English Icelandic
Birt: 2011-02-02 16:40:10 CET
Marel hf.
Reikningsskil

Marel kynnir afkomu ársins 2010

Sterkur vöxtur og góð arðsemi

  • Tekjur ársins 2010 námu 600,4 milljónum evra. Tekjur af kjarnastarfsemi voru 582,1 milljónir evra, sem er 34% aukning samanborið við árið áður [2009: 434,8 milljónir evra].[1]
  • Leiðrétt EBITDA af kjarnastarfsemi var 88.1 milljónir evra, sem er 15,1% af tekjum [2009: 47,4 milljónir]. EBITDA af heildarstarfsemi 2010 var 82,2 milljónir evra [2009: 58,8 milljónir]. [2]
  • Leiðréttur rekstarhagnaður (EBIT) af kjarnastarfsemi var 64,1 milljónir evra, sem er 11% af tekjum [2009: 24,8 milljónir evra]. EBIT af heildarstarfsemi árið 2010 var 57,3 milljónir evra [2009: 8,0 milljónir evra].
  • Hagnaður af heildarstarfsemi árið 2010 eftir skatta var 13,6 milljónir evra [2009: 11,8 milljón evra tap].
  • Sjóðstreymi er sterkt og nettó vaxtaberandi skuldir hafa lækkað í 256,7 milljónir evra í lok árs 2010 [2009: 295,0 milljónir evra].
  • Félagið tryggði sér langtíma heildarfjármögnun að upphæð 350 milljónir evra á hagstæðum kjörum.
  • Pantanabók styrktist með hverjum ársfjórðungi í kjölfar stöðugs framboðs nýrra vara og batnandi markaðsaðstæðna. Pantanabók var 162,2 milljónir evra í lok árs [2009: 105,8 milljónir evra].

Árið 2010 var mjög gott hjá Marel. Tekjur af kjarnastarfsemi námu 582,1 milljónum evra, sem er 34% aukning miðað við árið á undan. Markaðsvirkni jókst stöðugt eftir sem leið á árið og nýjar pantanir voru fleiri en afgreiddar pantanir á hverjum ársfjórðungi. Pantanabókin styrktist þannig jafnt og þétt og var 162,2 milljónir evra í árslok, sem er met hjá fyrirtækinu og 53% aukning miðað við sama tíma fyrir ári.

Ný langtímafjármögnun sem Marel tryggði sér í nóvember 2010 að upphæð 350 milljónir evra markaði tímamót. Samningurinn, sem sex alþjóðlegir bankar standa að, skapar fyrirtækinu sterkan grundvöll til framtíðar.

 

Theo Hoen, forstjóri:

„Marel náði framúrskarandi árangri á fjórða ársfjórðungi. Þetta var besti ársfjórðungur okkar frá upphafi og bindur endahnútinn á mjög gott ár. Með mikilli aukningu í fjölda pantana á fjórða ársfjórðungi náði pantanabókin nýjum hæðum. Rekstrarhagnaður (EBIT) var 12% á fjórða ársfjórðungi og 11% fyrir árið í heild, sem er í fullu samræmi við markmið okkar um 10-12% rekstrarhagnað. Ákvörðun okkar um að viðhalda fjárfestingu í nýsköpun og vöruþróun, þrátt fyrir erfitt rekstrarumhverfi, er nú tvímælalaust að skila sér. Við höfum kynnt fjölda nýrra tækja og lausna til sögunnar á árinu og munum halda því áfram.

Endurfjármögnun félagins á fjórða ársfjórðungi markaði tímamót. Vaxandi EBITDA og lækkandi skuldir gerði okkur kleift að ná hagstæðri langtíma fjármögnun með samningi við hóp sex alþjóðlegra banka. Við erum nú í góðri stöðu til að uppskera ávinninginn af því að vera orðin að einu sameinuðu fyrirtæki.

Við byggjum á sannreyndu viðskiptalíkani þar sem markaðsáhersla, nýsköpun og rekstrarhagræði eru í fyrirrúmi.  Horft fram á veginn erum við þess fullviss að við munum ná markmiðum okkar um góða arðsemi og vöxt.“

 

Afkoma fjórða ársfjórðungs 2010

Framúrskarandi afkoma og sterk pantanabók

Marel náði framúrskarandi árangri á ársfjórðungnum og námu tekjur 167,7 milljónum evra, EBITDA var 26,1 milljónir evra og EBIT var 20,1 milljónir evra.

  • Tekjur á fjórða ársfjórðungi 2010 námu 167,7 milljónum evra, sem er 49% aukning miðað við tekjur af kjarnastarfsemi á sama tímabili fyrir ári [Q4 2009: 112,5 milljónir evra af kjarnastarfsemi; 135,7 milljónir af heildarstarfsemi].
  • EBITDA var 26,1 milljónir evra á ársfjórðungnum, sem er 15,6% af tekjum [Q4 2009: 12,8 milljónir evra af kjarnastarfsemi; 12,0 milljónir evra af heildarstarfsemi].
  • Rekstarhagnaður (EBIT) var 20,1 milljónir evra, sem er 12% af tekjum [Q4 2009: 6,9 milljónir evra af kjarnastarfsemi; 19,6 milljónir evra af heildarstarfsemi].
  • Hagnaður af heildarstarfsemi eftir skatta var 5,5 milljónir evra á fjórða ársfjórðungi 2010 [Q4 2009: 23,0 milljóna evra tap].
  • Samþættingu Marel og Stork Food Systems í eitt félag lauk formlega á þriðja ársfjórðungi. Nú er áhersla lögð á aukna arðsemi og innri vöxt á grundvelli markaðsaðgangs, nýsköpunar og rekstraryfirburða.

Marel hefur notið góðs af þeirri ákvörðun að viðhalda fjárfestingu í rannsóknar- og þróunarstarfi á undanförnum tveimur árum. Þökk sé stöðugu framboði nýrra vara námu nýjar pantanir (þjónustutekjur meðtaldar) 188,6 milljónum evra á fjórða ársfjórðungi 2010, samanborið við 132,2 milljónir á sama tímabili fyrir ári. Vinnan sem lögð hefur verið í að samþætta sölu- og þjónustunetið hefur átt stóran þátt í að styrkja enn frekar markaðsstöðu fyrirtækisins. Fjöldi stórra pantana er nú aftur orðinn sambærilegur við það sem hann var fyrir fjármálakreppuna og viðskiptavinir eiga ekki lengur í vandræðum með að fjármagna slík verkefni. Enn á ný voru nýjar pantanir fleiri en afgreiddar pantanir. Fyrir vikið hefur pantanabókin aldrei verið stærri. Var hún 162,2 milljónir evra í lok ársins 2010 samanborið við 105,8 milljónir evra á sama tíma fyrir ári. Sterk pantanbók gerir Marel kleift að byrja árið 2011 af krafti.

Handbært fé frá rekstri er áfram traust og nemur 33,5 milljónum evra fyrir fjármagnsliði og skatta á fjórða ársfjórðungi og 114,9 milljónum evra fyrir árið í heild. Efnahagsreikningurinn er sterkur og eru nettó skuldir 256,7 milljónir evra samanborið við 295,0 milljónir evra fyrir ári síðan.

  

Afkoma fjórða ársfjórðungs 2010

Rekstur fjórða ársfjórðungs – helstu tölur í þúsundum evra

Rekstrarreikningur   Q4 YTD Q4 YTD
Kjarnastarfsemi   2010 2010 2009 2009
           
Tekjur   167.677 582.130 112.492 434.796
Framlegð   63.162 221.410 43.682 166.160
Framlegð sem hlutfall af sölu   37,7% 38,0% 38,8% 38,2%
Aðrar rekstrartekjur (kostnaður)   110  (672)  (246)  (602)
Aðrar rekstrartekjur (kostnaður) sem hlutfall af sölu   0,1% 0,1% 0,2% 0,1%
Sölu--, stjórnunar- og almennur kostnaður    (33.313)  (120.671)  (28.741)  (112.397)
Sölu- og stjórnunar kostnaður sem hlutfall af sölu   19,9% 20,7% 25,5% 25,9%
Rannsóknar- og þróunarkostnaður    (9.896)  (35.924)  (7.775)  (28.402)
Rannsóknar- og þróunarkostnaður sem hlutfall af sölu   5,9% 6,2% 6,9% 6,5%
Rekstrarhagnaður (EBIT)   20.063 64.144 6.920 24.760
EBIT sem hlutfall af sölu   12,0% 11,0% 6,2% 5,7%
EBITDA   26.104 88.060 12.763 47.432
EBITDA sem hlutfall af sölu   15,6% 15,1% 11,3% 10,9%
Nýjar pantanir 1) 188.604 638.453 132.187 474.077
Pantanabók     162.155   105.832
           
1) Þjónustutekjur meðtaldar.          
           
Á samstæðugrunni   Q4 YTD Q4 YTD
    2010 2010 2009 2009
Sjóðstreymi          
Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta   33.451 114.881 17.084 75.395
           
Handbært fé frá rekstri   20.759 78.986 756 25.526
Fjárfestingar    (6.097)  (16.757)  (4.588) 10.758
Fjármögnun    (36.459)  (67.453) 20.114 10.168
Nettó aukning (minnkun) á handbæru fé    (21.797)  (5.224) 16.385 46.452
           
Efnahagur          
Nettó vaxtaberandi skuldir     256.741   295.012
Veltufé 2) 59.794   107.149
           
2) Viðskiptakröfur, birgðir, verk í vinnslu og lánardrottnar.          
           
Kennitölur          
Veltufjárhlutfall     1,4   1,6
Lausafjárhlutfall     1,0   1,2
Fjöldi útistandandi hluta     730.291   727.136
Markaðsvirði hlutafjár í milljónum evra m.v. gengi í lok tímabils     473,5   210,3
Arðsemi eiginfjár     4,1%   (3,9)%
Hagnaður per hlut í evru sentum     1,87   (1,96)

 

Helstu atburðir á tímabilinu

Fjármögnun

Þann 25. nóvember sl. undirritaði Marel samning við sex alþjóðlega banka um langtímafjármögnun að upphæð 350 milljónir evra. Meðal vaxtakjör í upphafi samnings eru EURIBOR/LIBOR + 320bpsog mun fara lækkandi á lánstímabilinu, í takt við aukinn fjárhagslegan styrk fyrirtækisins. Nýja fjármögnunin markar tímamót og skapar fyrirtækinu sterkan grundvöll til framtíðar. Samningurinn gerir félaginu kleift að endurfjármagna allar núverandi skuldir á hagstæðum kjörum. Sá stöðugleiki og sveigjanleiki sem fjármögnunin hefur í för með sér styður einnig við langtímaáætlanir og áframhaldandi vöxt fyrirtækisins. Að auki gerir fjármögnunin fulla samþættingu starfseminnar mögulega.

Í tengslum við endurfjármögnunina tilkynnti Marel þann 1. nóvember 2010 að félagið hyggðist gera eigendum skuldabréfa sem skráð eru á NASDAQ OMX Iceland undir nafninu MARL 06 1 skilyrt tilboð um endurkaup á bréfunum. MARL 06 1 skuldabréfin voru einu eftirstandandi skuldir Marel sem félagið gat ekki skilyrðislaust greitt upp að vild. Með endurkaupunum sóttist Marel eftir því að draga enn frekar úr gjaldeyrisáhættu í efnahagsreikningi félagsins. Eigendur samtals 65,65 % af útistandandi bréfum í flokknum tóku tilboði Marel um endurkaup á pari. Eftir endurkaupin nema eftirstandandi skuldir í íslenskum krónum samtals 7,5 milljónum evra, sem félagið telur vera ásættanlega gjaldeyrisáhættu.

Kostnaðaraðhald og áhersla á sjóðstreymi

Marel leggur áfram ríka áherslu á kostnaðaraðhald og hagræðingu. Áfram er unnið að því tryggja að sú lækkun á kostnaðargrunni félagsins sem náðst hefur á undanförnum ársfjórðungum verði varanleg þrátt fyrir aukin umsvif.

Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skattavar jákvætt um 33,5 milljónir evra á fjórða ársfjórðungi. . Aðgerðir til að draga úr veltufé héldu áfram að skilasérí bættu veltufjárhlutfalli. Núverandi lausafjárstaða er góð og nemur 63 milljónum evra. Fyrirtækið er vel í stakk búið til að takast á við vöxt og það markaðsumhverfi sem nú ríkir.

Rekstrarumhverfi

Kjarnastarfsemi Marel beinist að fjórum undirgreinum matvælaiðnaðarins: Vinnslu á kjúklingi, fiski, kjöti og frekari vinnslu.

Kjúklingur: Vinsældir kjúklings halda áfram að aukast eftir því sem neytendur sækja í auknum mæli í ódýrara prótein. Aukningin í fjölda pantana á árinu var því enn og aftur mest í kjúklingageiranum, þar með talið í fjölda stórra pantana bæði á hefðbundnum markaðssvæðum og á nýmörkuðum. Nokkrar stórar pantanir bárust á fjórða ársfjórðungi, þar á meðal fyrir nýjar verksmiðjur í Kína og Rússlandi (sjá „viðskiptavinur í nærmynd“ hér að neðan). Ný samþættuð lausn var kynnt á árinu þar sem saman fara AMF-BX úrbeiningarlínu og SensorX beinaleitarkerfi. Lausninni var vel tekið af viðskiptavinum enda setur hún ný viðmið hvað varðar framleiðslustýringu, framleiðni og áreiðanleika. Almennt eru horfur fyrir 2011 jákvæðar.

Fiskur: Hátt hráefnisverð og samþjöppun í iðnaðinum gera það að verkum að fiskverkendur sækjast eftir því að fjárfesta í aukinni sjálfvirkni og bættri nýtingu, vörugæðum og almennri hagkvæmni. Hámörkun á því virði sem fæst úr hráefninu er forgangsatriði. Áframhaldandi vöxtur er í fiskeldi. Laxaframleiðendur í Noregi nýta sér áfram þau tækifæri sem hafa skapast við fall laxaiðnaðarins í Chile eftir veirufaraldur. Í lok ársins keypti stór framleiðandi þar í landi annað stórt SureTrack kerfi fyrir flokkun á heilum laxi, en uppsetningu á fyrra kerfinu lauk fyrr á árinu.

Kjöt: Mikil virkni á ársfjórðungnum í Evrópu, Ástralíu og Suður Ameríku gefur til kynna að umfangsmiklar fjárfestingar séu í vændum á fyrri hluta árs 2011. Framleiðendur halda áfram að sýna aukinn áhuga á sjálfvirkni og bættu eftirliti með framleiðsluferlinu, einkum þar sem hráefniskostnaður er hár og skortur  er á vinnuafli. Nýjar pantanir voru þó aðeins undir væntingum á fjórða ársfjórðungi og var nokkrum stórum verkefnum frestað vegna ókyrrðar á markaði, sérstaklega á Bandaríkjamarkaði þar sem lágt vöruverð og skortur á eftirspurn hafa haft sitt að segja. Engu að síður voru nokkur StreamLine úrbeiningar- og snyrtikerfi seld til viðskiptavina sem sóttust eftir að auka arðsemi.

Frekari vinnsla: Áframhaldandi vöxtur er í eftirspurn eftir unnum vörum. Neytendur eyða sífellt minni tíma í eldamennsku og sækjast þess í stað eftir auknu úrvali tilbúinna rétta. Þá halda skyndibitastaðir áfram að dafna. Framleiðendur fjárfesta í auknum mæli í nýjungum sem gera þeim kleift að bregðast við síbreytilegum óskum neytenda. Töluverð aukning var í sölu á Townsend Further Processing vörulínu fyrirtækisins og átti velgengni RevoPortioner þar stóran hlut að máli. RevoPortioner byggir á byltingarkenndri lágþrýstitækni við mótun og skurði á margskonar vörum, þ.á.m. hamborgurum, nöggum og steikum. Reiknað er með áframhaldandi vexti í geiranum árið 2011.

Viðskiptavinur í nærmynd – BEZRK-Belgrankorm, Rússlandi: BEZRK-Belgrankorm er leiðandi fyrirtæki í vinnslu á kjúklingi í mið-Rússlandi sem leggur mikið upp úr nútímalegum og framsæknum vinnsluaðferðum. Fyrirtækið áformar að hefja útflutning á kjúklingaafurðum til Evrópu og skrifaði þess vegna nýlega undir samning við Marel um kaup á búnaði fyrir nýja verksmiðju. Áætluð afköst verksmiðjunnar eru 12.000 kjúklingar á klukkustund til að byrja með. Pöntunin er frá Stork Poultry Processing vörulínu Marel og nam 18,3 milljónum evra.

 „Við höfum verið samstarfsaðilar í meira en fimm ár núna,“ segir Alexander Orlov, stjórnarformaður og aðaleigandi BEZRK-Belgrankorm. „Gæði Stork Poultry Processing búnaðarins og þjónustunnar sem fyrirtækið veitir tala sínu máli. Tækin eru mjög áreiðanleg og áherslan á nýsköpun veitir okkur öryggi þegar við horfum fram á veginn. Það er ákaflega jákvætt að Marel og Stork Poultry Processing skuli nú vera orðið að einu fyrirtæki sem byggir á einni samræmdri stefnu, stefnu sem skilar sér í lausnum við þeim vandamálum sem við glímum við daglega.“ Reiknað er með að nýja verksmiðjan verði tekin í notkun sumarið 2011 og verður heildarafkastageta hennar meira en 150 þúsund tonn af kjúklingi á ári.

 

Horfur

Markaðsaðstæður héldu áfram að batna á árinu 2010 með hverjum mánuði sem leið. Marel hefur styrkt markaðsstöðu sína enn frekar og sterk pantanabók tryggir að árið 2011 fer vel af stað. Horfur fyrir árið eru góðar. Engu að síður má gera ráð fyrir að afkoman verði breytileg milli ársfjórðunga vegna sveiflna í pöntunum og tímasetningu stærri verkefna.

 

Kynningarfundur 3. febrúar 2010

Marel boðar til kynningarfundar um afkomu félagsins fimmtudaginn 3. febrúar kl. 8:30 í húsnæði félagsins að Austurhrauni 9, Garðabær. Fundinum verður einnig netvarpað: www.marel.com/webcast

 

Birtingardagar fyrir reikningsárið 2010 og aðalfundur 2011

  • Aðalfundur Marel hf.                                                          2. mars 2011
  • 1. ársfjórðungur 2011                                                         27. apríl 2011
  • 2. ársfjórðungur 2011                                                         27. júlí 2011
  • 3. ársfjórðungur 2011                                                         26. október 2011
  • 4. ársfjórðungur 2011                                                         1. febrúar 2012
  • Aðalfundur Marel hf.                                                          29. febrúar 2011
  •  

Frekari upplýsingar veita:

Jón Ingi Herbertsson, fjárfesta- og almannatengsl. Sími: 563-8451

Erik Kaman, fjármálastjóri. Sími: 563-8072

Sigsteinn Grétarsson, forstjóri Marel ehf. Sími: 563-8072

 

 

Um Marel
Marel er í hópi stærstu útflutningsfyrirtækja landsins og er í fararbroddi á heimsvísu í þróun og framleiðslu á háþróuðum búnaði og kerfum til vinnslu á fiski, kjöti og kjúklingi. Fyrirtækið starfrækir skrifstofur og dótturfyrirtæki í meira en 30 löndum, auk 100 umboðsmanna og dreifingaraðila.
 
Athygli fjárfesta er vakin á eftirfarandi:
Sumar staðhæfingar í þessari fréttatilkynningu kunna að vera byggðar á mati og áætlunum stjórnenda félagsins en ekki á staðreyndum sem hægt er að sannreyna við birtingu hennar. Í eðli sínu fela slíkar staðhæfingar því í sér óvissu. Við vekjum þess vegna athygli fjárfesta á því að margir þættir geta haft þau áhrif að rekstrarumhverfi og afkoma verði með öðrum hætti en forsendur gera ráð fyrir í þessari tilkynningu. Tilkynningin verður ekki endurskoðuð eftir birtingu hvað þetta varðar.
 

 

 

[1]Sölu helstu eigna félagsins utan kjarnastarfsemi var lokið á fyrsta ársfjórðungi 2010 þegar Carnitech A/S og Food & Dairy Systems voru seld. Afkomutölur frá Carnitech A/S eru taldar með í heildarafkoma ársins 2010 fram til 1. febrúar 2010 og tölur frá Food & Dairy Systems til 31. mars 2010. Þegar afkoma ársins 2010 er borin saman við árið á undan er þess vegna gagnlegra að miða við afkomu af kjarnastarfsemi en heildarafkomu.

 

 

[2]Leiðrétt fyrir einskiptisliðum sem nema samtals 7,9 milljónum evra á árinu, þar af 7,6 milljónum evra vegna kostnaðar tengdum lífeyrissjóði Stork.

 

 


Financial Statements 2010.pdf
Frettatilkynning afkoma 2010.pdf