Published: 2012-10-25 13:05:48 CEST
Hagar hf.
Reikningsskil

Hagar hf. 6 mánaða árshlutauppgjör // mars - ágúst 2012

Árshlutareikningur Haga fyrir fyrri hluta rekstrarársins 2012/13 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 25. október 2012.  Reikningurinn er fyrir tímabilið 1. mars 2012 – 31. ágúst 2012. Árs­hlutareikningurinn hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess og er hann gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Reikningurinn hefur verið kannaður af endurskoðendum félagsins.

 

Helstu upplýsingar:

  • Hagnaður tímabilsins nam 1.554 millj. kr. eða 4,4% af veltu.
  • Vörusala tímabilsins nam 35.569 millj. kr.
  • Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 2.632 millj. kr.
  • Heildareignir samstæðunnar námu 24.429 millj. kr. í lok tímabilsins.
  • Handbært fé félagsins nam 2.943 millj. kr. í lok tímabilsins.
  • Eigið fé félagsins nam 7.327 millj. kr. í lok tímabilsins.
  • Eiginfjárhlutfall  var 30,0% í lok tímabilsins.

Vörusala nam 35.569 milljónum króna, samanborið við 33.711 milljónum króna fyrir sama tímabil árið áður. Söluaukning félagsins er því 5,5% milli ára.

Afkoma fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta nam 2.632 milljónum króna, samanborið við 2.188 milljónir króna árið áður. Framlegð félagsins er 8.625 milljónir króna samanborið við 8.026 milljónir króna árið áður eða 24,2% samanborið við 23,8%. Launakostnaður stendur nánast í stað milli tímabila en annar rekstrarkostnaður hefur hækkað um 5,9%.

Hagnaður rekstrarársins fyrir skatta nam 1.966 milljónum króna, samanborið við 1.361 milljónum króna árið áður.  Hagnaður eftir skatta nam 1.554 milljónum króna á tímabilinu, sem jafngildir um 4,4% af veltu.

Heildareignir samstæðunnar í lok tímabilsins námu 24.429 milljónum króna. Fastafjármunir voru 12.393 milljónir króna og veltufjármunir 12.036 milljónir króna. Þar af eru birgðir 4.483 milljónir króna en þær hafa aukist um 3,2% frá lokum síðasta rekstrarárs. Á sama tíma í fyrra voru birgðir 4.614 milljónir króna.

Eigið fé félagsins var 7.327 milljónir króna í lok tímabilsins og eiginfjárhlutfall 30,0%. Eiginfjárhlutfall í lok síðasta rekstrarárs var 26,6%. Heildarskuldir samstæðunnar voru 17.102 milljónir króna, þar af eru langtímaskuldir 10.033 milljónir króna. Nettó vaxtaberandi skuldir félagsins í lok tímabilsins voru 6.819 milljónir króna.

Handbært fé frá rekstri í lok tímabilsins nam 2.275 milljónum króna samanborið við 1.622 milljónir króna á sama tíma í fyrra. Fjárfestingahreyfingar tímabilsins voru 135 milljónir króna. Fjármögnunarhreyfingar á tímabilinu voru 1.346 milljónir króna en þar af var arðgreiðsla sem greidd var í júní að upphæð 527 milljónir króna. Handbært fé í lok tímabilsins var 2.943 milljónir króna samanborið við 1.825 milljónir króna árið áður.

 

Framtíðarhorfur:

Rekstur félagsins á fyrstu sex mánuðum rekstrarársins var góður og betri en á sama tímabili í fyrra. Reksturinn var yfir áætlunum og eru horfur fyrir síðari helming rekstrarársins ágætar.  

Skrifað hefur verið undir leigusamning um verslunarhúsnæði við Nýbýlaveg í Kópavogi en þar er stefnt að opnun Bónusverslunar í desember næst komandi.

Hagar hafa gert tilboð í fasteign við Skútuvog 5 í Reykjavík en stefnt er að því að stór hluti hússins muni nýtast Aðföngum. Ekki hefur verið gengið frá kaupsamningi þar sem enn eru nokkrir fyrirvarar í samningnum ófrágengnir.

Eins og áður hefur komið fram hafa Hagar ákveðið að leita réttar síns vegna gengistryggðra lána sem félagið var með hjá Arion banka. Félagið telur að nýfallinn dómur Hæstaréttar í máli Borgarbyggðar gegn Arion banka styrki enn frekar afstöðu þess um málið en um er að ræða 824 milljónir kröfu, m.v. endurútreikning 29. febrúar sl. Málið er sem stendur í höndum lögfræðings félagsins.

 

Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa:

Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa verður haldinn á Hilton Reykjavík Nordica, föstudaginn 26. október kl. 8:30 en þar mun Finnur Árnason forstjóri Haga kynna afkomu félagsins og svara spurningum ásamt stjórnendum félagsins.

Kynningarefni fundarins verður aðgengilegt að honum loknum á heimasíðu Haga, www.hagar.is

 

Fjárhagsdagatal 2012/13:

3. ársfjórðungur (1. mars – 30. nóv): birting 18. janúar 2013

4. ársfjórðungur (1. mars – 28. feb): birting 17. maí 2013

   

Nánari upplýsingar veitir Finnur Árnason, forstjóri félagsins, í síma 530-5500.


Hagar árshlutareikningur 31 8 2012.pdf
Fréttatilkynning Hagar hálfsársreikningur 310812.pdf