Published: 2012-03-01 09:05:43 CET
Hagar hf.
Fyrirtækjafréttir

Eignabjarg selur 13,3% hlut í Högum hf. fyrir 2,8 milljarða króna

Fjárfestar óskuðu eftir að kaupa fyrir alls 7,9 milljarða króna í útboðinu

Lokuðu útboði á hlutabréfum í Högum hf. lauk kl. 17:00 í gær, 29. febrúar. Fjárfestingabankasvið Arion banka hafði umsjón með útboðinu en seljandi hlutanna er Eignabjarg ehf., dótturfélag bankans.

 

Í útboðinu seldi Eignabjarg 162.253.609 hluti eða 13,33% af útgefnu hlutafé í Högum hf. til fjárfesta. Heildarsöluandvirði útboðsins nemur tæpum 2,8 milljörðum króna. Hæsta gengi á tilboðum fjárfesta sem samþykkt voru án skerðingar nam 17,20 kr. á hlut en lægsta gengi á tilboðum fjárfesta sem samþykkt voru án skerðingar nam 17,05 kr. á hlut. Tilboð fjárfesta á genginu 17,00 kr. á hlut voru skert um 50% en lægri tilboðum var hafnað. Í útboðinu bárust gild tilboð um kaup frá fjárfestum fyrir alls um 7,9 milljarða króna. Útboðið fór fram í samræmi við b-lið 1. mgr. 50. gr. laga nr. 108/2007.

 

Eftir söluna er eignarhlutur Eignabjargs kominn niður í 5,98% af útgefnu hlutafé í Högum, en ákvörðun seljanda um endanlega stærð útboðs tók mið af þeim tilboðum sem bárust. Eins og fram kom í tilkynningu hafði Fjármálaeftirlitið staðfest að það gerði ekki athugasemd við að Eignabjarg héldi eftir upp að 10% eignarhlut eftir söluna.

 

Nánari upplýsingar veita:

Haraldur Guðni Eiðsson, upplýsingafulltrúi Arion banka í síma 856 7108

Halldór Bjarkar Lúðvígsson, framkvæmdastjóri Fjárfestingabankasviðs Arion banka í síma 856 6541