English Icelandic
Birt: 2011-02-07 13:48:57 CET
Eyrir Invest hf.
Reikningsskil

Afkoma Eyris Invest ehf. 2010

Góð arðsemi og traustur efnahagur

  • Hagnaður af rekstri Eyris Invest árið 2010 nam 52 milljónum evra [2009; EUR -24 m]
  • Heildareignir Eyris eru 426 m evra sem fjármagnaðar eru með eigin fé og langtímalánum      
  • Eigið fé í árslok 2010 er 187 milljónir evra og eiginfjárhlutfall er 44% [2009; 38%]
  • Í árslok 2010 gerði Eyrir samkomulag um langtíma bankalán að fjárhæð samtals 150 m evra.   Lánin eru fjölmyntalán með lokagjalddaga í maí 2014  
  • Horfur í rekstri Eyris og lykileigna eru góðar.  Á síðastliðnum árum hafa félögin stöðugt styrkt markaðsstöðu sína og eru vel í stakk búin til að njóta góðs af efnahagsbata á heimsvísu.  Fjármögnun þeirra er í samræmi við stefnu og alþjóðleg viðmið þar sem nettó skuldir eru á bilinu 2-3 x EBITDA hagnaður

Lykileignir Eyris eru 32% eignarhlutur í Marel, 14% eignarhlutur í Össuri og 17% eignarhlutur í Stork BV sem á og rekur Stork-orkuiðnað og Fokker-flugiðnað.

Eyrir Invest hefur skilað góðri ávöxtun til hluthafa frá stofnun félagsins á miðju ári 2000 og reiknast   innra virði hlutabréfa 18,5 evrusent á hlut um síðustu áramót á móti stofnverði sem var 1,4 evrucent á hlut.  Heimsmarkaðsverð hlutabréfa hefur lækkað að meðaltali um 4% árlega sem jafngildir 34% lækkun á sama tímabili (MSCI).

 Árni Oddur Þórðarson, forstjóri:

„Staða Eyris er sterk og við erum að skila myndarlegum hagnaði á árinu 2010 sem er mikill viðsnúningur frá árinu 2009. Í fjárfestingarstarfssemi er betra að meta árangur yfir lengri tímabil en einungis eitt ár í senn.   Við erum stolt af því hvernig tekist hefur að skapa verðmæti í Eyri á síðustu 3 árum við um margt erfiðar aðstæður, sem og á þeim 10 árum sem liðin eru frá stofnun félagsins.  

Stjórnendur og starfsfólk hjá okkar lykilfélögum hafa náð framúrskarandi árangri. Á síðustu árum hafa félögin stöðugt styrkt markaðsstöðu sína og eru vel í stakk búin til að njóta efnahagsbata á heimsvísu. Við horfum við því björtum augum til framtíðar.“ 

 

Eyrir Invest – starfsemi og afkoma

Kaupa og styðja til vaxtar stefna Eyris hefur skilað góðri arðsemi síðustu ár. Eyrir hefur verið hluthafi í Marel og Össuri frá árinu 2004 og gerðist hluthafi í Stork í upphafi árs 2006. Stork var afskráð af Amsterdam markaði í ársbyrjun ársins 2008 og samhliða því tók Marel rekstur Stork-matvælaiðnaðar yfir. Í dag rekur Stork BV, Stork-orkuiðnað og Fokker-flugiðnað. Að auki styður Eyrir ýmsa sprota til vaxtar.

Síðustu ár hafa lykilfélög Eyris styrkt stöðu sína með stöðugri fjárfestingu í rannsóknum og þróun og frekari markaðsaðgangi. Öll hafa þau skilað vaxandi sjóðstreymi og er fjárhagsstyrkur mikill, með nettóskuldir á móti EBITDA hagnaði um 2-3x í árslok 2010.

Eignarhlutur Eyris í Marel sem er 32% af heildarhlutafé félagsins um síðustu áramót, bókast samkvæmt hlutdeildaraðferð. Eignarhlutur í Marel bókast á 62 evrusent um síðustu áramót til samanburðar við viðskiptaverð 65 evrusent (100 ISK). Frá áramótum hefur hlutabréfaverð Marels haldið áfram að styrkjast í takt við aukin umsvif og bættan rekstur og er nú um 74 evrusent (117,5 ISK).

Á árinu 2010 seldi Eyrir 23 m hluta í Össuri og er eignarhlutur Eyris í félaginu því tæp 14% Í árslok.   Þar sem eignarhlutur í Össuri fer niður fyrir 15% af heildarhlutafé, er eignarhluturinn bókaður á markaðsvirði frá og með 31. október 2010 í stað hlutdeildaraðferðar áður.

Eignarhlutur Eyris í Stork BV er 17%. Stork stendur á tveimur meginstoðum í dag: Stork Technical Services og Fokker Technologies, sem felur annars vegar í sér þjónustu við orkuiðnað og hins vegar þjónustu við flugiðnað.  Eyrir metur eignarhlut sinn í Stork samkvæmt gangvirðisaðferð (fair value approach) þar sem stuðst er við kennitölur á markaði og í yfirtökum ásamt sjóðstreymisverðmati. Varfærnu mati er beitt samkæmt gangvirðisaðferð. Samhliða batnandi afkomu og lækkandi skuldsetningu hækkaði bókfært verð á Stork um 6% á árinu 2010.

Horfur

Horft fram á veginn er búist við góðum vexti og virðisaukningu í þeim atvinnugreinum sem kjölfestueignir Eyris Invest tilheyra; matvæla-, heilbrigðis-, orku- og flugiðnaði. Á síðastliðnum árum hafa lykilfélög Eyris stöðugt styrkt markaðsstöðu sína og eru vel í stakk búin til að njóta góðs af efnahagsbata á heimsvísu.   Afkoma getur verið breytileg frá ári til árs. Frekari upplýsingar veitir: Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Eyris InvestSími: 525-0200

www.eyrir.is

Um Eyri

Eyrir er alþjóðlegt fjárfestingarfélag sem leggur ríka áherslu á virka þátttöku í rekstri og stefnumörkun lykileigna  sinna.  Eyrir Invest var stofnað um mitt ár 2000.    

Athygli fjárfesta er vakin á eftirfarandi

Sumar staðhæfingar í þessari fréttatilkynningu kunna að vera byggðar á mati og áætlunum stjórnenda félagsins en ekki á staðreyndum sem hægt er að sannreyna við birtingu hennar. Í eðli sínu fela slíkar staðhæfingar því í sér óvissu. Við vekjum þess vegna athygli fjárfesta á því að margir þættir geta haft þau áhrif að rekstrarumhverfi og afkoma verði með öðrum hætti en forsendur gera ráð fyrir í þessari tilkynningu. Tilkynningin verður ekki endurskoðuð eftir birtingu hvað þetta varðar. 

 


Eyrir afkomufrett 2010.pdf
Eyrir Invest Annual Results 2010.pdf
Eyrir lykiltolur 2010.pdf