Icelandic
Birt: 2012-10-19 16:05:21 CEST
Orkuveita Reykjavíkur
Fyrirtækjafréttir

Sala á Gagnaveitunni samþykkt í stjórn OR

Reykjavík, 2012-10-19 16:05 CEST -- Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum í dag að hefja söluferli á allt að 49% hlutar í Gagnaveitu Reykjavíkur. Tillaga þess efnis hafði þegar verið samþykkt af sveitarstjórnum þeirra þriggja sveitarfélaga, sem eiga Orkuveituna. Ákveðið var að velja ráðgjafa við söluna að undangenginni formlegri verðkönnun, þar sem leitað verður tilboða meðal a.m.k. fimm fyrirtækja, sem hafa tilskilin leyfi Fjármálaeftirlitsins skv. lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Endanlegar tillögur um tilhögun sölu verða lagðar fyrir stjórn og eigendur Orkuveitu Reykjavíkur.

Á fundum stjórnar OR og eigenda í mars og apríl 2011 var samþykkt  Aðgerðaáætlun OR og eigenda – Planið. Í því er gert ráð fyrir sölu eigna að fjárhæð 10 milljarða króna frá gildistöku þess til ársloka 2016. Um mitt ár 2012 höfðu eignir að fjárhæð 1.275 mkr. verið seldar.

Gagnaveita Reykjavíkur, sem nú er að fullu í eigu Orkuveitunnar, býður heimilum og fyrirtækjum aðgang að ljósleiðarakerfi til gagnaflutninga með þá sýn að leiðarljósi að háhraða gagnaflutningur auki lífsgæði og samkeppnishæfni íslensks samfélags. Þjónustusvæði Gagnaveitunnar nær frá Bifröst til Vestmannaeyja og tengingar fyrirtækisins ná nú til um 50 þúsund heimila. Velta Gagnaveitunnar árið 2011 nam um 1,2 milljörðum króna.

Borgarstjórn Reykjavíkur, bæjarstjórn Akraneskaupstaðar og byggðaráð Borgarbyggðar hafa samþykkt tillögu Eigendanefndar OR um söluna. Í henni segir m.a. að áframhaldandi meirihlutaeign OR sé ætlað að stuðla að því markmiði að tryggja hagstætt verð, opna samkeppni og meirihlutaeign almennings. Þá verður það hluti söluferilsins að kanna þann kost að Gagnaveitan verði hluti opins grunnnets í gagnaflutningum á suðvestur-horni landsins.