English Icelandic
Birt: 2008-09-17 18:36:04 CEST
NASDAQ Iceland hf.
Kauphallartilkynningar
- OMX Nordic Exchange Iceland hf. beitir Nýsi hf. févíti
OMX Nordic Exchange Iceland hf. (Kauphöllin) hefur ákveðið að áminna Nýsi
hf.
(útgefandi, félagið) opinberlega og beita félagið févíti að fjárhæð
kr.
1.500.000 vegna atvika þar sem útgefandi er talinn hafa gerst brotlegur
við
ákvæði reglna fyrir útgefendur fjármálagerninga í Kauphöllinni. Er
útgefandi,
Nýsir hf., talinn hafa brotið gegn ákvæðum 4.1.3, 4.1.4, 4.2.1 og
4.2.2 (4.2.3)
í reglunum með eftirfarandi háttsemi (Þann 1. júlí sl. tóku
gildi nýjar reglur
fyrir útgefendur fjármálagerninga í OMX Nordic Exchange
Iceland hf. Þau ákvæði
sem vísað er til eiga sér samsvörun í eldri reglum og
verður vísað til eldri
ákvæða innan sviga ef breyting hefur orðið á númeraröð
ákvæða).

Málavextir

Þann 2. apríl sl. birti útgefandi, Nýsir hf.,
tilkynningu vegna ársuppgjörs
félagsins fyrir árið 2007. Kom þar meðal annars
fram að stjórn félagsins hefði
gert samning við Landsbanka Íslands um aðstoð
við sölu á eignum, öflun nýs
hlutafjár og fjárhagslega endurskipulagningu lána
til að tryggja framgang
þeirra verkefna sem félagið væri með í þróun. Enn
fremur kom fram í
athugasemdum með ársreikningnum að stjórn félagsins hefði
fulla trú á því að
fjárhagsleg endurskipulagning félagsins næði fram að ganga.
Þó var sá fyrirvari
á að ef endurskipulagning félagsins næði ekki fram að
ganga af einhverjum
ástæðum gæti það valdið mikilli óvissu um framtíð
félagsins. 

Um miðjan júní sl. var upplýst í fjölmiðlum um erfiða
fjárhagsstöðu Nýsis hf.
og fyrirhugaða endurfjármögnun og endurskipulagningu á
fjármálum félagsins, þ.
á m. í tengslum við greiðslufall á verðbréfum
félagsins sem voru í viðskiptum í
Kauphöllinni. Í kjölfarið fór Kauphöllin
fram á að félagið birti opinberlega
tilkynningu vegna umræddra aðgerða og
stöðu þess í tengslum við uppgjör á
verðbréfum sem voru í viðskiptum í
Kauphöllinni. Tilkynning félagsins var birt
18. júní sl. og kom þar fram að á
grundvelli samkomulags við eigendur
markaðsbréfa félagsins sem voru á
gjalddaga í mars og apríl hefðu átt sér stað
viðræður um uppgjör krafnanna og
af hálfu félagsins væri að því stefnt að
niðurstaða myndi nást innan fárra
vikna. Enn fremur væri stefnt að samkomulagi
við eigendur þriggja annarra
markaðsflokka sem væru í viðskiptum í
Kauphöllinni. 

Skuldabréfaflokkur
Nýsis hf. NYSI 03 1 féll í gjalddaga 17. júlí sl. Óskaði
Kauphöllin á ný eftir
tilkynningu frá félaginu þar sem fyrri tilkynning var
ekki talin fullnægja
upplýsingaskyldu útgefanda að því leyti að ekki hefði
verið upplýst um að
dráttur yrði á afborgunum á þeim flokkum verðbréfa sem voru
í viðskiptum í
Kauphöllinni. Félagið birti opinberlega tilkynningu 22. júlí sl.
þar sem meðal
annars kom fram  að full endurskipulagning félagsins myndi taka
lengri tíma og
dráttur yrði á greiðslum þangað til þeirri endurskipulagningu
yrði lokið.


Ákvæði reglna Kauphallarinnar

Samkvæmt ákvæði 4.2.1 í reglum fyrir
útgefendur fjármálagerninga í Kauphöllinni
skal útgefandi kappkosta að birta
án tafar allar áður óbirtar upplýsingar um
ákvarðanir eða atvik sem hann vissi
eða mátti vita að hefðu marktæk áhrif á
markaðsverð skuldabréfa hans. Í ákvæði
4.2.2 (4.2.3) kemur fram að tilkynna
skuli um allar ákvarðanir eða atvik sem
varða réttindi eigenda skuldabréfa. Í
skýringum með ákvæðinu segir að meðal
annars sé um að ræða atriði eins og drátt
á afborgunum höfuðstóls og/eða
vaxta. Í ákvæði 4.1.3 í reglunum segir að
útgefandi skuli gæta jafnræðis
fjárfesta um aðgang að upplýsingum sem reglurnar
taki til og meðhöndla og
varðveita með þeim hætti að óviðkomandi hafi ekki
aðgang að slíkum upplýsingum
áður en þær eru gerðar opinberar. Allar
upplýsingar sem reglurnar taka til
skal birta án tafar eða eins fljótt og unnt
er, sbr. ákvæði 4.1.4.


Niðurstaða

Upplýsingar um fjárhagsstöðu útgefanda og greiðsluörðugleika
eru upplýsingar
sem útgefandi mátti vita að hefðu marktæk áhrif á markaðsverð
verðbréfa hans,
sbr. ákvæði 4.2.1 í reglum Kauphallarinnar. Þegar ljóst er að
útgefandi
verðbréfa getur ekki staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt
skilmálum
verðbréfa sem eru til viðskipta í Kauphöll, s.s. greiðslu á
afborgunum
höfuðstóls og/eða vaxta þá er brýnt að fjárfestar séu upplýstir um
það, sbr.
ákvæði 4.2.2 (4.2.3) í reglum Kauphallarinnar. Þær almennu
upplýsingar sem fram
komu í tilkynningu með ársuppgjöri félagsins um
fjárhagslega endurskipulagningu
félagsins sem birt var 2. apríl sl. eru ekki
fullnægjandi þar sem ekki var
upplýst um að dráttur yrði á greiðslum af
verðbréfum útgefnum af félaginu. Gera
verður þá kröfu til útgefanda verðbréfa
að upplýsingagjöf um atriði sem kunna
að hafa verðmótandi þýðingu sé viðhaldið
og þær tilkynningar sem birtar hafa
verið séu uppfærðar í samræmi við nýjar
upplýsingar sem koma fram. 

Ekki er einungis mikilvægt að gæta að hagsmunum
eigenda útgefinna verðbréfa
heldur verður að huga að því að þegar verðbréf
hafa verið tekin til viðskipta í
kauphöll er auðvelt að koma þeim í verð. Það
er því nauðsynlegt að hugsanlegir
fjárfestar séu upplýstir um fjárhagsstöðu
útgefanda og greiðsluhæfi. Það leysir
útgefanda ekki undan upplýsingaskyldu
sinni að upplýsa einungis eigendur
útgefinna verðbréfa um fjárhagsörðugleika
og vanskil á greiðslum. Með slíkri
valkvæðri upplýsingagjöf til afmarkaðs hóps
fjárfesta er verið að brjóta gegn
jafnræði aðila á markaði um aðgang að
upplýsingum sem kunna að hafa marktæk
áhrif á markaðsverð verðbréfa útgefanda,
sbr. ákvæði 4.1.3. 

Útgefandi verðbréfa ber ábyrgð á því að upplýsingar sem
geta talist hafa
marktæk áhrif á markaðsverð verðbréfa hans séu birtar í
samræmi við ákvæði
reglna Kauphallarinnar og að slíkar upplýsingar komi ekki
fram í fjölmiðlum
áður en þær eru gerðar opinberar með fullnægjandi hætti í
samræmi við
fyrrgreind ákvæði. Samkvæmt ofangreindum ákvæðum er útgefanda
skylt að birta
slíkar upplýsingar án tafar eða eins fljótt og unnt er. Ef
birting upplýsinga
er dregin á langinn er hætt við að þær berist út með
ófullnægjandi hætti og
jafnræði fjárfesta um aðgang að upplýsingunum sé
stofnað í hættu, sbr. ákvæði
4.1.3. 

Nýsir hf. gerði samning við
Kauphöllina um töku verðbréfa þess til viðskipta.
Félagið gekkst með því undir
reglur Kauphallarinnar um upplýsingagjöf.
Kauphöllin telur að Nýsi hf. hafi
borið að birta tilkynningu um slæma
fjárhagsstöðu félagsins og fyrirhugaða
endurskipulagningu um leið og ljóst var
að dráttur yrði á afborgunum af
verðbréfum útgefanda sem voru í viðskiptum í
Kauphöllinni. Upplýsingaskyldu
útgefanda var ekki fullnægt við það að haft var
samráð við eigendur
verðbréfanna. Svo mikilsverðar upplýsingar þurfa að koma
fram í opinberri
tilkynningu. Einnig er það ámælisvert að verðmótandi
upplýsingar hafi komið
fram í fjölmiðlum áður en þær voru birtar með
sannanlegum og réttum hætti.
Þegar horft er til málavaxta og að teknu tilliti
til framkominna raka
útgefanda telur Kauphöllin að útgefandi hafi með háttsemi
sinni í umræddum
tilfellum brotið gegn ákvæðum 4.1.3, 4.1.4, 4.2.1 og 4.2.2
(4.2.3) í reglum
fyrir útgefendur fjármálagerninga í Kauphöllinni. 

Ákvörðun um opinbera
áminningu og beitingu févítis

Kauphöllin áminnir Nýsi hf. opinberlega og
beitir félagið févíti að fjárhæð kr.
1.500.000 fyrir ofangreind brot á reglum
Kauphallarinnar. Ákvörðun um opinbera
áminningu og beitingu févítis er tekin á
grundvelli samnings Nýsis hf. við
Kauphöllina um töku verðbréfa félagsins til
viðskipta í Kauphöllinni, sbr.
ákvæði 8.3 í reglum fyrir útgefendur
fjármálagerninga í Kauphöllinni. Í 4.
tölulið ákvæðisins segir meðal annars að
vegna brota útgefanda á reglum
Kauphallarinnar sé henni heimilt að birta
opinbera yfirlýsingu varðandi umrætt
mál. Í 6. tl. er heimild fyrir
Kauphöllina til að beita útgefanda viðurlögum í
formi févítis.