English Icelandic
Birt: 2011-02-14 15:22:15 CET
Icelandair Group hf.
Reikningsskil

Icelandair Group - gott ár að baki og fjárhagslegri endurskipulagningu lokið

Afkoma á fjórða ársfjórðungi 2010

  • Heildarvelta var 18,8 milljarðar króna og jókst um 3% frá fyrra ári.
  • EBITDA var 1,1 milljarður króna en var neikvæð um 0,2 milljarðar króna á sama tíma í fyrra.
  • EBIT var neikvæð um 1,0 milljarð króna en var neikvæð um 2,9 milljarða króna á sama tíma í fyrra. Afskriftir voru 2,1 milljarðar króna sem er lækkun um 0,6 milljarða frá fyrra ári.
  • Söluhagnaður eigna í tengslum við endurskipulagningu efnahagsreiknings félagsins nam 4.2 milljörðum króna.
  • Fjármagnskostnaður var 0,6 milljarðar króna samanborið við 2,9 milljarð króna árið áður.
  • Hagnaður eftir skatta var 1,4 milljarðar króna samanborið við 9,6 milljarða króna tap á sama tímabili í fyrra.

 

Afkoma árið 2010

  • Heildarvelta var 88,0 milljarðar króna og jókst um 10% á milli ára.
  • EBITDA var 12,6 milljarðar króna en var 8,1 milljarður króna árið á undan.
  • EBIT var 6,3 milljarðar króna en nam um 1,5 milljarða króna á árinu á undan. Afskriftir voru 6,3 milljarðar króna sem er lækkun um 0,3 milljarða frá fyrra ári.
  • Fjármagnskostnaður var 3,5 milljarðar króna samanborið við 6,0 milljarða króna árið áður.
  • Hagnaður eftir skatta var 4,6 milljarðar króna en tap eftir skatta nam 10,7 milljörðum króna árið 2009.
  • Handbært fé og skammtímaverðbréf í lok ársins 2010 var 13 milljarðar króna, en var 1,9 milljarðar árið áður.
  • Heildareignir námu 84,2 milljörðum króna og eiginfjárhlutfall var 33,7 % í lok árs 2010, en voru 89,1 milljarðar og 16,4% í lok árs 2009.

 

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri:

„Eitt viðburðarríkasta ár í sögu félagsins er að baki. Í fyrsta lagi skilaði félagið besta rekstrarárangri frá upphafi og nam EBITDA 12,6 milljörðum króna og var 4,4 milljörðum króna hærri en árið 2009. Niðurstaðan er mun betri en upphaflegar áætlanir okkar gerðu ráð fyrir og einnig betri en síðasta afkomuspá okkar gaf til kynna en hún hljóðaði uppá EBITDA 11,5 milljarða króna. Bætt afkoma félagsins skýrist fyrst og fremst af mikilli aukningu í farþegatekjum hjá Icelandair. Farþegatekjur jukust vegna bættrar sætanýtingar og góðrar tekjustýringar í leiðakerfinu. Farþegum á Norður-Atlantshafsmarkaðnum fjölgaði mikið og námu þeir 38% af heildarfarþegafjölda félagsins samanborið við 28% árið 2009. Til viðbótar er ánægjulegt að greina frá því að flest dótturfélög okkar skiluðu góðri afkomu á árinu.

Í annan stað sýndi félagið og starfsfólkið okkar fádæma sveigjanleika og áræðni í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli í apríl síðastliðnum. Á sama tíma og nær allar flugsamgöngur í Evrópu lömuðust í um vikutíma náðum við að halda okkar flugáætlun uppi með því að flytja tengibankann til Glasgow, ásamt því að fljúga til Akureyrar í stað Keflavíkur. Þrátt fyrir að eldgosið hafi verið félaginu kostnaðarsamt til skemmri tíma þá er það mín trú að landkynningin sem gosið olli muni til lengri tíma skila sér í fjölgun ferðamanna til landsins.

Í þriðja lagi lauk fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins, en mikil vinna fór í það ferli á árinu og er ég mjög ánægður með árangurinn. Endurskipulagningin skiptist í þrjá meginþætti: útgáfu nýs hlutafjár, breytingu skulda stærstu lánveitenda í hlutafé og lækkun vaxtaberandi skulda vegna sölu eigna. Í kjölfarið hækkar eiginfjárhlutfallið úr 16,4% í lok árs 2009 í 33,7% í lok árs 2010.

Við höfum einfaldað stefnu félagsins og mun áherslan verða á kjarnastarfsemina sem byggir á leiðakerfi Icelandair og tengdum rekstri. Við gerum ekki ráð fyrir að ná jafn góðri afkomu á árinu 2011 og við gerðum á árinu 2010. Olíuverðshækkanir munu draga úr arðsemi ásamt því að gert er ráð fyrir lækkunum á meðalfargjöldum. Jafnframt er líklegt að væntanlegar skatta- og gjaldhækkanir hafi neikvæð áhrif á eftirspurn og rekstur samstæðunnar. Samningar eru lausir við alla starfshópa hjá félaginu. Við þær aðstæður er vissulega veruleg óvissa en ég vonast til þess að niðurstaða samninga verði ásættanleg fyrir alla aðila. Samkeppni mun aukast á árinu og því mikilvægt að við náum að sigla inn í þá auknu samkeppni með samninga við alla starfsmenn. Þrátt fyrir þetta sé ég ekki ástæðu til annars en bjartsýni á komandi mánuðum. Langtímahorfur samstæðunnar eru góðar, viðskiptalíkanið hefur að okkar mati sannað sig og eftir endurskipulagninguna er efnahagsreikningurinn sterkur og lausafjárstaða góð.“

  

Frekari upplýsingar veita:

Björgólfur Jóhannsson: forstjóri Icelandair Group sími: 896-1455
Bogi Nils Bogason: framkvæmdastjóri fjármála Icelandair Group sími: 665-8801

 


Icelandair Group_Financial statement 31.12 2010.pdf
Icelandair Group_Frettatilkynning_Q4 og 2010.pdf