English Icelandic
Birt: 2011-03-11 10:23:29 CET
NASDAQ Iceland hf.
Markaðstilkynningar

Hlutabréf Össurar hf. tekin til viðskipta á grundvelli 23. gr. laga um kauphallir

NASDAQ OMX Iceland hf. (Kauphöllin) hefur ákveðið að taka hlutabréf Össurar hf. til viðskipta þann 28. mars 2011. Ákvörðunin er tekin að frumkvæði Kauphallarinnar. Hún byggir á 23. gr. laga um kauphallir nr. 110/2007 sem heimilar kauphöll að taka verðbréf til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði án samþykkis útgefanda hafi verðbréfin verið tekin til viðskipta á öðrum skipulegum verðbréfamarkaði á Evrópska efnahagssvæðinu.

Ákvörðun Kauphallarinnar um að taka hlutabréf Össurar til viðskipta að eigin frumkvæði er tekin með hliðsjón af þeim gjaldeyrishöftum sem nú eru við lýði á Íslandi. Gjaldeyrishöftin þýða að Kauphöllin er eini skipulegi verðbréfamarkaðurinn þar sem íslenskir fjárfestar, þ.m.t. íslenskir hluthafar Össurar, geta keypt og selt hlutabréf í félaginu án takmarkana.

Viðskipti með hlutabréf Össurar munu lúta sömu reglum og eftirliti og önnur viðskipti með hlutabréf í Kauphöllinni. Samkvæmt 23. gr. laga um kauphallir er Össuri ekki skylt að sinna upplýsingaskyldu gagnvart Kauphöllinni enda er taka til viðskipta ekki gerð með samþykki félagsins. Félagið sinnir hins vegar upplýsingaskyldu gagnvart NASDAQ OMX kauphöllinni í Kaupmannahöfn. Opinberar tilkynningar félagsins má því sem fyrr nálgast á vefsíðu Kauphallarinnar á slóðinni www.nasdaqomxnordic.com/Frettir

Kauphöllin mun fljótlega senda frá sér aðra tilkynningu með nánari upplýsingum um töku hlutabréfa Össurar til viðskipta, svo sem um nýtt auðkenni í viðskiptakerfinu.

 

Frekari upplýsingar veitir:

Kristín Jóhannsdóttir

kristin.johannsdottir@nasdaqomx.com

868 9836