Published: 2013-02-27 18:09:13 CET
Eik fasteignafélag hf.
Reikningsskil

Eik fasteignafélag hf. hagnaðist um 451 milljón króna árið 2012

Rekstrarhagnaður félagsins var rúmlega 1.9 milljarður króna og jókst um 36,9 prósent frá árinu 2011. Leigutekjur Eikar námu tæplega 1.8 milljarði króna og jukust um 4,3 prósent frá fyrra ári.

Hagnaður Eikar fasteignafélags hf. nam 451.074.000 krónum á árinu 2012 og hefur orðið viðsnúningur í rekstri félagsins frá fyrra ári, þegar félagið hagnaðist um 9.958.000 króna. Að teknu tilliti til hlutafjáraukningar á árinu nam arðsemi eiginfjár 9,1 prósenti, en sé tekið tillit til þess að skattar hafa verið reiknaðir en ekki greiddir nemur arðsemi eiginfjárs félagsins 11,4 prósentum. Eigið fé Eikar fasteignafélags í lok árs nam 6.457.209.000 króna.

Auk þess sem félagið jók hagnað sinn verulega á nýafstöðnu ári uxu leigutekjur Eikar umtalsvert og námu 1.763.937.000 króna á árinu 2012. Að frádregnum rekstrarkostnaði fjárfestingaeigna upp á 352.787.000 króna námu hreinar leigutekjur félagsins 1.483.618.000 króna á nýliðnu ári.

Rekstrarhagnaður Eikar jókst verulega á árinu 2012, en hagnaður félagsins óx um alls 36,9 prósent frá fyrra ári og nam hann 1.913.923.000 króna á umræddu 12 mánaða tímabili. Hvað rekstrarhagnaðinn varðar er rétt að geta þess að matsbreyting fjárfestingaeigna á árinu nam 595.427.000 króna á árinu og skýrist að meginstefnu til af því að leigutekjur félagsins jukust frá fyrra ári. Fjárfestingaeignir félagsins voru í lok ársins bókaðar miðað við áætlað matsvirði sitt upp á 20.184.773.000 króna.

Eignir félagsins jukust á milli ára og námu 20.992.361.000 króna við árslok síðasta árs og höfðu þá aukist um 5,3 prósent frá 31. desember 2011.

Stjórn félagsins leggur til að greiddur verði út arður að fjárhæð 130.000.000 króna á árinu 2013, eða sem nemur um 2% af eigin fé.

Frekari upplýsingar veitir:
Garðar Hannes Friðjónsson,
forstjóri Eikar fasteignafélags hf.
S. 861-3027


Ársskýrsla 2012.pdf