Icelandic
Birt: 2013-05-16 13:15:43 CEST
Hagar hf.
Reikningsskil

Hagar hf. - ársuppgjör 2012/13

Ársreikningur Haga fyrir rekstrarárið 2012/13 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 16. maí 2013.  Reikningurinn er fyrir tímabilið 1. mars 2012 – 28. febrúar  2013. Ársreikningurinn hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess og er hann gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Endurskoðendur félagsins, KPMG ehf., hafa endurskoðað reikninginn og áritað hann fyrirvaralausri áritun.

 

Helstu upplýsingar:

  • Hagnaður rekstrarársins nam 2.958 millj. kr. eða 4,1% af veltu.
  • Vörusala rekstrarársins nam 71.771 millj. kr.
  • Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 4.963 millj. kr.
  • Heildareignir samstæðunnar námu 25.714 millj. kr. í lok rekstrarársins.
  • Handbært fé félagsins nam 2.947 millj. kr. í lok rekstrarársins.
  • Eigið fé félagsins nam 8.731 millj. kr. í lok rekstrarársins.
  • Eiginfjárhlutfall  var 34,0% í lok rekstrarársins.

Vörusala rekstrarársins nam 71.771 milljónum króna, samanborið við 68.495 milljónir króna árið áður. Söluaukning félagsins er 4,8%. Hækkun 12 mánaða meðaltals vísitölu neysluverðs milli rekstrarára var 4,87%.

Afkoma fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) nam 4.963 milljónum króna, samanborið við 4.183 milljónir króna árið áður. EBITDA framlegð er 6,9% samanborið við 6,1% árið áður. Framlegð félagsins er 17.286 milljónir króna samanborið við 16.106 milljónir króna árið áður eða 24,1% samanborið við 23,5%. Launakostnaður stendur nánast í stað milli ára, en greidd laun hækkuðu um 3,9% milli ára. Annar rekstrarkostnaður hefur hækkað um 7,7% en að teknu tilliti til einskiptisliðar á fyrra ári er hækkunin 5,5% milli ára.

Fjármagnsliðir eru 537 milljónir króna en þeir hækka um 483 milljónir króna milli ára. Það skýrist af tekjufærslu á fyrra ári að upphæð 515 milljónir króna sem var tilkomin vegna endurgreiðslu á gengistryggðu láni félagsins, í kjölfar gengislánadóms Hæstaréttar.

Hagnaður rekstrarársins fyrir skatta nam 3.738 milljónum króna, samanborið við 3.052 milljónir króna árið áður.  Hagnaður eftir skatta nam 2.958 milljónum króna á rekstrarárinu, sem jafngildir um 4,1% af veltu. Hagnaður eftir skatta á fyrra ári var 2.344 milljónir króna og hefur hagnaður því aukist um 26,2% milli ára.

Heildareignir samstæðunnar í lok rekstrarársins námu 25.714 milljónum króna. Fastafjármunir voru 12.875 milljónir króna og veltufjármunir 12.839 milljónir króna. Þar af eru birgðir 5.099 milljónir króna en birgðaaukning milli ára er 17,4%. Hér er að mestu um tímabundna hækkun að ræða, en birgðastaða er til að mynda mjög breytileg eftir því á hvaða vikudegi árið endar.

Eigið fé félagsins var 8.731 milljón króna í lok rekstrarársins og eiginfjárhlutfall 34,0%.  Heildarskuldir samstæðunnar voru 16.983 milljónir króna, þar af eru langtímaskuldir 8.948 milljónir króna. Nettó vaxtaberandi skuldir félagsins í lok tímabilsins voru 5.995 milljónir króna sem jafngildir skuldsetningu 1,2 x EBITDA.

Handbært fé frá rekstri á árinu nam 3.888 milljónum króna samanborið við 3.427 milljónir króna á fyrra ári. Fjárfestingahreyfingar ársins voru 922 milljónir króna en þar af var keypt fasteign að upphæð 473 milljónir króna. Fjármögnunarhreyfingar á rekstrarárinu voru 2.168 milljónir króna, en félagið greiddi 527 milljónir króna í arð og hefur auk þess greitt 1.000 milljónir króna inná lán félagsins umfram lánssamning. Handbært fé í lok rekstrarársins var 2.947 milljónir króna samanborið við 2.149 milljónir króna árið áður. Þetta samsvarar hækkun á handbæru fé á árinu um 798 milljón króna.

   

Framtíðarhorfur:

Rekstur félagsins á rekstrarárinu 2012/13 var umfram áætlanir og betri en á fyrra ári. Áætlanir núverandi rekstrarárs eru nokkuð í takt við nýliðið rekstrarár.

Það er stefna félagsins að skoða áfram mögulegar fjárfestingar í fasteignum fyrir rekstrareiningar samstæðunnar. Einnig verður það fé sem til verður í rekstrinum, að einhverju marki, notað til niðurgreiðslu vaxtaberandi lána.

Auk þess mun félagið halda áfram þeirri vinnu sem hefur átt sér stað við að bæta aðfangakeðjuna, fækka fermetrum og ná hagstæðari leigusamningum fyrir rekstrareiningar sínar.

 

Kynningarfundur:

Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa verður haldinn á 20. hæð í Turninum, Smáratorgi í Kópavogi, föstudaginn 17. maí kl. 08:30, en þar mun Finnur Árnason forstjóri Haga kynna afkomu félagsins og svara spurningum ásamt stjórnendum félagsins.

Kynningarefni fundarins verður aðgengilegt að honum loknum á heimasíðu Haga, www.hagar.is

  

Fjárhagsdagatal 2013/14:

Aðalfundur 7. júní 2013

1. ársfjórðungur (1. mars – 31. maí): 28. júní 2013

2. ársfjórðungur (1. mars – 31. ágúst): 24. október 2013

3. ársfjórðungur (1. mars – 30. nóv): 17. janúar 2014

4. ársfjórðungur (1. mars – 28. feb): 15. maí 2014

  

Nánari upplýsingar veitir Finnur Árnason, forstjóri félagsins, í síma 530-5500.

 


Frettatilkynning Hagar arsreikningur 280213.pdf
Hagar Arsreikningur 28 2 2013.pdf