Icelandic
Birt: 2013-02-25 10:37:09 CET
Origo hf.
Niðurstöður hluthafafunda

Aðalfundur haldinn í ráðstefnusal Nýherja, Borgartúni 37 22. febrúar 2013 kl. 16:00 - 17:10

 

1.    Formaður stjórnar, Benedikt Jóhannesson setti fundinn.

2.    Stungið var upp á Gunnari Baldvinssyni sem fundarstjóra og Þór Konráðssyni sem fundarritara og var það samþykkt.

Fundarstjóri gekk úr skugga um að löglega væri til fundarins boðað og skýrði frá því að mætt væri á aðalfund fyrir 68,95% hlutafjár.   Fundarstjóri lýsti fundinn því lögmætan til að afgreiða þau málefni sem á dagskrá hans eru.

3.    Stjórnarformaður tók fyrstur til máls og flutti skýrslu stjórnar félagsins.

Afrit af ræðu stjórnarformanns er varðveitt sem fylgiskjal nr. 1 við fundargerð þessa.

4.    Næstur tók til máls Þórður Sverrisson, forstjóri félagsins, og skýrði hann reikninga félagsins fyrir árið 2012.

Því næst var orðið gefið laust um reikninga félagsins og skýrslu stjórnar. Einn hluthafi, Sverrir Ólafsson, tók til máls. Hann lýsti vonbrigðum með afkomu félagsins og gerði athugasemdir m.a. við tekjufærslu skatts af töpuðu hlutafé Roku, nýja starfsmenn í stjórnendastöðum, lágar arðgreiðslur og lækkun starfsaldurs úr 70 í 67 ár.

Formaður svaraði Sverri og sagðist taka til sín slaka afkomu og vera honum sammála að afkoma þyrfti að vera mun betri m.a. til að geta greitt út hærri arð. Hann kannaðist hins vegar ekki við að starfaldur hefði verið lækkaður úr 70 í 67 ár. Um skattalega tekjufærslu vísaði formaður í ágæta skýringu í ræðu forstjóra.

Reikningar félagsins voru samþykktir samhljóða.         

5.    Næsta mál á dagskrá var ákvörðun um ráðstöfun hagnaðar félagsins. Fundarstjóri bar upp tillögu stjórnar eins og hún kemur fram í áritun á reikninga félagsins en þar segir: "Stjórn félagsins leggur til að greiddar verði 0,05 kr. á hlut í arð til hluthafa árið 2013 eða 20 millj. kr. Vísað er til ársreikningsins um ráðstöfun hagnaðar og aðrar breytingar á eiginfjárreikningum.“ Arður verður greiddur út þann 22. mars næstkomandi í samræmi við eign hluthafa eins og hún er skráð í lok dags þann 27. febrúar 2013. Arðleysisdagur er 25. febrúar 2013.

Tillagan var samþykkt.

6.    Næst bar fundarstjóri undir fundinn tillögu um að laun stjórnarmanna og varamanns þeirra í stjórn Nýherja hf. fyrir árið 2012 yrðu eftirfarandi:

Formaður kr. 3.000.000.

Meðstjórnendur kr. 1.000.000.

Tillagan var samþykkt.

7.    Fundarstjóri bar upp tillögu um 5 aðalmenn í aðalstjórn Nýherja hf. Þar sem ekki voru fleiri í kjöri lýsti fundarstjóri eftirtalda sjálfkjörna í aðalstjórn til næsta aðalfundar:

Benedikt Jóhannesson

Árna Vilhjálmsson

Guðmund Jóh. Jónsson

Hildi Dungal

Mörtu Kristínu Lárusdóttur.

Fyrir lá tillaga um Guðrúnu Ragnarsdóttur í varastjórn Nýherja hf.

Þar sem ekki voru fleiri í kjöri lýsti fundarstjóri Guðrúnu Ragnarsdóttur sjálfkjörna til næsta aðalfundar.
 

8.    Fundarstjóri bar upp tillögu stjórnar um að endurskoðendur félagsins yrðu KPMG ehf. Fundarstjóri lýsti þá sjálfkjörna til endurskoðunar.

9.    Fundarstjóri bar næst upp svohljóðandi tillögu um heimild félagsins til kaupa á eigin hlutum      skv. 55. grein hlutafélagalaga:

Aðalfundur Nýherja haldinn 22. febrúar 2013 samþykkir heimild til handa stjórn félagsins til að kaupa fyrir hönd félagsins allt að 10% af nafnverði hlutafjár félagsins, sbr. VIII. kafla laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Kaupgengi hluta skal miða við síðasta skráða dagslokagengi í Nasdaq OMX Iceland hf. áður en samningur er gerður. Gildistími heimildarinnar er allt að átján mánuðir. Með samþykkt tillögu þessarar fellur úr gildi sams konar heimild sem samþykkt var á síðasta aðalfundi félagsins.

Tillagan var samþykkt samhljóða.

10.  Fundarstjóri bar upp tillögu um starfskjarastefnu Nýherja hf. skv. 79. grein laga nr. 2/1995 um  hlutafélög (fylgiskjal nr. 2).

Tillagan var samþykkt samhljóða.

11.   Undir liðnum „Önnur mál“ þakkaði stjórnarformaður hluthöfum það traust, sem þeir sýndu nýkjörinni stjórn og fundarstjóra fyrir góða fundarstjórn og sleit svo fundi kl. 17:10.     

Engar athugasemdir komu fram við fundargerðina.


Ra formanns Nyherja hf. 22. februar 2013.pdf