Icelandic
Birt: 2012-03-29 12:44:37 CEST
Mosfellsbær
Reikningsskil

Ársreikningur Mosfellsbæjar fyrir árið 2011

GÓÐ STAÐA MOSFELLSBÆJAR

Ársreikningur Mosfellsbæjar fyrir árið 2011 var lagður fram í bæjarráði í dag og honum vísað til fyrri umræðu í bæjarstjórn. 

Rekstur Mosfellsbæjar gekk vel á árinu 2011 og var rekstrarafgangur fyrir fjármagnsliði  um 560 milljónir sem er um 10% af tekjum. Rekstur stofnana bæjarins var í samræmi við áætlun sem tókst með samstilltu átaki allra starfsmanna.  Tekjur urðu meiri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir, hinsvegar urðu verðbætur mun hærri og er það vegna meiri verðbólgu í landinu en gert var ráð fyrir.  Því var að teknu tilliti til fjármagnsliða niðurstaðan neikvæð um 26 milljónir eða 0,4% af tekjum sem er rúmlega 40 milljónum betri afkoma en áætlun gerði ráð fyrir.  

Íbúar Mosfellsbæjar voru 8.822 þann 1. desember 2011 og hafði fjölgað um 2,2% frá fyrra ári.


Skuldahlutfall niður í 148% af tekjum

Kennitölur úr rekstri bera vott um góða stöðu bæjarsjóðs.  Veltufé frá rekstri er 677 millj. kr. sem 12% af rekstrartekjum og framlegð frá rekstri er 15%.  Skuldahlutfall hefur lækkað niður í 148% en var 179% árið 2010 og er þar með komin niður fyrir 150% mörkin sem ný sveitarstjórnarlög setja sveitarfélögum.  Er þetta þrátt fyrir að inn í þessum tölum sé lántaka vegna byggingu nýs hjúkrunarheimilis sem er verkefni sem Mosfellsbær er að sinna fyrir ríkisvaldið.  Eigið fé í árslok nemur 3.663 milljónum,  jókst um 66 milljónir á árinu og er eigfjárhlutfallið 31%.


Fræðslu-, félags- og íþróttamál eru umfangsmestu verkefnin

Fræðslumál eru langstærsti málaflokkurinn en til hans runnu 2.313 millj. kr. á árinu 2011 eða rúmlega 50% af skatttekjum. Til félagsþjónustu var veitt  864 milljónum og er þar meðtalin málefni fatlaðs fólks sem er ný þjónusta sem sveitarfélagið sinnir. Vel hefur tekist til við rekstur þessa nýja málaflokks og var hann samkvæmt áætlun.  Íþrótta- og æskulýðsmál eru þriðja stærsta verkefni bæjarins en til þeirra mála var varið um 523 millj. kr. á árinu 2011.


Nýr leikskóli og hjúkrunarheimili í byggingu

Í framkvæmdir var varið á árinu 2011 um 390 millj. kr. Stærsta einstaka framkvæmdin er bygging nýs 30 rýma hjúkrunarheimils við Hlaðhamra.  Til þeirrar framvkæmdar runnu um 139 millj. kr. en áætlaður byggingarkostnaður er um 800 millj. kr. Nýr leikskóli var tekinn í notkun á árinu 2011, Leirvogstunguskóli og er það bylting í þjónustu við það hverfi sem er í örri uppbyggingu.

Mosfellsbær hefur nú lokið því þriggja ára ferli sem lagt var upp með til að bregðast við afleiðingum hrunsins.  Fjárhagsáætlun fyrir árið 2012 gerir ráð fyrir rekstrarafgangi ásamt töluverðri uppbyggingu.  Lokið verður við byggingu hjúkrunarheimilis, nýr íþróttasalur byggður að Varmá og hafist handa við byggingu nýs framhaldsskóla í miðbænum í samvinnu við ríkisvaldið.


Reikningurinn verður lagður fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn 11. apríl og til síðari umræðu 25. apríl.

 

  

Nánari upplýsingar veitir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri í síma 862 0012

 

Sjá nánar: http://mos.is/Stjornsysla/Fjarmal/

 


Arsreikningur Mosfellsbr 2011 me aritun bjarras.pdf
Frettatilkynning arsreikningur 2011 final.pdf