA framlegð var 7,3%, samanborið við 6,5% árið áður. Framlegð félagsins er 4.447 milljónir króna, samanborið við 4.185 milljónir króna árið áður eða 24,2% samanborið við 24,1%. Launakostnaður hækkar um 1,8% milli ára en ef tekið er tillit til einskiptisliðar á fyrra ári hækka laun um 5% milli ára. Annar rekstrarkostnaður hækkar um 2,8% milli ára. Kostnaðarhlutfallið í heild lækkar úr 17,7% (17,4% ef tekið er tillit til einskiptisliðar) í 17,1% milli ára.

Hagnaður rekstrarársins fyrir skatta nam 1.046 milljónum króna, samanborið við 797 milljónir króna árið áður.  Hagnaður eftir skatta nam 837 milljónum króna á tímabilinu, sem jafngildir um 4,6% af veltu. Hagnaður eftir skatta á fyrra ári var 628 milljónir.

Heildareignir samstæðunnar í lok tímabilsins námu 26.274 milljónum króna. Fastafjármunir voru 12.809 milljónir króna og veltufjármunir 13.465 milljónir króna. Þar af eru birgðir 5.567 milljónir króna en birgðir hafa aukist um 9,2% frá lokum síðasta rekstrarárs. Birgðir á sama tíma í fyrra námu 4.953 milljónum króna.

Eigið fé félagsins var 9.568 milljónir króna í lok tímabilsins og eiginfjárhlutfall 36,4%.  Heildarskuldir samstæðunnar voru 16.706 milljónir króna, þar af voru langtímaskuldir 8.490 milljónir króna. Í lok maí voru 500 milljónir króna greiddar inn á langtímalán félagsins, umfram lánssamning. Nettó vaxtaberandi skuldir félagsins í lok tímabilsins voru 5.143 milljónir króna.

Handbært fé frá rekstri á tímabilinu nam 948 milljónum króna, samanborið við 1.347 milljónir króna á fyrra ári. Fjárfestingarhreyfingar tímabilsins voru 93 milljónir króna og fjármögnunar­hreyfingar 658 milljónir króna. Handbært fé í lok tímabilsins var 3.144 milljónir króna, samanborið við 2.773 milljónir króna árið áður.

   

Framtíðarhorfur:

Rekstur félagsins á fyrsta ársfjórðungi rekstrarársins 2013/14 var umfram áætlanir og betri en á fyrra ári. Horfur næstu mánaða eru í takt við árangur félagsins á síðast liðnu ári en litlar vísbendingar eru í dag um betri hag heimilanna og hefur það þá sérstaklega áhrif í sérvöruhluta félagsins.

Félagið mun áfram skoða mögulegar fjárfestingar í fasteignum undir rekstur sinn, sem og vinna í hagstæðari leigusamningum og fækkun fermetra. Auk þess mun félagið marka sér nánari stefnu hvað varðar fjármagnsskipan til framtíðar, eins og kom fram í máli stjórnarformanns á aðalfundi félagsins nýverið.

 

Fjárhagsdagatal 2013/14:

2. ársfjórðungur (1. mars – 31. ágúst): 24. október 2013

3. ársfjórðungur (1. mars – 30. nóv): 17. janúar 2014

4. ársfjórðungur (1. mars – 28. feb): 15. maí 2014

 

 

Nánari upplýsingar veitir Finnur Árnason, forstjóri félagsins, í síma 530-5500.


Frettatilkynning Hagar arshlutareikningur 310513.pdf
Hagar arshlutareikningur 31 05 2013 m nofnum.pdf