Icelandic
Birt: 2021-04-29 15:00:00 CEST
Reykjavíkurborg
Ársreikningur

Reykjavíkurborg - Ársreikningur

Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2020 var lagður fyrir borgarráð í dag 29. apríl og vísað til fyrri umræðu í borgarstjórn þann 4. maí næstkomandi.  

Áhrif heimsfaraldurs kórónuveiru birtast í rekstri borgarsjóðs og A- og B-hluta Reykjavíkurborgar á árinu 2020. Hröð kólnun í hagkerfinu á fyrri hluta ársins og lokanir vegna faraldursins hafa leitt til þess að sá vöxtur tekna sem gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun 2020 hefur ekki skilað sér hvort sem litið er til útsvarstekna eða annarra tekna.  Einnig hafði veiking krónunnar umtalsverð áhrif á erlend lán Orkuveitu. Mikill tekjusamdráttur hefur orðið hjá Faxaflóahöfnum og Strætó auk Sorpu bs. sökum samdráttar í ferðaþjónustu og minni umsvifa innanlands. Ennþá er talsverð óvissa um hversu lengi ástandið varir og hvenær megi ætla að hjól atvinnulífsins fari að snúast aftur af fullum krafti og af þeim sökum erfitt að meta áhrif á rekstur og efnahag borgarinnar með áreiðanlegum hætti til framtíðar. Græna planið er viðspyrnuáætlun Reykjavíkur og gerir ráð fyrir umfangsmiklum grænum fjárfestingum og stafrænni umbreytingu sem hluta af leið borgarinnar út úr efnahagskreppunni. Áætlanir stjórnvalda um bólusetningar gefa tilefni til bjartsýni á að unnt verði að ráða niðurlögum faraldursins á þessu ári.

Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta Reykjavíkurborgar var neikvæð um 2.778 m.kr. en áætlanir gerðu ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu um 11.879 m.kr. Þá var rekstrarniðurstaða A-hluta neikvæð um 5.843 m.kr. en áætlun gerði ráð fyrir að hún yrði jákvæð um 1.517 m.kr. á árinu. 

Helstu frávik frá áætlun A- og B-hluta má rekja til lægri tekna B-hluta fyrirtækja vegna Covid-19 áhrifa, gjaldfærslu gengismunar hjá Orkuveitu vegna veikingar krónunnar auk frávika í A-hluta. Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var jákvæð um 12.535 m.kr., sem er 11.327 m.kr. lakari niðurstaða en áætlun gerði ráð fyrir.

Rekstrarniðurstaða A hluta skýrist einkum af 2.727 m.kr. lægri skatttekjum en áætlun gerði ráð fyrir og að tekjur af sölu byggingarréttar voru 3.217 m.kr. undir áætlun. Launakostnaður var 1.714 m.kr. yfir áætlun og þá var annar rekstrarkostnaður 1.165 m.kr. yfir áætlun.  Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var neikvæð um 5.940 m.kr. en áætlun gerði ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu um 2.018 m.kr. 

Heildareignir samkvæmt samanteknum efnahagsreikningi námu í árslok 730.431 m.kr., heildarskuldir ásamt skuldbindingum voru 385.842 m.kr. og eigið fé var 344.588 m.kr. en þar af var hlutdeild meðeigenda 19.176 m.kr.  Eiginfjárhlutfall er nú 47,2% en var 49,9% um síðustu áramót.

Rekstur Reykjavíkurborgar skiptist í A-hluta og B-hluta. Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum. Um er að ræða Aðalsjóð, sem heldur utan um rekstur fagsviða og Eignasjóð.

Til B-hluta teljast fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu borgarinnar, en rekstur þeirra er að stofni til fjármagnaður með þjónustutekjum. Fyrirtækin eru:

Orkuveita Reykjavíkur, Faxaflóahafnir sf., Félagsbústaðir hf., Íþrótta- og sýningahöllin hf., Malbikunarstöðin Höfði hf., Slökkvilið höfuðborgar­svæðisins bs., Sorpa bs. og Strætó bs, auk Aflvaka hf og Þjóðarleikvangs ehf.

Reykjavík, 29. apríl 2021.

Nánari upplýsingar veitir
Halldóra Káradóttir sviðsstjóri fjármála- og áhættustýringarsviðs
halldora.karadottir@reykjavik.is

Viðhengi



Arsreikningur Reykjavikurborgar 31.12.2020.pdf
Reykjavikurborg - Skyrsla fjarmala- og ahttustyringarsvis me arsreikningi 2020.pdf